Ljósmynd: Roger Goodman, Keflavík, 1983.

Að eyði­leggja tungumál

29.6.2020 ~ 2 mín

Skyndi­árásar-kjarn­orkukaf­bát­ur­inn USS Indi­ana er mættur í land­helg­ina, til þátt­töku í kafbáta­heræf­ingu NATO, Dynamic Mong­oose, sem er nú haldin á Íslandi og hófst í dag, 29. júní 2020. Kjarn­orku­knúna flug­móð­ur­skipið USS Roosevelt er líka mætt. Og þrettán önnur stór­virk árásarapparöt.

Landið er auðvitað dysfuncti­onal núna eins og gerist þegar sólin skín og hitinn fer yfir 15 gráður. Við tækjum ekki eftir heimsendi þó að hann hóstaði framan í okkur. Ég er samt að spá í að full­yrða svolítið.

Ég er að spá í að full­yrða að hvað sem líður fagur­gala – eða bara væli – stjórn­valda um mikil­vægi íslenskrar tungu, löggjöf um hana, jafn­vel stjórn­ar­skrárá­kvæði, þá séu sömu stjórn­völd helsti skað­valdur tung­unnar, með því að gera hana ónýta sem vett­vang raun­veru­legs samtals, grafa undan getu hennar til að merkja upp veröld­ina sem við lifum í, hvenær sem af því má hafa örlít­inn ávinn­ing, kaupa sér örlít­inn frið. Að þýða nuclear warfare sem kafbáta­eft­ir­lit er aðeins eitt, lítið dæmi sem ratar á fjörur okkar í dag, þegar Ísland hýsir æfingu NATO í þessum hern­aði sem íslensk stjórn­völd hér kalla eftir­lit. Norrænt samstarf er annað hugtak sem í auknum mæli er beitt sem rósa­máli yfir vígvæð­ingu. Grín­laust. Upplýs­inga­öflun í löggæslu­til­gangi er beitt í laga­texta um leyni­þjón­ust­u­starf­semi Ríkis­lög­reglu­stjóra – öll þessi orð eru til þess gerð að við getum ekki beitt þeim, að þau rati ekki á raunveruleikann.

Og það eru fleiri leiðir til að taka tungu­málið úr sambandi, gera það irrelevant. Þegar mann­tjón verður vegna viðvar­andi, kerf­is­bund­innar vanrækslu á rétt­indum erlends verka­fólks en forsæt­is­ráð­herra fagnar sigri fótboltaliðs í öðru landi áður en hún lætur frá sér orð um þennan viðburð – þá tekur hún fyrst og fremst afstöðu gegn virði manns­lífa í tilfelli valinna hópa. En með því að kjósa heldur orð sem skipta ekki máli en þau sem gætu gert það tekur hún um leið afstöðu gegn tungu­mál­inu, getu þess til að varða sameig­in­lega tilveru okkar.

Stjórn­völd nota orð til að breiða yfir veru­leik­ann frekar en mæta honum.

Og við sitjum eftir í tungu­máli, með samskipta­færni, á sama róli og Teletubbies. Eina leiðin til að henda reiður, ekki bara á því sem gerist utan land­stein­anna, heldur á land­inu sjálfu, er að bera sig eftir textum á öðrum tungu­málum. Hugleysi stjórn­valda til að standa við gjörðir sínar og stefnu er áreið­an­lega ekki eina orsök þess en nokkuð drjúgur áhrifaþáttur.

Er ég að spá í að fullyrða.