Vei! Veira! Meira!

08.6.2020 ~ 16 mín

Upplifun: að íslenskir fjöl­miðlar hneig­ist til þagnar og að sama eigi að nokkru leyti við um samfé­lags­miðla. Kannski er það ríkj­andi samskipta­mynstur, menn­ing­ar­arfur: að um leið og eitt­hvert viðfangs­efni krefur okkur um hlustun, umhugsun og samtal þá einkenn­ist samskiptin af óþol­in­móðri eftir­vænt­ingu eftir því að bund­inn verði endir á það allt. Því fyrr sem einhver hitti nagl­ann á höfuðið og geri okkur öllum kleift að þagna á ný, því betra. Þá sérstak­lega ef um deilu­efni eða átaka­mál er að ræða. Og ekki verra ef hann eða hún segir þá eitt­hvað fyndið. Virki­lega hohohar þetta vesen ofan í kokið á okkur.

Það er erfitt að henda reiður á stemn­ingu og vera viss um að maður sé ekki bara að ímynda sér hana eða ýkja. Að bera kennsl á mörkin milli manns eigin ótta, til dæmis spéhræðslu, og þrýst­ings að utan. Og þó að þrýst­ing­ur­inn sé til staðar, einhver krafa komi fram, getur verið vit að spyrja sig: jæja, gott og vel, þarna er þessi krafa, einhvern langar eitt­hvað, en hvernig yrði henni svosem fram­fylgt? Hvað er það versta sem gæti gerst? Að einhver hlæi að þér, ertu ekki vaxinn upp úr því að það trufli þig?

Mér sýnist þetta vera það versta sem getur gerst ef maður lærir ekki að slaka á og elska heims­far­ald­ur­inn, til dæmis. Einhver hlær þá bara, gott og vel.

Hughvarf

Það versta sem getur gerst ef við leiðum hjá okkur ákvarð­anir stjórn­valda í faraldr­inum og krefjum þau ekki um að gera grein fyrir forsend­unum að baki þeim er hins vegar að fólk deyr. Það getur verið fátt fólk eða margt, ungt eða gamalt, fleiri eða færri lífár í hættu.1 Almennt sýnist mér sú krafa vera uppi að við gerum okkur svolítið skeyt­ing­ar­laus um eigið hlut­skipti að þessu leyti, hvort sem er okkar eigið persónu­lega, okkar nánustu, ef við sjálf erum ekki í áhættu­hópi, eða samferða­fólks okkar yfirleitt.

Og þar upplifi ég aðra kröfu, eða svolítið pláss­frekt viðmið: að við lítum á líf okkar og limi frá sama sjón­ar­hóli og yfir­völd, hvort sem er sótt­varn­ar­yf­ir­völd sérstak­lega eða ríkið almennt. Að við hugsum um sjálf okkur tölfræði­lega og getum þá varpað öndinni léttar ef aðeins tíu manns látast, óháð því hvort einn af þessum tíu var náinn ættingi, vinur eða þess vegna maður sjálfur. 2 Það tilheyrir þessu viðmiði, þessu þeli, að þegar ríkið hefur komist að niður­stöðu – þegar embætt­is­menn greinir ekki á við stjórn­mála­menn og stjórn­mála­menn halda sínum þrætum á bakvið einhvern siðsem­is­skerm, mæla síðan einum rómi – þá sé það varla hlut­verk leik­manna að þræta eða efast.3 Og allra síst fjölmiðla.

