Val

27.2.2020 ~ 6 mín

Ég hef haft sem óskráð viðmið að lesa ekki annarra umfjöllun um kvik­myndir áður en ég skrifa um þær hér. Nú þegar ég leit­aði upplýs­inga um leik­stjóra einnar bestu myndar hátíð­ar­innar til þessa, sá ég hins vegar útundan mér að einhverjir virð­ast vilja slátra henni. Mynd­inni, það er. The Roads Not Taken heitir hún, eftir leik­stjór­ann Sally Potter, og var sýnd á miðvikudag.

Javier Bardem, einhver allra fegursti karlleik­ari í kvik­myndum um þessar mundir, fer með aðal­hlut­verk mynd­ar­innar, hlut­verk rithöf­und­ar­ins Leo sem hefur orðið fyrir heila­bilun og er hérumbil horf­inn í annan heim. Elle Fann­ing leikur dóttur hans, Molly, sem annast hann. Með önnur hlut­verk fara Salma Hayek og Branka Katic.

Myndin gerist á tveimur tímum: annars vegar hér og nú, þar sem Molly fylgir föður sinnum gegnum einn dag, frá íbúð­arkytru hans, til tann­læknis og augn­læknis og aftur heim. Það er ekki einfalt því pabbi pissar í sig og týnist, svarar spurn­ingum út í hött, kann ekki að fylgja fyrir­mælum á við að sitja kyrr. Hins vegar gerist myndin í hugskoti Leos, þar sem minn­ingar flögra um, ást, eftir­sjá, erfiðar ákvarð­anir, vafa­samar, jafn­vel vondar. Ég spilli mynd­inni um stund­ar­sakir: þegar líður undir lok mynd­ar­innar kemur í ljós að sumar af veiga­mestu minn­ing­unum, jafn­vel þeim sárustu, voru ekki minn­ingar, eiga sér ekki stoð í veru­leik­anum, heldur sner­ust um valkosti og afleið­ingar þeirra, leiðir sem Leo fetaði ekki í lífinu. Þeirri uppgötvun að í raun­veru­leik­anum yfir­gaf Leo ekki barn­s­móður sína og dóttur til að verja 20 árum í árang­urs­lítið basl við ritstörf fylgir léttir: hann valdi að vera um kyrrt, bless­aður maður­inn, hann var til staðar, umhyggja dóttur hans hér og nú er ekki alfarið óverðskulduð.

Þetta viðfangs­efni og þessi aðferð hljómar líklega háska­lega nærri hverri annarri sápuóperu. Og já já, myndin er táraf­antur. Mér þótti hún hins vegar saman­sett af þess háttar næmni, virð­ingu og innsæi, gagn­vart lífi með heila­bilun, lífi aðstand­enda, og lífi yfir­leitt, þeim mann­lega vanda að burð­ast með miðtauga­kerfi og tilheyr­andi valkvíða, að ég fyrir­gaf verk­inu auðveld­lega að væta svona andlitið á mér. Kannski er það að einhverju leyti háð persónu­legri nálægð við viðfangs­efnið, en myndin mætti vinna keppn­ina mín vegna. Mér þætti það jafn­vel hugrakkt val, einmitt vegna þess að tign þessa verks blasir ekki endi­lega við, hún felst í hinu fínlega.


Það flækir aðeins málin með tárin nú við upphaf plág­unnar, að læknar segja okkur að forð­ast að strjúka eða snerta yfir­leitt andlitin okkar með hönd­unum. Forsjálir kvik­mynda­gestir hafa auðvitað vasa­klúta meðferðis. Grím­unum á hátíð­ar­svæð­inu sýnist mér annars ekki hafa fjölgað síðustu daga. Hins vegar birt­ist í dag eða í gær spjald á kaffi­barnum þar sem blaða­mönn­unum bjóð­ast fríir kaffi­drykkir komi þeir með eigin ílát: Please only bring clean cups, for your own safety.


Hin keppn­ismyndin sem var frum­sýnd sama dag er af öðrum toga. Hún heitir DAU. Natasha. Einhverjir lesendur vita þá kannski þegar hvernig hún er upprunnin – meira um það síðar. Þetta verk, sem er rúmar tvær klukku­stundir að lengd, skipt­ist í tvennt: í fyrri hlut­anum fylgj­umst við með fylle­ríum tveggja afgreiðslu­kvenna í mötu­neyti rann­sókn­ar­stofn­unar í Sovét­ríkj­unum, einhvern tíma um miðja síðustu öld. Þær eru ýmist einar á slarki eða við veislu­höld með vísinda­mönnum og öðrum starfs­mönnum stofn­un­ar­innar. Nálægð okkar við þær er mikil og miskunn­ar­laus, tilveran sárs­auka­full, drykkjan hams­laus, kynlífs­at­riði berskjölduð, allt heldur grimmt. Í þá rúmu klukku­stund sem þessi fyrri þáttur verks­ins varir minnir það einna mest á myndir banda­ríska leik­ar­ans og leik­stjór­ans John Cassavetes.

