Áhyggju­leysið verð­mæt­ari samfé­lags­leg gæði en túrism­inn 2020, segja læknir og hagfræðingur

04.6.2020 ~ 4 mín

„Við sem þjóð ættum að fá að njóta veiru­leysis aðeins lengur“ voru loka­orð Bryn­dísar Sigurð­ar­dóttur, smit­sjúk­dóma­læknis við Land­spít­al­ann, í erindi sem hún flutti á málþing­inu Út úr kófinu í hátíð­ar­sal HÍ í á miðvikudag.

„Ekki rétta leiðin enda falskt öryggi“

Bryn­dís sagði í erindi sínu að prófin sem beitt er við skimun veiti of margar falskar niður­stöður, bæði jákvæðar og neikvæðar, til að víst sé að mikill ávinn­ingur yrði af grein­ingu einkenna­lausra ferða­manna við landa­mærin. Margir muni „sleppa í gegn með falskt, neikvætt próf“, það sé „óhjá­kvæmi­legt og mun gerast hvort sem við skimum eða ekki“. Bryn­dís sagði:

„Óljóst er hvort ávinn­ingur sé af þeirri gríð­ar­legu vinnu sem fer í að útfæra þetta verk­efni. Til þess að finna, að ég tel, örfáa einstak­linga með jákvætt sýni. Og það er í raun umhugs­un­ar­vert að enginn hafi sett spurn­inga­merki opin­ber­lega við þessar hugmyndir, komið með vísinda­leg rök gegn hópskimun einkenna­lausra hraustra ferðamanna“

Bryn­dís sagði afar líklegt að „strax við fyrstu vél, alla­vega fyrsta daginn“ muni grein­ast smit meðal farþega. Þegar það gerist „þá stefnir í að Land­spít­al­inn fari fljót­lega aftur á neyð­arstig. Og við verðum enn og aftur að sætta okkur við takmark­anir, skerð­ingu á þjón­ustu og breytta forgangs­röðun.“ Hún hvatti stjórn­völd til að endur­skoða áform sín um að skima alla einkenna­lausa ferða­menn, skoða „kostn­að­ar­hag­kvæmni þess­arar tilraunar, sem er það sem þetta er, en einnig gögn um takmark­aða getu þess­ara prófa til að útiloka sýkingu, ofan á þá stað­reynd að margir jákvæðir en einkenna­lausir eru alveg eins líklegir til að vera með gamla sýkingu, sem er yfirstaðin.“

Hún sagði landið öruggt núna, „í raun laust við smit, Covid-safe“ og spurði hvort ekki væri ráð „að halda því aðeins lengur fyrir okkur sjálf,“ leyfa „útilegur, útihá­tíðir, tónleika, fertugsaf­mæli, eða fimm­tugs, brúð­kaup og jarð­ar­farir innan landsteinanna“.

Þórólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, hlýðir á erindi Bryn­dísar Sigurðardóttur.

„Þið hugsið um sótt­varnir og látið okkur um hitt“

Gylfi Zoega, hagfræð­ingur, lagði í reynd hlið­stæða áherslu í sínu erindi, frá sjón­ar­hóli sinnar greinar: „Hagkerfið mun ná sér á strik þótt ekki komi fjöldi ferða­manna, svo fremi sem annar faraldur kemur ekki í haust,“ stóð á glærum hans. Þar stóð líka: „Góður árangur í sótt­vörnum í vor hefur skapað almanna­g­æði sem bæta lífs­kjör og örva hagvöxt.“

Gylfi lagði áherslu á mikil­vægi þess að sýna varkárni vegna óviss­unnar framundan:

„Við skil­yrði óvissu þá er mikil­vægt að taka smá skref. VIð vitum ekki hver fram­tíðin er. Veiran gæti orðið skæð­ari, dáið út eða hvað. Þá myndi maður segja: taka fá skref, opna hægt, setja stopp ef eitt­hvað slæmt kemur fyrir, vitandi það að þetta hagkerfi mun ná sér á strik, lífs­kjörin hérna eru bara mjög góð.“

Í fyrir­spurnum að loknu erind­inu beindi Gylfi máli sínu sérstak­lega til Þórólfs Guðna­sonar, sótt­varna­læknis, sem sat þá meðal áheyr­enda, og sagði:

„Það sem að þetta land, eins og við vorum að tala um áðan, býr að, af því að ykkur tókst svo vel upp í vor, þá eru þetta eins konar samfé­lags­leg gæði, að geta búið hérna og lifað nokk­urn veginn eðli­legu lífi. Og kostn­að­ur­inn við þessar sótt­varnir í vor, miðað við það sem við erum að sjá í hinum lönd­unum, var mjög lítill. Það er að segja, efna­hags­legur kostn­aður af farsótt­inni hérna stafar aðal­lega af því að það er farsótt í heim­inum og þessir erlendu ferða­menn koma ekki hingað. … En kostn­aður efna­hags­lífs­ins af innlendum sótt­vörnum var miklu minni hér, held ég, en annars staðar. Því fólk var ekki lokað heima hjá sér. Og miklu stærri hluti atvinnu­lífs­ins hélt áfram. Svo þá, ef þú ert að plana næsta vetur, þá skiptir máli að reyna að varð­veita þessi samfé­lags­legu gæði sem við höfum hérna. … Og hafa þessa samræðu, þannig að þið séuð ekki að hugsa um efna­hags­þætt­ina. Þið hugsið um sótt­varnir og látið okkur um hitt. Og svo vinnum við saman. Að þið séuð ekki að taka sénsa af því að þið haldið að allt efna­hags­lífið sé að fara á hlið­ina. Fyrst að eiga samtal um það.“

Gestir málþings­ins Út úr kófinu.

Hver græðir?

Málflutn­ingur Bryn­dísar og Gylfa var afar skýr. Sama verður því miður ekki sagt um mál sótt­varna­læknis, sem flutti fyrsta erindi málþings­ins. Í þetta sinn, á þessum vett­vangi, birt­ist þar ekki sá varkári vísinda­maður sem við höfum mátt venj­ast á upplýs­inga­fundum Almanna­varna, heldur maður með söluræðu. Svandís Svavars­dóttir, heil­brigð­is­ráð­herra, flutti síðasta erindi málþings­ins. Þar talaði hún á almennum nótum um áskor­anir farald­urs­ins en svar­aði ekki þeirri gagn­rýni sem kom fram í erindum Bryn­dísar og Gylfa.

Ef smit­sjúk­dóma­læknar segja áform stjórn­valda ekki þjóna heil­brigð­is­mark­miðum, og ef hagfræð­ingar segja þau varla þjóna hagrænum mark­miðum heldur, hvaða mark­miðum þjóna þau þá, þessi tilteknu áform um þessa tilteknu útfærslu, á þessum tiltekna tímapunkti?