Svartir þrælar Danmerkur í Amer­íku sáu Íslandi fyrir sykri og sjálfstæði

06.6.2020 ~ 12 mín

Dansukker

Danir báru ábyrgð á hlut­skipti um eitt prósent alls þess fólks sem Evrópu­ríki fluttu í þræl­dóm frá Afríku til Amer­íku: af 10–12 millj­ónum alls voru 111.000 hlekkj­aðir og fluttir milli álfanna í skipum dönsku krún­unnar og danskra fyrir­tækja. Stærsti hluti þessa fólks, alls um 86.000 manns, var fluttur á eyja­klas­ann sem hét þá Dönsku Vestur-Indíur en nefn­ist nú Banda­rísku Jómfrúreyjar, og haldið þar í ánauð. Þetta voru sykurplantekrur, þaðan kom sykur­inn í allt sæta­brauð Dana. Og þó að Ísland væri líka nýlenda í þessu ríki og líf íslensks alþýðu­fólks bæri á ýmsan hátt svip þræl­dóms frekar en frelsis, þá nutu Íslend­ingar einnig góðs af uppsker­unni frá nýlend­unum við Karíbahaf. Hér skorti sjaldn­ast sykur eða brennd vín.

Íbúar Íslands nutu þó ekki aðeins góðs af nauð­ung­ar­vinnu svartra í Dönsku Vestur-Indíum heldur, ekki síður, af uppreisn þeirra. Þegar að er gáð virð­ist þræla­upp­reisnin í Dönsku Vestur-Indíum í júlí 1848 nauð­syn­legur hlekkur til að sú atburða­rás sem við köllum sjálf­stæð­is­bar­áttu Íslend­inga gangi upp. Í ritinu Levi­at­han, sem kom út um miðja 17. öld, stað­hæfir Thomas Hobbes að sátt­máli sem gerður er án sverðs sé orðin tóm, megni ekki að tryggja eitt né neitt: „Coven­ants, without the sword, are but words and of no strength to secure a man at all“. Þetta er hugmyndin á bakvið vopn­uðu sveit­irnar sem starfa innan ríkja, lögreglu­liðin, að þeirra sé þörf til að fram­fylgja lögunum, sem annars væru orðin tóm. Að breyttu breyt­anda á sama við um heri og hand­rukk­ara, en líka verk­falls­vörslu og mótmæla­sam­komur: að krafa sem ekki er fram­fylgt með líkam­legu afli sé marklaus.

Ef orð eru mark­laus án slíkrar verald­legrar undir­stöðu, hvað var þá svona merki­legt við það að nokkrir prúð­búnir, íslenskir herra­menn stæðu upp, á fundi við erind­reka danska konungs­veld­is­ins árið 1851, og segð­ust allir mótmæla. Mótmæla? Þið og hvaða her? Hvaða verald­lega afl stóð að baki kröfum Jóns Sigurðs­sonar og félaga og veitti þeim vægi gagn­vart nýlendu­herr­unum? Hvaða sverð? Svarið er – að minnsta kosti að veru­legu leyti: aflið að baki orðum Jóns Sigurðs­sonar voru sveðjur og kyndlar sem hugrakkt fólk bar við Karíbahaf.

