Minn­ing­ar­orð um afa minn, Einar Magnús Guðmunds­son (1930–2020)

10.8.2020 ~ 7 mín

Afi minn hefði orðið níræður nú síðsum­ars en er fall­inn frá. Hann hét Einar Magnús Guðmunds­son, fædd­ist og ólst upp í Reykja­vík, unglingur þegar heims­styrj­öld­inni lauk, komm­ún­isti, kenn­ari, vélstjóri og leik­ari, gefinn fyrir skáld­skap, frekar kíminn en stríð­inn, með spurult glott sem ég ímynda mér að hafi lítið breyst frá því hann var barn á viðburða­ríku heim­ili við Fram­nes­veg. Dró seim­inn þegar hann ræddi stjórn­mál, var félagi í Amnesty Internati­onal, keypti Þjóð­vilj­ann og Newsweek og kunni Einræður Starkaðar utan­bókar, ef ekki allan Einar Ben, glás og gommu af lengri og skemmri ljóðum sem ruddu sér til rúms í samræðum eftir tilefni. Sjálfur orti hann ótal vísur á ótal miða og í litlar bækur sem lágu út um allt hús heima hjá þeim ömmu, það var eins og hluti af göngulagi hans, að pára hjá sér kvið­linga gegnum daginn, fara með þá ef honum þótti takast þolan­lega til. Hann gerði sitt með hægð en af einurð – á meðan hann hlustaði á hádeg­is­frétt­irnar tuggði hann mat af meiri einurð en ég hef annars séð mat tugg­inn, hrökk­brauð með hvít­lauksrifjum sem hann kreisti ofan á brauðið og þótti í frásögur færandi þegar hvít­laukur var enn svolítið nýstár­leg fæða hérlendis og þótti ekki lykta vel. Þetta var meðvituð hvít­lauksneysla, til að styrkja ónæmis­kerfið, afi bar sig eftir þess háttar nokkru áður en allir gerðu það. Það gerðu líklega fleiri lesendur Þjóð­vilj­ans, efnis­hyggju­menn í þeirri fyrri, marxí­sku merk­ingu orðs­ins að gera ekki endi­lega ráð fyrir að í tilver­unni leyn­ist fleiri deildir en þessi hér, við moldin, og rétt að gera gott úr því. Gera gott úr mold­inni, enda leyni hún á sér. Afi rækt­aði græn­meti í garð­inum þeirra ömmu, steytti hnef­ann að unglingum sem styttu sér leið gegnum garð­inn og yfir reit­ina en hafði blíð­lega orð á því við aðra viðstadda, um leið og hann hvarf úr glugg­anum, að unglingar væru besta fólk.

Afi var hrif­næmur og tárað­ist yfir vísu­kornum. Og hann var þrjóskur, heitir það, stundum sjálfum sér til óbóta, stundum öðrum. En veröldin er líka þrjósk og hún er misþyrm­inga­söm. Við, afkom­endur afa, vitum eða megum vita sitt­hvað um afleið­ingar þess alls. Guðmundur Axel Björns­son, faðir Einars og langafi minn, tók þátt í stofnun Verka­lýðs­fé­lags Kefla­víkur. Í janúar 1932 leiddi hann, sem formaður félags­ins, verk­falls­að­gerðir hafn­ar­verka­manna í bænum. Hann var þá varaður við því að fara til dyra ef ókunn­ugir menn skyldu banka upp á hjá honum. Forkólfar útgerð­ar­innar sáu við því og fengu félaga Axels, sem hann treysti, til að knýja dyra hjá honum klukkan þrjú að nóttu. Axel opnaði fyrir félaga sínum – og mætti þar í dyrunum sveit 20–30 manna sem voru komnir til að taka hinn liðlega þrítuga formann höndum. Þeir færðu hann nauð­ugan um borð í bát, sigldu á haf út og töluðu þar um að drekkja honum. Að endingu skil­uðu þeir Axel í land í Reykja­vík, á lífi, en gerðu honum ljóst að kæmi hann aftur til Kefla­víkur hlyti hann verra af.

Þá var afi tveggja ára. Sagan segir að faðir hans hafi ekki borið sitt barr eftir þetta atvik, orðið skrít­inn, stundum hafi hann ekki heilsað börnum sínum á götu – og hver veit hvað. Nú eru þau horfin frá sem voru til frásagnar um það. Við sitjum uppi með að púsla saman mynd af þess­ari fortíð úr brotum.

Hinu megin við miðja öldina, árið 1959, steig Einar sjálfur, nú tæplega þrítugur faðir fjög­urra barna, sín fyrstu skref sem nýút­skrif­aður leik­ari og fékk glimr­andi dóma hvarvetna. Í leik­dómi Morg­un­blaðs­ins um gaman­leik­inn Frjálsir fiskar, eftir Stefán Jóns­son, má lesa: „Þá kem ég að spútnik þeim, sem einhver skaut á loft upp ekki alls fyrir löngu, og snýst nú með vaxandi krafti kringum haus­inn á Þalíu. Hann heitir nú bara á íslenzku Einar Guðmunds­son, og hefur bara fjóra útlimi þrátt fyrir óvenju­lega hæfi­leika. Hann er án efa mesta grín­leik­ara-efni er komið hefur fram í mörg herr­ans ár.“ Aðrar umsagnir voru eftir þessu. Samferða­menn Einars í leik­hús­inu vöruðu hann hins vegar við að hann skyldi ekki flíka stjórn­mála­skoð­unum sínum óhóf­lega. Annar leik­ari ráðlagði honum að taka niður barm­merkið sem hann bar, ef hann vildi fá ráðn­ingu. Sem afi gerði ekki. Ráðgjaf­inn átti langan starfs­aldur fyrir höndum í leik­hús­unum, en afi sneri sér að vélsmíði.