Mér finnst þetta, í stystu máli, undar­legt andrúms­loft. Mér stendur stuggur af því. Og ég held að megi kalla það hugleysi. Hugleysi er gott orð. Ekki aðeins það að vera hræddur, það verðum við öll, heldur bregð­ast við óttanum með því að slíta sig frá eigin hugs­unum og stöðumati, aftengja sinn eigin hug og láta öðrum eftir allt þess háttar. Á þann hátt er krafan um ótta­leysi krafa um hugleysi. Þessi krafa – og undan­lát­semin við hana – birt­ist meðal annars í falskri rósemd og yfir­vegun fjöl­miðla, viðvar­andi svika­logni sem hvílir á viðleitni til að horf­ast ekki í augu við hvað sem á dynur í veröld­inni heldur beina athygli okkar frá því. Í sumum tilfellum með því að segja fréttir alls ekki, en oftar þó með því að ýta þeim til hliðar, gera þær horn­reka en einhverju tíðinda­leysi hærra undir höfði. Einhvers staðar er alltaf tíðinda­laust, einhvers staðar bærast alltaf strá í vindi, og ef vilj­inn er fyrir hendi má hjúpa hvaða átök sem er í lyft­u­tónlist, grafa þau undir fréttum af fugla­lífi, felu­lita þau með bokeh-effektum og pastellitum. Tóna heim­inn niður. Nokkur hluti íslenskra fjöl­miðla virð­ist mér líta svo á að erindi þeirra við lesendur sé það sama og erindi geðdeyfð­ar­lyfs, og það megin­hlut­verk þeirra að sefa okkur sé því brýnna sem meira er við að fást, þegar mest á dynur megi jafn­vel líta á það sem þátt í almanna­vörnum.4

Það kemur mér á óvart hvað þessi hugleys­is­hyggja virð­ist geta staðið af sér harðar áskor­anir. Ekki aðeins reyn­ast læknar Land­spít­al­ans ýmist efins um eða bein­línis mótfallnir útfærslu og tíma­setn­ingu stjórn­valda á opnun ferða­iðn­að­ar­ins, heldur, frá síðustu viku, hagfræð­ingar HÍ að auki. Þegar fram koma sann­fær­andi rök fyrir því, frá þessum sérdeilis máls­met­andi aðilum, að einmitt þessi útfærsla og þessi tíma­setn­ing sé hvorki æski­leg í heilsu­fars­legu tilliti né hagrænu, þá virð­ist enginn ætlast til þess af stjórn­völdum að þau rökstyðji sérstak­lega hvers vegna þau velja þessa leið og þessa tíma­setn­ingu samt.

Stjórn­völd skulda okkur alltaf svör

Að stjórn­völd séu fær um að standa fyrir svörum og rökstyðja ákvarð­anir sínar á opin­berum vett­vangi er ekki auka­at­riði, ekki frekja eða dyntir, heldur munur­inn á tilvist­ar­grund­velli lýðræð­is­ins og annarra stjórn­ar­hátta. Lýðræðið er reist á þeirri einu hugmynd að hvert eitt og einasta okkar sé jafn rétt­hátt í tilver­unni og yfir­ráð eins yfir öðrum sé þess vegna háð upplýstu samþykki þeirra sem er ráðið yfir. Þetta upplýsta samþykki er ýmist stað­fest eða dregið til baka með kosn­ingum, en þess á milli er það líka háð viðstöðu­lausu endur­mati, sem er aðeins mögu­legt þegar stjórn­völd bæði geta og vilja eiga samtal við okkur hin á jafn­ingja­grund­velli. Stjórn­völd skulda okkur alltaf svör. Það er þess vegna sem stjórn­ar­skrár­höf­und­ur­inn Thomas Jeffer­son sagði að ef hann yrði að velja myndi hann hiklaust heldur vilja búa við fjöl­miðla án stjórn­valda en stjórn­völd án fjöl­miðla.5

