Haukur afi

04.2.2021 ~ 2 mín

Afi minn dó á dögunum. Segir maður svoleiðis? Ég veit að hann lést og hann andað­ist, það er í það minnsta það sem gerist í útvarp­inu. Hann er farinn, þannig segir maður það kannski oftast innan fjöl­skyld­unnar. Hann fór. Hann dó.

Ég skrifa ekki minn­ing­ar­grein um hann, að minnsta kosti ekki að sinni, til þess stóð hann mér of nærri. Það lá beinna við að skrifa minn­ing­ar­grein um móðurafa minn, sem lést á liðnu ári, þar lágu meiri fjar­lægðir á milli frá því um alda­mót. En það var aldrei langt á milli mín og föðurafa míns, Hauks afa, ekki heldur þegar hann var svo ósam­mála mér um eitt­hvað að honum þótti ekki taka því að ræða það. Og ekki þegar hann missti málið að mestu leyti, eftir heila­blóð­fall. Orðin sem hann hélt eftir dugðu honum til annast nálægð­ina við fólkið í kringum sig. Já já, elskan mín. Bara svona.

Hvor­ugur þeirra lést af völdum Covid. Ég get ekki útilokað að fjar­veran sem sótt­varn­irnar útheimta hafi átt sinn þátt í að þeim hrak­aði kannski hraðar en þeim hefði annars gert. Ég ætla ekki að full­yrða um það heldur. Fólk deyr. Sérfræð­ingar munu gera okkur grein fyrir því þegar fram líða stundir, út frá gögnum, hvaða áhrif það allt hefur þá haft, til og frá.

Nálægðir og fjar­lægðir. Fjar­vera og nærvera.

Ég skrifa þetta vegna þess að það er mér efst í huga. Ég er að spá í að halda loks einhvers konar dagbók hér. Það er sjálf­gefið að það sem ég skrifa í dagbók hér er eitt­hvað allt annað en ég myndi skrifa í dagbók með sjálfum mér. Í ofanálag er líklegt að ég skrifi það frekar að nóttu en degi. En það má heita dagbók fyrir því. Eða leiðarbók.

Já, hvers vegna ekki leiðarbók?

Haukur afi var jarð­sung­inn við Fríkirkj­una í Hafnar­firði. Og hvílíkur jarð­söngur. Hann hafði víst sjálfur beðið um eitt lag – Brennið þið vitar. Karla­kór söng við orgell­eik og fyllti þessa fallegu litlu kirkju svo lagið hefur, dagana í kjöl­farið, ómað í sumum okkar sem sátum þarna. Við vöknum með þessum ósköpum.

Brennið þið, vitar. Hetjur styrkar standa
við stýris­völ, en nótt til beggja handa.

Brennið þið, vitar. Út við svarta sanda
særótið þylur dauðra manna nöfn.

Brennið þið, vitar. Lýsið hverjum landa,
sem leitar heim – og þráir höfn.