78% frétta greina ekki frá atburðum

04.5.2020 ~ 3 mín

„Önnur lönd“ er aðeins orða­lag sem við beitum til að skýra hvaðan ferða­menn­irnir koma. Enginn veit hvaðan þeir koma. Við vitum bara að umheim­ur­inn er ekki til. (Nema Kanarí. Kanarí er til, þar er Klörubar.)

—Mætti ætla af meðfylgj­andi skjá­skoti af forsíðu RUV.is, frá 3. maí 2020. Þetta er auðvitað bara stakt skjá­skot, og athuga­semdin ekki sann­gjörn að því leyti að stundum ber víst á erlendum fréttum í íslenskum fjölmiðlum.

En þar sem ég er ekki rann­sókn­ar­stofnun og verð að sætta mig við afar takmörkuð gögn, þá má samt gera sér þetta að leik, taka eitt skjá­skot til skoð­unar eins og það segi stærri sögu. Hvað segir þetta skjá­skot af forsíðu RUV.is um frétta­mat á frétta­stofu lögreglu­stöðv­ar­innar? Ég set kannski fram leið­andi spurn­ingu: hvað vantar – fleira en umheim­inn – í þessar fyrirsagnir?

Lítum yfir þetta. Í skjá­skot­inu birt­ast níu fréttir. Aðal­fréttin: Ég held að þetta sé fyrsta ávarp Katrínar Jakobs­dóttur í tilefni af faraldr­inum og mér finnst það forvitni­legt – hvort sem ríkis­stjórnin hefur keypt sér ráðgjöf um almanna­tengsl gegnum farald­ur­inn eða er fagið svona í blóð borið, þá steig forsæt­is­ráð­herra ekki fram með þessum hætti fyrr en hún gat fært okkur góðu frétt­irnar. Vondar fréttir koma frá sérfræð­ingum, ríkis­stjórnin færir birtu og yl. Og forset­inn er með, flutti ávarp á fundi almanna­varna, og virð­ist hafa verið á aðeins trúar­legri nótum. Tvær fréttir eru þannig beinn áróður frá æðstu embættum. Ég segi það ekki þeim til háðungar, þetta er bara lýsing: opin­ská ætlun ráða­manna hér er að veita yfir­stand­andi atburðum merk­ingu sem við getum samein­ast um.

Ein frétt enn færir skila­boð frá stjórn­völdum, en í skýr­ari boðhætti: „Hvað má 4. maí?“. Þar er sagt frá inni­haldi reglu­gerðar sem tekur gildi nú á miðnætti, gefin út af heil­brigð­is­ráðu­neyt­inu, um skerð­ingar funda­frelsis og ferða­frelsis. Þetta er með öðrum orðum tilkynn­ing frekar en frétt, segir okkur ekki hvað hefur gerst þarna úti, heldur hvað við eigum að gera á næstunni.

Tvær fréttir er að finna af íþróttum sem ekki fara fram – íslenskum íþrótta­mönnum sem ekki stunda íþrótt sína um þessar mundir og þykja þær báðar brýnni, ef marka má þessa uppröðun, en nokkur einasta frétt af því sem þó raun­veru­lega á sér stað í öðrum löndum. Önnur þeirra hefur auðvitað aðra vídd, hvað indælt er að lifa í íslenskri sveit, frekar einfaldur þjóð­ernis­áróður eða innri land­kynn­ing, ef svo má segja. 

Fréttin um tjöldin er frétt af einhverju sem gæti gerst innan­lands á næstu vikum eða mánuðum. Þessi skildaga­tíð byggir á bjart­sýni um ferða­gleði Íslend­inga innan­lands og er því líka eins konar innri land­kynn­ing, eins og fréttin um gang­andi vegfar­endur, farald­urs­spuni, það er leit að jákvæðu hlið­inni á havarí­inu sem hefur verið óstöðv­andi árátta í flestum fjöl­miðlum frá því að farald­urs­ins varð fyrst vart á landinu.

Þá sýnist mér ég hafa talið alls sjö fyrir­sagnir og eftir standa tvær: Barátta flug­fé­lag­anna upp á líf og dauða er knöpp frétta­skýr­ing um hversu erfitt er að reka flug­fé­lag í heims­far­aldri. Loks er greint frá andláti konu af völdum farald­urs­ins og viðtali við eftir­lif­andi eigin­mann hennar.

Síðasti efnislið­ur­inn er ekki borinn fram sem frétt, heldur er þetta tilkynn­ing um umfjöllun í menn­ingar- og magasín-þætt­inum Lestin. Þessi þáttur á þó eitt sameig­in­legt með fréttum, í hefð­bundnum skiln­ingi: að þar er sagt frá einhverju sem gerð­ist, hvern það henti, hvar, hvenær og hvernig. Það sama má líka segja um umfjöll­un­ina um flug­fé­lögin: eitt­hvað gerð­ist og hér segjum við aðeins frá því.

Ekkert slíkt er hins vegar inntakið í hinum sjö efnis­þátt­unum. Spuni, áróður, tilkynn­ingar, óstund­aðar íþróttir, enn ófarin ferða­lög. Sjö af níu – gerum þetta faglega og segjum: 78% þeirra efnis­at­riða á forsíðu RÚV sem virð­ast fréttir hafa það þó ekki að megin­inn­taki að einhvers staðar hafi eitt­hvað gerst.

Það sem vantar í frétt­irnar eru með öðrum orðum ekki bara önnur lönd, eða meintur umheimur, heldur, sýnist mér, atvik og atburðir yfir­leitt. Þarna er feng­ist við eitt­hvað annað.

En gögnin eru takmörkuð, mögu­lega hend­ing ein, skekkju­mörkin gríð­ar­leg. Sunnu­dagur og það allt. Mögu­lega leit þetta allt öðru­vísi út í gær, kannski lítur þetta öðru­vísi út á morgun. Ég leyfi mér að halda því fram að frek­ari rann­sókna sé þörf.

(Færslan birt­ist fyrst á banda­ríska samfé­lags­miðl­inum Facebook.com.)