Sann­ar­lega getur hugs­ast að fyrir því séu frábær rök að opna landa­mærin og mark­aðs­setja landið til ferða­fólks á þann hátt og á þeim tíma sem stjórn­völd hafa valið. En það hafa þau ekki sýnt okkur. Þó er þetta alveg sérdeilis veiga­mikil ákvörðun. Þrátt fyrir alla óviss­una sem umlykur okkur eru nokkur atriði ljós. Ferða­menn munu bera smit til lands­ins, um það er enginn ágrein­ingur. Lífs­gæði í land­inu munu skerð­ast í jöfnu hlut­falli við fjölda smita: þá stefnir í að aftur verði það ámæl­is­verð áhættu­hegðun að sækja vinnu, fara í búð, faðma vin og heim­sækja ömmu sína á einum og sama deginum. Um leið þrengir að mann­rétt­indum í hlut­falli við smitin: fjölda­mót­mæli við Aust­ur­völl geta fljótt orðið óhugs­andi á ný, en það sama á við um hvaða nýtingu ferða­frelsis og funda­frelsis sem við helst kærum okkur um, hvert og eitt. Afmæl­is­veisl­urnar og brúð­kaupin sem Bryn­dís Sigurð­ar­dóttir minnt­ist á í liðinni viku. Síðast en ekki síst fjölgar nokkuð kúlunum í þess­ari viðvar­andi rúss­nesku rúll­ettu okkar, ákveðnir hópar verða bein­línis í aukinni lífs­hættu, aðrir í aukinni hættu á nokkuð fjöl­skrúð­ugum veik­indum. Svo þrennt það helsta sé þá talið: lífs­kjör, mann­rétt­indi og það að draga andann yfirleitt.

Og einhvern veginn virð­ist það ríkj­andi viðhorf að stefnu­mótun í málinu hljóti að heppn­ast því betur sem fleiri þegja um hana. Þetta land er auðvitað stapp­fullt af tóma­rúmi, það er víst eitt helsta aðdrátt­ar­afl þess, að nánast hvert sem maður teygir sig hérna grípur maður í tómt. En þetta tiltekna sinnu­leysi, og þessi tiltekna krafa um sinnu­leysi, okkar sjálfra um eigin tilveru, það er þó einhver skrítn­asta og, eigin­lega, skelfi­leg­asta tómhyggja sem ég hef orðið var við hér til þessa.6

Tómas Brynj­ólfs­son flytur erindi sitt á málþingi HÍ, Út úr kófinu, 3. júní 2020.

Hagfræð­ing­ur­inn og hugmyndaflugið

Þegar hagfræð­ingar og læknar bera fram efasemdir um gagnið af því að haga sótt­vörnum eftir þörfum ferða­iðn­að­ar­ins, en stjórn­völd halda sínu striki án þess að svara neinu, þá er ekki víst að spill­ing ráði för. Það er ekki víst að ákvörð­unin velti á sérhags­munum sem einhver ákvað að taka fram yfir heild­ar­hags­muni, og það sé ástæða þess að stjórn­völd þegi.

Önnur mögu­leg ástæða er andleg tregða. Ég meina þetta ekki illa, eða að minnsta kosti ekki af mikilli rætni, tregðan hrjáir okkur öll. Margt upplýs­andi kom fram á málþingi Háskóla Íslands um farald­ur­inn í upphafi þessa júní­mán­aðar. Auk erinda Bryn­dísar Sigurð­ar­dóttur og Gylfa Zoega, sem ég gat um daginn, var Tómas Brynj­ólfs­son meðal mælenda, yfir­maður á skrif­stofu efna­hags­mála í Fjár­mála­ráðu­neyt­inu. Erindi hans bar yfir­skrift­ina „Hagstjórn í takmörk­uðu skyggni“ og hófst með tölu­verðri gjaf­mildi, þegar Tómas greindi áheyr­endum frá takmark­aðri spágetu sinni og hagfræð­inga yfirleitt:

„Ég held að ef einhver hefði sagt mér í byrjun janúar eða í lok janúar að í ár stöndum við frammi fyrir dýpstu kreppu síðan 1920, þá hugsa ég að ég hefði bara hlegið að viðkom­andi. Og ég man að í byrjun febrúar var ég boðaður á fund og spurður hvort við gætum gert efna­hags­lega grein­ingu á því ef ákveðið væri að loka landa­mær­unum. Mér fannst það svo fárán­leg hugmynd að landa­mær­unum yrði lokað að ég hélt því fram að okkar tíma væri betur varið í ýmis­legt annað. … Enda hafði ég ekki, ég hafði ekki hugmynda­flug í að ímynda mér að Evrópa myndi lokast eða að Banda­ríkin myndu lokast. Og hversu hratt þetta allt saman gerðist.“