Uppreisn­irnar 1848 og 1878

Árið 1847 lýstu dönsk stjórn­völd því yfir að þræl­arnir í Vestur-Indíum skyldu leystir – en þó ekki fyrr en eftir tólf ár, þau þyrftu að sýna þessa biðlund af tillits­semi við þræla­hald­ar­ana og rekstr­ar­for­sendur plantekr­anna. Í blábyrjun júlí­mán­aðar 1848 þraut biðlund hinna hlekkj­uðu, þúsundir karla og kvenna gengu fylktu liði að aðsetri valds­ins á eynni St. Croix, með kyndla og sveðjur í hönd, tóku völd í virk­inu Frederiksted og kröfð­ust frelsis. Land­stjóri Dana varð við kröf­unni, lýsti því yfir að þræla­hald á dönsku eyjunum þremur væri afnumið og sú ákvörðun tæki þegar í stað gildi. Í kjöl­farið átti hann í útistöðum við bæði yfir­boð­ara sína og þræla­hald­ara á eyjunum. Tækni­lega var hann umboðs­laus en sögu­lega ekki. Þannig köst­uðu allir ófrjálsir íbúar eyjanna af sér hlekkj­unum, á svip­stundu og án blóðsút­hell­inga. Að form­inu til. Tíminn átti eftir að leiða í ljós hversu nötur­lega nýlendu­herr­arnir stóðu að afnámi þræla­halds­ins: þau sem nú hétu frjáls stóðu uppi eigna­laus og rétt­lítil á eyjum undir sömu yfir­ráðum og fyrr. Þar voru þau dæmd til að falbjóða vinnu sína „á mark­aði“ sem var að öllu leyti á forræði fyrr­ver­andi þræla­hald­ara þeirra. Þau neydd­ust til að undir­rita skuld­bind­ingar við plantekr­urnar sem áður litu á þau sem eign sína, með skil­málum sem jafn­vel leiddu til meiri örbirgðar en fyrr.

Þrjá­tíu árum síðar, 1878, þegar fyrr­ver­andi þrælar og afkom­endur þeirra bjuggu enn við ígildi þræl­dóms í reynd, fylgdu þau 1848-uppreisn­inni eftir með annarri uppreisn. Þá brann. Uppreisnin og óeirð­irnar 1878 eru nefndar Fireburn. Þá í kjöl­farið hófust loks umbætur, þróun í átt að skárra lífi, þýðing­ar­meira frelsi.1

„Er því atburður þessi með merki­legri tíðindum“

En aftur til ársins 1848. Uppreisnin í Dönsku Vestur-Indíum hafði í það minnsta tvenns konar áhrif á Íslandi. Í fyrsta lagi var þræla­upp­reisnin Íslend­ingum innblástur, meðal annars í sjálf­stæð­is­bar­átt­unni. Þetta er ágæt­lega skjalfest. Haustið 1848 má lesa í sept­em­ber­hefti Reykja­vík­ur­pósts­ins:

„Á eylandi Dana í Vestur-Indíum, St. Croix, gjörðu Blökku­menn uppreist og heimt­uðu þegar í stað fullt frelsi, en að öðrum kosti kváð­ust þeir mundi beita ofbeldi og eyða öllu sem fyrir yrði. Sá land­stjór­inn, Scholten, sér þá ekki annað fært enn að gáng­ast undir það, sem Blökku­menn fóru fram á, og lýsti því hátíð­lega yfir þann 3. júlí, að allir Blökku­menn á eylöndum Dana í Vestur-Indíum upp frá þeim deigi væru frjálsir menn, og voru það fljót umskipti. Við þetta sefað­ist uppreistin að miklu leyti, en þó gjörðu Blökku­menn eftir það tölu­verðar óspektir og hervirki, og varð að því mikið tjón mörgum manni, en þó tókst að sefa óróann með liðstyrk Enskra, sem láu þar á herskipum við eyarnar. Stjórnin hefur síðan lagt samþykki sitt á það, sem land­stjór­inn gjörði, enda var þá orðið úr vöndu að ráða, en skipað hefur hún annan til yfir­stjórnar þar á eyunum og hnígur það að því, að henni hafi ekki að öllu geðj­ast að því er gjörst hafði, en búinn var land­stjóri Scholten, að vísu um stund­ar­sakir, að seigja af sér stjórn­inni vegna heilsu lasleika.

