Hverju breytir veiran ef einhverju?

05.6.2020 ~ 3 mín

Houl­le­becq segir hana vera banal, hún sé ekki einu sinni kynsjúk­dómur. Og muni engu breyta.

Žižek segir þörf á komm­ún­isma til að díla við áskorun svona pestar, og á við, sýnist mér, að minnsta kosti einhvers konar alþjóð­legan samráðsvett­vang með vald­heim­ildir til að leggja ríkjum línurnar.

Agam­ben segir að allt viðbragð ríkja við veirunni sé ofsa­við­bragð, hún sé eigin­lega ekki annað en tálbeita sem auðveldi þeim að innleiða nýtt vald í heim­inum, nýtt umboð til afskipta og stýringar.

Nina Power hatar að vera lokuð inni – og lái henni hver sem vill, Bret­land virð­ist bæði hafa gengið langt í vald­beit­ingu vegna veirunnar og mislukk­ast að gera það af þeirri skil­virkni sem hefði forðað land­inu frá hörm­ungum. Ekki alveg the worst of both worlds, en í áttina.

Sama á við um Banda­ríkin, þar sem aðgerðir hafa verið harðar á köflum en ómark­vissar í það heila.

Hvaða aðrar megin­línur hafa birst í hugsun um pest­ina? Flest þau sem hafa lagt háls­inn á þann högg­stokk að byrja að hugsa á meðan allt er í loft upp virð­ast fara um þokuna eða kófið án afdrátt­ar­lausrar eða skýrrar leið­ar­línu – og lái þeim hver sem vill. Að halda í band og halda settu striki hjálpar þér ef til vill áleiðis út úr þokunni – en ef þú vilt sjá þokuna sjálfa er ef til vill heldur ráð að staldra við. Hvað liggur okkur á?

Þú getur séð hana en það er erfið­ara að henda reiður á henni.

Zizek og Agam­ben birt­ust snemma sem andstæðir pólar að þessu leyti, meðal hugsuða heim­speki­vinst­ris­ins, svo ég segi ekki róttæka vinst­ris­ins eða komm­ún­ism­ans, að sá fyrri talaði fyrir mark­vissri vald­beit­ingu og sá síðari gegn henni. Sem kom engum á óvart, nema hugs­an­lega þá í upphafi að mörgum virt­ist Agam­ben, í því samhengi, heldur skeyt­ing­ar­laus um þau manns­líf sem voru og eru í húfi. Þeir eiga það hins vegar sameig­in­legt að vara við hinum nýju mögu­leikum kapí­tal­ism­ans til gegn­sýr­ingar og yfir­ráða, eða hröðun á þeim mögu­leikum sem þegar voru til staðar, með útbreiðslu sótt­kvía, nánd­ar­marka – með skipu­lögðu undan­haldi okkar frá ógninni og þar með heim­inum þarna úti, hvert inn í sitt rými, þar sem við verðum háð netteng­ingum um alla hluti: samskipti, vensl við annað fólk, aðföng, vinnu.

Um tæki­færin sem tæknifyr­ir­tækin sjá í því ástandi hefur Naomi Klein líklega skrifað skil­merki­leg­ustu úttekt­ina til þessa. Ef upphafs­reitur Zizeks er komm­ún­ism­inn og upphafs­reitur Agam­bens er vantraust til ríkis­valds­ins kemur ekki heldur á óvart að upphafs­reitur Klein sé áfalla­kenn­ingin, the shock doctr­ine. Bók Klein frá árinu 2007, The Shock Doctr­ine: The Rise of Disa­ster Capital­ism, hefur því miður ekki komið út í íslenskri þýðingu en áhrifa hennar gætir þó hér eins og víða. Þar rekur hún sögu nýfrjáls­hyggj­unnar út frá broti í bókinni Capital­ism and Freedom, eftir Íslands­vin­inn Milton Friedman, um hvernig sé best að innleiða nýjar hugmyndir. Krísur gagn­ast best, segir hann:

„Only a crisis —actual or percieved— produces real change. When the crisis occurs, the acti­ons that are taken depend on the ideas that are lying around. That, I believe, is our basic function: to develop alternati­ves to exist­ing policies, to keep them alive and availa­ble until the politically impossi­ble becomes politically inevitable.“

– Að halda stefnu til haga og á lífi þar til einhver krísa kemur til sögunnar og það sem áður virt­ist póli­tískt ómögu­legt verður, í nýju ljósi, óhjá­kvæmi­legt. (Við þessa upprifjun verður mér hugsað til greinar eftir Hannes Hólm­stein Giss­ur­ar­son, sem birt­ist í tíma­riti hans, Frelsið, um „herstjórn­ar­list í hugmynda­bar­átt­unni“ þar sem hann er á svip­uðum slóðum, fjallar reyndar ekki um krísur sérstak­lega heldur hagkvæmni og skil­virkni við útbreiðslu hugmynda: að frekar en reyna að tala beint við alla sé mikil­vægt að hafa áhrif á hvaða bækur og rit eru innan seil­ingar fyrir þá sem hann nefnir milli­liði, kenn­ara, fjöl­miðla­fólk og aðra, þegar þeir seil­ast upp í hillu eftir efni til að deila með öðrum.)

Læt þetta duga, þetta verða slitrur, þarf að díla við daginn, fram­hald síðar.