Tómas sýndi gröf til að bera saman ólíkar hagspár alþjóða­stofn­ana eftir mánuðum: bein lína upp, jafn og hægfara vöxtur, í öllum spám allt til 12. mars. Fyrst þann 6. apríl birt­ist hagspá frá Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóðnum, þar sem staðan hafði verið endur­metin og stofn­unin reikn­aði með nokkuð djúpum samdrætti á þessu ári. Stað­fest andlát af völdum veirunnar nálg­uð­ust 80.000 þegar alþjóða­stofn­anir á sviði efna­hags­mála gáfu það fyrst út, fyrir sitt leyti, að pestin myndi að líkindum setja dæld í hagvöxt­inn. Aðrar stofn­anir fylgdu, sagði Tómas, og þegar allir höfðu viður­kennt höggið kom að næstu spurn­ingu: hversu lang­vinn yrði kreppan? Tómas benti á gröfin sem hann sýndi með fyrir­lestr­inum og sagði:

„Ef þið horfið á þessa mynd, þá datt einum koll­ega mínum brand­ari í hug: hvað þarf marga hagfræð­inga til að spá fyrir um skamma niður­sveiflu og að við taki öflugur hagvöxtur? Það þarf bara einn, síðan fylgja allir hinir á eftir. En hins vegar vand­ast málið mjög mikið þegar kreppan er ekki skamm­vinn. Þá breyt­ist hugs­un­ar­hátt­ur­inn full­kom­lega. Það er nefni­lega stað­reynd að hagfræð­ingum gengur illa að spá fyrir um svona viðsnún­ing í hagkerf­inu. Hvort sem er að koma kreppa eða viðspyrna. Og þeim gengur sérstak­lega illa að spá fyrir um viðspyrnu í kreppum þegar þær eru ekki V‑laga. Og það er vegna þess að í tveimur þriðju hlutum tilfella, þá eru kreppur V‑laga. Það tekur við kröft­ugur hagvöxtur í kjöl­far svona áfalla. En þegar það gerist ekki, þá erum við mjög lengi að innbyrða þá staðreynd.“

Forskot viðvan­ing­anna

Með öðrum orðum er hugmynda­flug, eða skortur á því, takmark­andi þáttur í starfi hagfræð­inga eins og annarra. Og það hljómar senni­lega, eins og skrif­stofu­stjór­inn segir, að sá skortur verði alvar­leg­astur frammi fyrir stórum, óvæntum uppá­komum. Það hljómar ekki einu sinni fjar­stæðu­kennt að undir þeim kring­um­stæðum, á slíkum augna­blikum, geti ólærðir viðvan­ingar í einhverjum tilfellum verið sneggri að átta sig, af þeirri einföldu ástæðu að þeir hafa ekki jafn miklu að tapa: hagfræð­ingur við opin­bera stofnun hefur hugs­an­lega lagt margra mánaða vinnu í sína allra vönd­uð­ustu hagspá þegar fárán­leg, ófyr­ir­sjá­an­leg breyta ryður sér til rúms og þessir mánuðir verða sokk­inn kostn­aður. Hagfræð­ing­ur­inn þarf ekki aðeins að horf­ast í augu við breyttar aðstæður heldur að hann sjálfur hefði allt eins getað setið heima hjá sér og spilað Tetris þetta miss­eri. Viðvan­ing­ur­inn, hins vegar, gaf sér aldrei neitt, hélt aldrei neitt, gerði ekki ráð fyrir neinu. Þess vegna skjátl­að­ist honum ekki um neitt. Hann þarf ekki að reiða fram skýr­ingu, kenn­ingu eða módel – í saman­burði við sérfræð­ing­inn kostar það hann ekki neitt að horf­ast í augu við stað­reynd­ina þegar hún blasir við. Hann þarf ekki einu sinni að hrista á sér haus­inn, eða í öllu falli ekki mjög harka­lega.7 Og þó að hann viti þá varla neitt gæti hann þó mögu­lega verið sneggri að bera kennsl á það sem blasir við. Það er hughreyst­andi að skrif­stofu efna­hags­mála í Fjár­mála­ráðu­neyt­inu sé stýrt af manni sem horf­ist þó í augu við þetta tregðu­lög­mál og deilir því ærlega með öðrum.