Réði þetta úrslitum? Barm­merkin, póli­tísk útilokun, stétta­átök, þetta sem hét kalda stríðið? Þannig horfði það við afa. Sem barn heyrði ég aðra fjöl­skyldu­með­limi oftar minn­ast á bresti hans sjálfs í þessu samhengi. Þrjósk­una og hégómann. Eitt­hvert rifr­ildi við leik­stjóra. Og drykkj­una. Helvítis drykkj­una. Það er ekki víst að það sé sitt hvor sagan.

Ég veit ekki hvaða aðferðum karlar af kynslóð afa beittu til að greiða úr tilfinn­ingum sínum. Eða hvort um slíkt er yfir­leitt vit að tala í fleir­tölu. Um það hvernig faðir hans var hrak­inn frá Kefla­vík eða hvernig hann hvarf frá leik­hús­inu talaði hann ekki oft svo ég heyrði, fyrr en á allra síðustu árum. Honum þótti hvort tveggja leitt, jafn­vel sárt. En þegar það bar á góma, þegar hann sagði mér frá, eða okkur mömmu, þá heyrði ég þar aldrei neitt í ætt við beiskju. Furðu, já. Að svona skyldi þá vera í pott­inn búið. En mögu­lega var það meira tjón fyrir leik­hús­gesti að þessi spútnik skyldi ekki hafna á spor­baug, en fyrir hann sjálfan, sem naut annarra starfa.

Þegar Morg­un­blaðið birti leik­dóm­inn hér að ofan var móðir mín tveggja ára, næstyngst í hópi fjög­urra systkina. Nokkrum árum síðar, eftir íbúða­basl í Reykja­vík, fluttu þau til Kópa­vogs, Einar, Hafdís og börnin þeirra fjögur, og höfð­ust þar við í bílskúr á meðan fjöl­skyldufað­ir­inn byggði sjálft húsið við skúr­inn. Húsið tald­ist loks íbúð­ar­hæft um áratug síðar. Og börnin meira eða minna stálpuð. Þessi tíu ár í skúrnum voru flókin. Það er baga­legt að lifa þröngt með manni sem drekkur heldur oft, heldur illa.

Einar afi og Hafdís amma voru gift í 50 ár, allt þar til hún lést, haustið 2001. Þegar hún fór kom í ljós einhver fúi í fjöl­skyldu­bönd­unum og þegar á reyndi slitn­uðu þau. En ég var afabarn – ekki barn heldur barna­barn. Og hvað sem líður öðrum skarkala og átökum full­orðna fólks­ins þá var heim­ili afa og ömmu einhver allra besti staður sem ég bjó að í bernsku. Ég gekk að því sem vísu, á unglings­árum, að hverfa heim til þeirra í hverju hádeg­is­hléi, úr skól­anum. Úr þvotta­hús­inu lá angan af brugg­inu hans afa, veiga­mik­ill hluti af hinni tilteknu, samsettu heim­il­islykt þessa velgjörð­ar­fólks míns. Öðru ónæði varð ég sjálfur ekki fyrir af þeirri menn­ing­ar­hefð. Ég hámaði í mig banana­brauð og kex og blað­aði í Þjóð­vilj­anum, reyndi að vaxa upp úr mynda­sög­unum, á meðan afi maul­aði hrökk­brauð og hvít­lauk, með eyrun við hádeg­is­frétt­irnar. Það var gott, í mínu lífi var það áreið­an­leg gæða­stund, á árum þegar margt annað virt­ist á hverf­anda hveli.

Ég hitti afa síðast nú í sumar. Það tók mig drjúga stund, í þeirri heim­sókn, að stilla áheyrn mína þannig að ég greindi orða skil – hann talaði lágum rómi og fyrst rann allt saman, sérhljóðar og samhljóðar, eins og gamlir, máðir skrifstafir. En þegar ég náði áttum, tókst að greina orð frá orði, þá reynd­ist hugur hans ekki aðeins við liðna tíð, bernsk­una í Vest­ur­bænum, auðvaldið í Kefla­vík eða póli­tík­ina í leik­hús­unum, heldur leiddi hann líka talið að Black Lives Matter-hreyf­ing­unni, rétt­inda­bar­áttu svartra í Banda­ríkj­unum, í samstöðu sem honum þótti segja sig sjálf. Þegar við kvödd­umst bað hann mig fyrir heitan koss til konu minnar og glotti sínu græsku­laus­asta. Það var grall­araglott, skamm­hlaup beint frá stríðs­ár­unum í húsinu við Fram­nes­veg, iðandi af lífi og hörm­ungum. Nú horfnum heimi.

Fyrir athvarfið, fyrir opnar dyr, fyrir nærveru sem lét eins og hún væri sjálf­sögð, fyrir kímn­ina, uppnefnin og vísu­kornin, fyrir jólin öll sem við vörðum saman, fyrir dandí­is­mann, þvers­lauf­urnar, þessar óforskömm­uðu sund­skýlur í garð­inum og garðskál­anum, fyrir angan af ódýru sprútti og gömlum bókum, af sólar­vörn, hvít­lauk, gervi­leðri og blómum, fyrir þann sérstaka hátt sem afi hafði á að vera annars hugar og þó til staðar, og fyrir komm­ún­ismann í þessu öllu, chaplin­íska komm­ún­ismann hans afa, er ég þakklátur.