Þessi umskipti þar á eyunni hljóta að hafa mikil­vægar afleið­ingar, bæði hvað stjórn og atvinnu­veigi þar snertir, og er því atburður þessi með merki­legri tíðindum.“

Þó að málfar þess­arar 172 ára gömlu fréttar beri keim sinnar aldar, í landi sem þá var sann­ar­lega á jaðri veraldar, gætir í frétta­text­anum ekki bersýni­legra fordóma í garð uppreisn­ar­fólks­ins. Orðið „Blökku­menn“ ber hér stóran staf eins og þjóða­heiti. Í niður­lagi frétt­ar­innar er lagt mat á atburð­ina, þar fari merki­leg tíðindi með mikil­vægar afleið­ingar „hvað stjórn og atvinnu­veigi þar snertir“ – þarna gætir virð­ingar. Orðfærið gæti allt eins átt við um frétt frá Þýskalandi eða úr Húna­vatns­sýslu. Fljótt á litið gefur text­inn ekki til kynna að höfundur hans líti uppreisn­ar­fólkið í Vestur-Indíum öðrum augum en fólk almennt.

„En vér, sem biðjum frelsis, megum bíða“

Fréttin af þess­ari uppreisn verður skömmu síðar, í annars konar texta, að mönun til Íslend­inga. Ólafur E. Johnsen hét prestur á Reykja­nesi, mágur Jóns Sigurðs­sonar. Í kjöl­far þess­ara tíðinda skrifar hann, og lætur prenta, dreifi­rit sem hann nefnir Ávarp til Íslend­inga. Dreifi­ritið fór nokkuð víða, og ávarpið enn víðar í janúar 1849, þegar það endur­prentað í Nýjum félags­ritum, tíma­riti Jóns og co. Þá er rétt hálft ár liðið frá atburð­inum í Vestur-Indíum. Í ávarp­inu hvetur prest­ur­inn lands­menn til að sýna ekki dönskum vald­höfum óhóf­lega þolin­mæði á meðan umbætur tefj­ist í reglu­verki konungs­rík­is­ins, láta ekki draga sig á asna­eyr­unum. Til stuðn­ings þeirri mönun skír­skotar hann til uppreisn­ar­innar í vestri:

„Blökku­menn á Vest­ur­eyjum fengu frelsi sitt allt í einu, þegar þeir höfðu gjört upphlaup og þóttu hafa unnið til dráps, og þar voru engar undan­færslur, engar fyrir­spurnir, engar „mikil­vægar ítar­legar rann­sóknir“, sem aldrei taka enda; en vér, sem biðjum frelsis, og sýnum með rökum að vér bæði eigum það og þurfum þess við, sýnum það með hógværð og still­ingu, berum fram ósk vora samhuga, og skirr­umst jafn­vel við að ítreka hana, til að styggja ekki stjórn­ina, vér megum bíða fjögur ár, og það ervið og þúng­bær ár, án þess að njóta nokk­urrar áheyrnar, það er ekki án orsaka þó vér segðum: bænir vorar eru undir fótum troðnar og að engu hafðar, þær eru minna metnar en þó þær hefði komið frá herteknu landi Blökku­manna, sem engan rétt þætti eiga á að fá bæn sína nema fyrir sérlega, fáheyrða náð … Það mætti því vera yður full­ljóst, Íslend­ingar! að bænar­skrár eintómar muni eigi einhlítar til að sann­færa Dani um rétt­indi vor.“

Á fyrstu síðu þessa ávarps, eins og það birt­ist í Nýjum félags­ritum, fylgir neðan­máls­grein, sem gera má ráð fyrir að Jón Sigurðs­son hafi skrifað. Með þessum orðum fylgir hann ávarp­inu úr hlaði:

„Þessi ritlingur hefir oss verið sendur utan af Íslandi, og þykir oss vert að leiða hann fyrir almenn­ings sjónir, því oss virð­ist allir hljóta að vera höfund­inum samdóma í aðal­efn­inu að minnsta kosti, og er þá gott að það sýni sig hvað andlegt afl meðal þjóð­ar­innar sé mikið og hverju það fái áorkað. Menn sjá, að höf. hefir einkum hugsað til þess þings sem nú fer í hönd, en oss virð­ist hugmynd hans vera þess verð, að hún mætti vel eiga sér lengri aldur.“

Hvaða hugmynd er það sem Jóni styttu finnst verð­skulda svona langan aldur? Megin­inn­tak ávarps­ins: að það dugi ekki að biðja um frelsi og bíða, bæna­skrár einar valdi engum breyt­ingum, þeim þurfi að fylgja þrýst­ingur, einhvers konar ógn. Þessi sann­indi enska raun­sæ­is­manns­ins Hobbes lærðu Íslend­ingar af uppreisn­inni í nýlendum Dana við Karíbahaf, sem þannig varð hreyfiafl í sjálf­stæð­is­bar­áttu eyja­skeggj­anna í norðri.