Ef ærleg­asti efna­hags­ráð­gjafi ríkis­stjórn­ar­innar afþakk­aði pent, í febrúar, að meta afleið­ingar þess að landa­mæri ríkja myndu lokast, og ef Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóð­ur­inn gerði ekki ráð fyrir kreppu fyrr en í apríl, þá virð­ist ekki fráleitt að ímynda sér að óbreyttir stjórn­mála­menn gætu bundið vonir sínar við mild­ari fjar­stæður eins og tveimur mánuðum lengur. Það er ekki fráleit tilhugsun að tregðu­lög­mál skiln­ings­ins hafi á einhverjum tíma­punkti eitt­hvert skýr­ing­ar­gildi um einhverjar hliðar á einhverjum ákvörð­unum stjórnvalda.

Á þess­ari tilteknu, enn órök­studdu ákvörðun, að fella niður skyldu­sótt­kví allra komufar­þega þann 15. júní og bjóða í stað­inn upp á sýna­töku og grein­ingu með nokkuð hátt hlut­fall af fölskum niður­stöðum, hef ég þá nefnt tvær mögu­legar skýr­ingar: spill­ingu, sem er óþarft að kynna í löngu máli hér og nú, og óskhyggju, eða tregðu­lög­mál embætta og sérþekk­ingar. Loks er mögu­legt að eitt­hvað allt annað ráði úrslitum, forsenda sem ríkis­stjórnin telur enn óþarft að færa í orð. Kannski er í reynd ekki gert ráð fyrir að neinir ferða­menn komi hvort eð er. Kannski er leik­ur­inn aðeins til þess gerður að eigendur ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækja verði þá að beina reiði sinni að öðrum en ráðherr­unum. En hvað veit ég, þetta eru ágisk­anir út í bláinn. Vegna þess að enginn hefur svarað. Enda virð­ist enginn hafa spurt:

Hvaða veiga­miklu, ítar­legu og ígrund­uðu rök hafið þið fram að færa, sem hrekja gagn­rýni lækna og hagfræð­inga, og sann­færa okkur, viðvan­ing­ana sem þið starfið fyrir, án mælsku­bragða eða undan­bragða, um að 15. júní-planið meiki sens?