Seinni hluti verks­ins er hins vegar af öðrum toga: þar er önnur kvenn­anna stödd á skrif­stofu yfir­manns hjá KGB sem hefur einsett sér, vegna aðgangs hennar að vísinda­mönnum stofn­un­ar­innar, að fá hana í sína þjón­ustu, með góðu eða illu. Pynt­ingar hans eru grimmar og andspænis þeim birt­ist hráa og klunna­lega kynlífið í fyrri hluta mynd­ar­innar í nýju ljósi, sem verð­mæt nánd. Berskjöld­unin þá verður dýrmæt í saman­burði við berskjöldun mann­eskj­unnar frammi fyrir kerf­is­bund­inni villi­mennsku stofn­un­ar­innar. Þegar stjórn­and­inn nær sínu fram og beygir konuna undir vilja apparats­ins erum við löngu horfin frá Cassa­vetes og komin á einhvern stað þar sem Orwell og mark­greif­inn af Sade virð­ast hafa ruglað saman reitum.


Einhvern veginn þannig var þessi tiltekna kvik­mynd. Það er hins vegar ósenni­legt að nokk­urn tíma verði um hana fjallað án samhengis við hið viða­meira verk sem hún er hluti af. Ilya Andreevich Khrzhanov­sky heitir leik­stjóri mynd­ar­innar. Hann hóf undir­bún­ing kvik­mynda­verks­ins DAU árið 2006. Tökur hófust 2008 og stóðu í þrjú ár. Á því tíma­bili söfn­uð­ust 700 klukku­stundir af efni á 35mm filmu. Megnið af tökunum fór fram í 12.000 fermetra kvik­mynda­veri í Úkraínu, innan sviðs­myndar sem líkir eftir aðgangs­stýrðri sovéskri rann­sókn­ar­stofnun um miðja síðustu öld. Leik­arar verks­ins lifðu í sviðs­mynd­inni, á Stofn­un­inni, dag og nótt, dvöldu í hlut­verkum persóna sinna öllum stundum, ýmist í viðveru eða yfir­vof­andi nálægð leik­stjóra, tökuliðs og kvik­mynda­töku­véla. Einhver fram­vinda virð­ist hafa verið fyrir­fram ákveðin, en engin sena eða samræða skrifuð.

Og það eru þessar yfir­gengi­legu stærðir sem sveima allt í kringum mynd­ina um Natösju: á blaða­manna­fundi nefndi leik­stjór­inn að hann hefði farið um 58 héröð eða svæði innan Rúss­lands í leit að leik­urum, líklega hefði enginn núlif­andi maður kynnst jafn mörgum leik­urum og hann, en síðan hefði hann séð að leik­arar væru ekki færir um það sem hann leit­aði að, þeir yrðu ekki jafn opnir fyrir þróun, fram­vindu og breyt­ingum og amatörar gætu orðið, svo hann hætti við það allt saman og safn­aði 400 amatörum í hlut­verkin. Af 350.000 sem skil­uðu inn leikprufum, samkvæmt fyrri umfjöllun annarra miðla. Eftir að safna sýnum úr tilveru þessa fólks innan Stofn­un­ar­innar í þrjú ár tók við úrvinnsla og eftir­vinnsla, þar til fyrsta afurð ferl­is­ins, tólf tíma kvik­myndin DAU, var frum­sýnd í París fyrir um ári síðan, í janúar 2019. Framundan eru fleiri styttri verk, alls sex kvik­myndir í fullri lengd, heyrð­ist mér, ásamt sjón­varps­þáttaröð og heim­ilda­mynd – og á blaða­manna­fund­inum sagði leik­stjór­inn að loks hefði hann í hyggju að setja allt hráefnið á netið, í opnum aðgangi, þannig að hver sem vildi gæti klippt úr því mynd eftir eigin höfði.

Hvað ef maður vissi ekki af þessu öllu? Hvernig kæmi DAU. Natasha manni þá fyrir sjónir? Ég er hræddur um að ein sér sé myndin, þrátt fyrir búninga, sviðs­mynd og grimmd, heldur létt­væg. Fram­vindan frá Cassa­vetes-fylle­rí­inu yfir í 1984-kúgun­ina er ekki nógu öguð, ekki nógu nákvæm eða hugsuð, til að eftir standi að nokkuð sé sagt. Eftir stendur fyrir­ferð­ar­mik­ill subbuskapur. Subbuskap­ur­inn vekur hin og þessi hughrif, en það er ekki nóg.

Kannski er annað uppi á teningnum með verk­inu í heild. Það getur meira en vel verið: í þess­ari mynd hér glitti ekki einu sinni í megin­við­fangs­efni prój­ekts­ins, eðlis­fræð­ing­inn Lev Landau, sem heild­ar­verkið DAU dregur nafn sitt af. Það kemur þá í ljós. Ég hlakka til að sjá aðrar hliðar verks­ins. En þangað til, hér og nú, eftir að sjá aðeins kafl­ann um Natösju, er opinn sá mögu­leiki að allt þetta íþrótta­manns­lega umfang fram­kvæmd­ar­innar sé sprottið af þeirri kvíð­væn­legu uppgötvun lista­manns­ins að hann viti ekki alveg hvað hann vildi segja. Að hann hafi ekki kunnað – ef ég gerist persónu­legur og leyfi fyrri og betri kvik­mynd dags­ins að lesa þá síðari og síðri: að hann hafi ekki kunnað að velja.