Byssu­púður út, púður­sykur inn

Fram­an­talin eru þá ummerki um áhrifin sem uppreisnin hafði meðal Íslend­inga. Í öðru lagi, hins vegar, hafði uppreisnin líka sitt að segja um sýn danskra stjórn­valda á óróa í öllum nýlend­unum – og þar með um viðbrögð danskra stjórn­valda við kröfum Íslend­inga. Skjöl benda til að ein höfuð­ástæða þess að danskir embætt­is­menn óttuð­ust afleið­ing­arnar ef ekki yrði látið undan kröfum Íslend­inga hafi verið atburða­rásin við Karíbahaf.2 Þess vegna, segir sagan, var danskt herskip sent til lands­ins, síðsum­ars 1851, að beiðni stift­amt­manns­ins Jørgen Ditlev Trampe, í tilefni af þjóð­fund­inum sem þá lá fyrir dyrum, fund­inum þar sem Jón og co. segj­ast allir mótmæla og ganga svo á dyr. Danir óttuð­ust að á Íslandi færi allt í bál og brand – ekki vegna þess að Jón hafi gert sig líklegan til að ganga berserks­gang, heldur vegna hinna nýliðnu atburða við Karíbahaf. Danir voru ekki hræddir við Jón. Þeir voru hræddir við þræla­upp­reisnir. Alþýðu­upp­reisnir. Þeim stóð ekki á sama um kröfur Íslend­inga því þeir óttuð­ust, í ljósi þess sem gerst hafði í vestri, að á bakvið Jón stæði kúguð alþýða í uppreisn­ar­hug og til alls vís.

Heim­ur­inn stendur enn einu sinni frammi fyrir arfi þræla­versl­unar og þræla­halds, þeirrar kúgunar og fyrir­litn­ingar sem nýlendu­herrar og plantekru­eig­endur beittu til að viðhalda viðskipta­mód­eli andskot­ans í Amer­íku. Mann­rétt­inda­brot í Banda­ríkj­unum myndu varða okkur þó að sagan að baki þeim hefði enga sérstaka snert­ingu við sögu Íslands. En það er ekki svo. Þetta er okkar saga. Ísland tilheyrði einu þeirra evrópsku konungs­ríkja sem skaff­aði þegnum sínum aukin lífs­gæði með þræla­haldi í Amer­íku. Þaðan kom blóð­bragðið af kanel­snúð­unum og vínar­brauð­inu. Ef Íslend­ingar líta enn á það sem heilla­skref, verð­mæti, jafn­vel einhvers konar sigur, að hafa sagt sig úr þessu konungs­ríki og tekist það á hendur að stofna og starf­rækja lýðveldi á þessum mosa­gróna þyrluflug­palli okkar, þá stöndum við, sögu­lega, í nokk­urri þakk­ar­skuld við þær þúsundir sem brutu af sér hlekk­ina fyrst, hinu megin í heimsveld­inu. Vegna þess að þau risu upp gegn kvöl­urum sínum, gripu til vopna og lögðu sjálf lífið að veði, dugði íslenskum embætt­is­mönnum að skrifa bréf, mæta á fund, stoppa stutt, segj­ast mótmæla, ganga á dyr. Sjálfsagt höst­ug­lega. Og þiggja þó sykur í kaffið.3