References
1 Frá því að Jeremy Bent­ham og John Stuart Mill lögðu drögin að nytja­hyggju sem grund­velli siðrænna ákvarð­ana, það er þeirri hugmynd að góðar gjörðir séu þær sem leiði til mestrar heild­ar­ham­ingju og lágmarki heild­arsárs­auka í heim­inum, var ein mótbáran við þetta viðmið að engin mæli­stika yrði full­nægj­andi forsenda þess­ara hamingju­reikn­inga. Önnur mótbára var sú að því nákvæm­ari sem mæli­stikan þó yrði, því meiri vinna hefði augljós­lega farið í að setja hana saman og beita henni, iðja sem væri ekki, út af fyrir sig, hams­laus gleði; að endingu gæti hver sem vildi hámarka hamingju sína og annarra þannig sólundað ævinni í að reikna út hvert sitt skref áður en hann tæki það og óðar en hann kæmist hænu­fet í rétta átt væri hann dauður. Ég endur­segi þetta víst ekki af mikilli nákvæmni hér, en það kemur mér til hugar þegar ég rakst á orðfæri fags­ins sem nú heitir heilsu­hag­fræði, sem grund­vall­ast einmitt á svona mæli­stikum og býr að umtals­verðri upplausn ef marka má orða­forð­ann: kostn­að­ar­nytja­grein­ing, kostn­að­ar­virkni­grein­ing og kostn­að­ar­ábata­grein­ing eru aðeins þrjú orð af ótal yfir líkana­smíð til að deila í lífs­líkur og gleði eins með vinnu­fram­lagi og kvölum annarra og sjá hvað borgar sig yfir­leitt að gera í því að fólk veikist. Heilsu­hag­fræðin miðar þá ekki aðeins við unnin lífár heldur lífs­gæða­vegin lífár, skammstafað QALY: „Health states must be valued on a scale where the value of being dead must be 0, because the absence of life is consi­d­ered to be worth 0 QALYs. By convention, the upper end of the scale is defined as perfect health, with a value of 1.“ Svona hljómar tára­dal­ur­inn sem excel-skjal, og ótal sann­fær­andi rök fyrir því að svona þurfi hann að hljóma, þess­ara útreikn­inga sé þörf, við séum í reynd alltaf að stunda þá, á einn veg eða annan – „ekki hættum við að aka bílum þó að fólk deyi í bílslysum“ – en eftir sem áður ætla ég ekki að skil­yrða það að fólk deyr af Covid-19 með viðkvæð­inu „um aldur fram“, eða „fyrr en ella“ eða draga úr tjón­inu með orða­lagi sem við beitum annars almennt ekki þegar ákvörðun eins leiðir til dauða annars. Það þykir slæmt, jafn­vel fordæm­an­legt, að draga fólk til dauða, óháð því að viðkom­andi hefði vissu­lega, í hverju einasta tilfelli, einn daginn dáið hvort eð er, jafn­vel ekki búið við lífs­gæði upp á heilt QALY þangað til.
2 Að hugsa til yfir­vof­andi lífs­hættu á tölfræði­legum forsendum, er það ekki bara rétt hótinu siðprúð­ari útfærsla á sama hugar­fari og þegar Donald Trump segir að George Floyd hljóti að fagna því, frá himnum, að atvinnu­leys­istölur í Banda­ríkj­unum fara nú lækk­andi? Ég veit að þetta er ekki til fyrir­myndar hjá mér, að smætta sjón­ar­mið niður í Trump fer að verða no-no, eins og að smætta þau niður í Hitler – en samt.
3 Ég segi leik­manna, meina borg­ara, en hvers vegna gerir íslenska engan grein­ar­mun á hugtök­unum civil og bour­geois? Er það af sömu ástæðu og jafn­vel forsæt­is­ráð­herra talar um þegna, í lýðveldi þar sem enginn þegn er þó til, aðeins ríkisborgarar?
4 Kannski á þetta við um miklu fleira en fjöl­miðla og samfé­lagsum­ræðu: þegar tíðindi gera vart við sig á skrif­stofum þess­ara miðla hlýtur þeim að líða svolítið eins og náms­manni sem á erindi við skrif­stofu LÍN. Hann hélt að skrif­stofan væru rekin hans vegna en áttar sig á því, strax í móttök­unni, að starfs­fólk­inu þykir ónæði af honum og þætti betra að hann léti þau í friði.
5 „The basis of our govern­ments being the opinion of the people, the very first object should be to keep that right; and were it left to me to decide whet­her we should have a govern­ment without newspa­pers or newspa­pers without a govern­ment, I should not hesi­tate a moment to prefer the latter.“ — Úr einka­bréfi, 1787, gúgl­ast prýðilega.
6 Stjórn­völd skulda okkur alltaf svör. Á sama tíma og lífið liggur við að okkur lánist að gera ráð fyrir því og bera fram sjálf­sagða kröfu í krafti þess, þá virð­ast fjöl­miðlar að veru­legu leyti mann­aðir fólki sem hneig­ist heldur til að gysast að því að þing­maður dirf­ist að beina spurn­ingum til opin­berra stofn­ana. Hundrað spurn­ingar – hvað haldið þið að þær kosti? Stofn­un­unum er þó, að lögum, skylt að svara að svara þing­mann­inum. Er furða að í þessu andrúms­lofti séu óbreyttir borg­arar tregir til að bera fram efasemdir?
7 Um einmitt þetta, hinn sokkna sálræna kostnað þess að viður­kenna að maður hafi haft rangt fyrir sér, er auðvitað til saga af klæð­lausum keisara.