Ragnheiður og Jórunn ásamt nokkrum úr hópi þeirra sem hugðust hlýða á málflutning fyrir Landsrétti, 16. nóvember 2020.

Tján­ingar- og funda­frelsi: Lands­réttur ákveður hvort mótmæli mega valda ónæði

17.11.2020 ~ 3 mín

Mánu­dags­morg­un­inn 16. nóvem­ber 2020 fengum við Dísa far með mömmu að húsi Lands­réttar í Kópa­vogi. Þar voru örfáir komnir á undan okkur og annað eins bætt­ist síðan við, til að fylgj­ast með fram­haldi Samstöðu­máls­ins, sem svo hefur verið nefnt: máli ríkis­valds­ins gegn Ragn­heiði Freyju Krist­ín­ar­dóttur og Jórunni Eddu Helga­dóttur, systur minni.

Tilefni máls­ins er að vorið 2016 stóðu Jórunn og Ragn­heiður upp um borð í kyrr­stæðri flug­vél á malbik­inu við Leifs­stöð og vildu helst ekki setj­ast fyrr en fallið yrði frá brott­vísun manns sem sat þá nauð­ugur um borð í vélinni. Þremur árum síðar komst Héraðs­dómur Reykja­víkur að þeirri niður­stöðu að þetta hátt­erni þeirra varð­aði ekki við 168. grein hegn­ing­ar­laga, þær hefðu ekki „raskað öryggi loft­fars“, enda var flug­vélin sem fyrr segir kyrr­stæð, dyr hennar enn opnar. Þær voru hins vegar sakfelldar í veiga­minni ákæru­liðum, fyrir að valda töf á brott­för vélar­innar og fyrir að hafa ekki hlýtt flug­freyjum „um góða hegðun og reglu í loft­fari“. Í samráði við lögmenn sína, Ragnar Aðal­steins­son og Sigurð Örn Hilm­ars­son, áfrýj­uðu Ragn­heiður og Jórunn þess­ari niður­stöðu. Og nú, vel rúmum fjórum árum eftir að þær ollu á að giska kort­ers töf á leið nokk­urra ferða­langa úr landi, komst málið loks á dagskrá Landsréttar.

Hús Lands­réttar stendur eigin­lega niðri í fjöru. Frá bíla­stæð­inu dómstóls­ins gefst sérstakt útsýni yfir Reykja­vík, frá kyrr­stæðu flug­vél­unum á vell­inum í Vatns­mýri, yfir að sjúkra­hús­inu í Foss­vogi. Fyrir miðri þess­ari mynd stendur Öskju­hlíð, skóg­ur­inn svo rækt­ar­legur, dimm­grænn og þéttur þarna í húminu að stál­gráu flet­irnir innanum og ofaná fara allir hjá sér. Og þetta útsýni af bíla­stæð­inu skiptir máli fyrir þá sem hafa í hyggju að fylgj­ast með störfum dómstóla þessa dagana: vegna drep­sótt­ar­innar var aðeins einum gesti hleypt í Dómssal 1 við Lands­rétt þennan morgun. „Dómþing skal háð í heyr­anda hljóði,“ segir 70. grein stjórn­ar­skrár­innar. Er þá mynd- eða hljóð­streymi úr salnum, þó ekki væri nema innan­húss? Nei. Mætti opna dyrnar og fylgj­ast með úr dyra­gætt­inni? Nei. En gest­ur­inn eini gæti þá kannski streymt efni úr sinni tölvu – nei greip dómsvörður fram í, gest­inum eina er ekki heim­ilt að streyma frá rétt­ar­hald­inu. Fyrir utan máls­að­ila og dómara verður því um ókomna tíð ein einasta mann­eskja til frásagnar um það sem fram fór bakvið þessar kyrfi­lega luktu dyr. Kannski má til sanns vegar færa að þannig uppfylli dómstóll­inn stjórn­ar­skrárá­kvæðið í strangasta og bókstaf­lega skiln­ingi: Dómþing skal háð í heyr­anda hljóði, segir þar. Og ekki um að vill­ast, orðið er í eintölu.

Í máli ríkis­valds­ins gegn Ragn­heiði og Jórunni, sem var semsagt flutt í heyranda hljóði þarna við fjöru­borðið, þennan mánu­dags­morgun í nóvem­ber, er tekist á um grund­vall­ar­at­riði: rétt­inn til tján­ingar og mótmæla. Héraðs­dómur lét sig þann rétt ekki varða. Þar var hverri skír­skotun til þessa höfuð­at­riðis vísað á bug með eftir­far­andi setn­ingu í dóms­orði: „Þá sæta tján­ingar- og funda­frelsi ákveðnum takmörk­unum og geta ekki rétt­lætt hátt­semi ákærðu“. Þrátt fyrir víðtæka leit hefur enginn rökstuðn­ingur fund­ist í þess­ari setn­ingu. Hvergi umleikis hana, hvorki á undan setn­ing­unni né eftir, er þess getið hvers konar takmörk­unum tján­ingar- og funda­frelsið sæti eða hvað það er við hátt­semi ákærðu sem ekki beri að líta í ljósi þess frelsis. Það er veiga­mesta spurn­ingin sem tekist er á um í þessu máli og liggur nú fyrir Lands­rétti, hvaða vægi rétt­ur­inn til tján­ingar hefur – hvort ákvæði stjórn­ar­skrár og alþjóða­sátt­mála um mann­rétt­indi eru í reynd svo létt­væg að mótmæli þyki aðeins boðleg ef þau valda áreið­an­lega engu ónæði.

Ekkert afdrátt­ar­laust dóma­for­dæmi er til – niður­staða þessa máls mun veita fordæmi í þeim sem síðar koma. Málflutn­ingi er lokið. Í heyr­anda hljóði. Og úrskurðar er að vænta innan fjög­urra vikna.