References
1 Þar er þó um langan veg að fara. Árið 1917 seldi Danmörk Banda­ríkj­unum eyjarnar, sem síðan nefn­ast U.S. Virgin Islands, Banda­rísku Jómfrúreyjar. Ákvörðun um söluna var tekin með þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu – í Danmörku. Íbúar eyjanna sjálfra fengu ekki hlut­deild í þeirri ákvörðun. Enn í dag telj­ast þær til óskráðra yfir­ráða­svæða Banda­ríkj­anna, eða hvernig sem þýða skal unincorporated territories. Þar gildir stjórn­ar­skrá Banda­ríkj­anna aðeins að hluta. Um 100.000 íbúar eyjanna, að meiri­hluta svartir afkom­endur plantekru­þræla Dana, njóta enn ekki kosn­inga­réttar í forseta­kosn­ingum, eini þing­maður þeirra er án atkvæð­is­réttar og svo framvegis.
2 Eftir birt­ingu var mér rétti­lega bent á að vanmeta ekki áhrifin af óróanum í Evrópu á sama tíma, sérstak­lega átök­unum um Slés­vík-Holtseta­land. Áhrifin í þessum óróa lágu þvers og kruss, og hér mætti líka fylla í eyðu með atburði sem hefur verið nefndur fyrstu fjölda­mót­mæli Íslands­sög­unnar, Norð­ur­reið Skag­firð­inga, sögð innblásin af uppreisn­inni í Vestur-Indíum. Sagt er að amtmann­inum sem sú aðför beind­ist að hafi orðið svo um og ó að hann hafi hrokkið upp af, hrein­lega dáið úr mótmælum. Allur þessi titr­ingur, þá t.a.m. að óbreyttir bændur skyldu hópast saman um kröfu­gerð utan allrar hátt­vísi og form­legra ferla, kom yfir­völdum í opna skjöldu, sem virð­ast fyrir vikið hafa talið Íslend­inga til alls líklega. Þessi endur­sögn mín er heldur ónákvæm og heim­ilda­skort­ur­inn allt að því galgopalegur, en ég læt hana þó standa, þá jafn­vel í veikri von um að almenni­legum, vand­virkum sagn­fræð­ingi þyki í því áskorun einn daginn, að stað­festa þessar breiðu strokur eða hrekja.
3 Í vikunni var mér boðið til Rauða borðs­ins, á Samstöð­inni. Þetta var daginn eftir fjöl­sótt samstöðu­mót­mæli gegn rasisma, á Aust­ur­velli. Í þætt­inum spurði Gunnar Smári um áhrif póli­tískra viðburða í Amer­íku, hvort þau berast óhjá­kvæmi­lega til Íslands. Ég rétt minnt­ist á þetta samhengi, sem sat síðan í mér að mætti gera aðeins betri skil. Ég hóf þessa frásögn áður hér á blogg­inu en gafst ekki tóm til að ljúka við hana þá. Og lýk ekki við eitt né neitt hér heldur – þetta er umfangs­mikið viðfangs­efni sem verð­skuldar, held ég, almenni­legar rann­sóknir. Hér birt­ast aðeins nokkrir þræðir, í allra gróf­ustu dráttum. Það sem kom mér á sporið var rann­sókn­ar­vinna sem Dísa vann, við undir­bún­ing verks fyrir sýning­una Cycle í Kópa­vogi, haustið 2018. Innsetn­ing hennar á sýning­unni hét Af vopnum. Í henni birt­ust fleiri og fínlegri þræðir sem tengja saman þessa fjar­lægu jaðra danska nýlendu­veld­is­ins. Einn slíkur þráður liggur um hráefnin: brenni­steinn var verð­mæt útflutn­ings­vara frá Íslandi. Íslenskan brenni­stein nýttu Danir til púður­gerðar fyrir vopnin sem þeir beittu síðan við þræla­við­skiptin – bæði sem vopnum og sem kaup­varn­ingi. Byssu­púður út og púður­sykur inn, eitt­hvað á þá leið var viðskipta­jöfn­uð­ur­inn. Afkom­endur þræl­anna sem sáu okkur fyrir sykri og sjálf­stæði hafa enn ekki kosn­inga­rétt í land­inu sem þau nú tilheyra. Og þó að ég hafi ekki forsendur til viða­mik­illar rann­sóknar á efninu þykir mér tilefni til að taka mér stöðu í grennd við Dísu og verk hennar, veifa og spyrja: hey, er þessi saga ekki svolítið vanrækt?