Rétt­mæti þess að ganga yfir götu

06.2.2021 ~ 1 mín

Kaup­manna­skól­inn. Ég nenni ekki að fá á mig holskeflu af viðbrögðum frá nemendum kaup­manna­skól­ans og ég vil heldur ekki raska því viðkvæma jafn­vægi sem þetta hlýtur allt að hvíla á, vil ekki setja þetta úr skorðum, þetta vist­kerfi, svo ég sé hvort ég kemst upp með að kalla hann kaup­manna­skól­ann. Það er gang­braut milli kaup­manna­skól­ans og versl­un­ar­mið­stöðv­ar­innar við hlið­ina á honum. Kringl­unnar. Það hlýtur að vera óhætt að nefna Kringl­una. Það er gang­braut þarna á milli. Ég keyri eftir þess­ari götu svotil daglega, á leið til vinnu, eins konar sveita­veg í borg­inni, það má finna sér leið fram­hjá stofn­braut­unum að mestu og dóla þessa sveita­vegi milli staða. Það hentar mér betur á því tiltekna tæki sem ég hef til ráðstöf­unar, bíl sem heldur að hann sé bátur eða öfugt, segir oftar dugguduggudugg en brumm-brumm. Á þess­ari gang­braut eru alltaf nemendur á ferð, í Kringl­una eða úr Kringl­unni. Og ég hef aldrei held ég, aldrei á ævi minni, séð fólk fara yfir gang­braut í jafn mikilli full­vissu um rétt sinn til að stöðva umferð vélknú­inna ökutækja. Ég hef reyndar sjaldan orðið vitni að jafn mikilli full­vissu fólks, sameig­in­lega, um rétt­mæti þess erindis sem þau eru að reka yfir­leitt. En hvað þá yfir gang­braut. Ekkert þeirra lítur til hliða áður en þau stíga yfir götuna. Ekkert þeirra hægir á sér. Ég stað­næm­ist auðvitað, í hvert sinn, sit síðan og undr­ast þar til mér er óhætt að aka af stað. Þau vita nú þegar að þau munu erfa þennan heim. Og hafa ekki hugmynd um að þar með er ekki öll sagan sögð. Þetta er eins konar sakleysi. Eða því svipar til sakleysis. (Ef ég aðhyll­ist stjórn­mála­stefnu snýst hún um að einmitt svona megi allir ganga yfir götu.)