Afmæl­is­bön­k­er­inn

03.9.2019 ~ 3 mín

Það hefur verið eitt­hvert vesen á fram­kvæmd­unum, arki­tekta­stofan sem lenti í öðru sæti í samkeppn­inni kærði niður­stöð­una, mér sýnist í fljótu bragði að enn sé málið í biðstöðu – en viðbygg­ingin sem fyrir­hugað er að reisa við Stjórn­ar­ráðs­húsið, og kynnt hefur verið sem eins konar gjöf ríkis­ins til sjálfs sín í tilefni af 100 ára afmæli full­veld­is­ins, 2018, hún er bönker. Neðanjarðarbyrgi.

Mér sýnist þetta hlut­verk bygg­ing­ar­innar ekki hafa farið hátt. Ofanjarðar verður eitt­hvað bjart og hvítt og gluggar, jafn­vel gróður. Það mun líta út í takt við ávarp forsæt­is­ráð­herra, sem birt­ist í formála samkeppnislýsingarinnar:

„Við hönnun bygg­ing­ar­innar verður horft til hugmynda­fræði sjálf­bærrar þróunar og vist­vænnar hönn­unar. Í samræmi við það verður m.a. litið til orku­nýtni, efnis­vals og heilsu­verndar við hönnun og lögð áhersla á að lágmarka neikvæð umhverf­isáhrif í öllu ferl­inu. Ákveðnir þættir vist­vænnar hönn­unar verða í fyrir­rúmi, t.a.m. vellíðan þeirra sem eiga að nýta bygg­ing­arnar, en þar þarf meðal annars að horfa til nýtingar dags­birtu, góðrar útfærslu á lýsingu og loftræs­ingu og vel útfærðrar hljóðvistar.“

Í samkeppn­is­lýs­ing­unni sjálfri er öryggis­at­riðum aftur á móti veittur forgangur, þeim er lýst á undan umhverf­is­þátt­unum, og öllu ítar­legar. Rýmum bygg­ing­ar­innar er skipt upp eftir öryggis­kröfum, frá inngang­inum, Ö0, yfir í fundarað­stöðu Þjóðarör­ygg­is­ráðs, í kjall­ara, með öryggis­ein­kunn­ina Ö3:

„Svæði í mismun­andi örygg­is­flokkum (Ö0 til Ö3) mega aðeins hafa aðgengi að svæðum í sama eða næsta örygg­is­flokki (Ö0 með teng­ingu við Ö1, Ö1 við Ö2 og Ö2 við Ö3). Inngangar í bygg­ingar að öruggu svæði (Ö2) þurfa að vera með örygg­is­stúku (sér rými, a.m.k. 2 metrar að lengd) í flokki Ö1. Viðkvæm örygg­is­svæði Ö3 skulu ekki vera yfir eða við móttöku.“

Bönk­ernum sjálfum, það er fund­ar­her­bergi Þjóðarör­ygg­is­ráðs, er lýst tvisvar í samkeppn­is­lýs­ing­unni. Fyrri lýsingin hljóðar svo:

„Fund­ar­her­bergi þjóðarör­ygg­is­ráðs (Ö3) verði (glugga­laust) í kjall­ara, með öruggri teng­ingu við flóttaleið.“

Síðari lýsingin segir:

„Fund­ar­rými Þjóðarör­ygg­is­ráðs fyrir 30 manns í kjall­ara. Öruggt rými sem gæti þjónað sem neyð­ar­stjórn­stöð. Gera þarf ráð fyrir snyrt­ingum og kaffi­að­stöðu. Samtals 50 m².“

Öryggis­kröfur til byrg­is­ins og umhverfis þess eru marg­vís­legar. Meðal annars er gert ráð fyrir að bygg­ingin stand­ist sprengju­árásir og efnavopnaárásir:

„Mögu­leikar þurfa að vera á óháðum flótta­leiðum frá viðbygg­ingu vegna bruna og annarra ógna (t.d. ytri spreng­inga). Æski­legt er að stiga­hús verði stein­steypt og glugga­laust. … Gera þarf ráð fyrir að í bygg­ing­unni verði mjög öflug skel­vörn. Form nýbygg­inga auki ekki áhrif spreng­inga og því er óæski­legt að efri hæðir nái lengra fram en neðri hæðir. Kröfur verða um örygg­is­varnir á öllum hliðum bygg­ing­ar­innar og á þaki. Tillög­urnar þurfa að miðast við að örygg­is­gler verði sett í allar hliðar bygg­ing­ar­innar. … Útfæra þarf inntök loftræs­ingar þannig að sem minnst hætta sé á að menguð eða hættu­leg efni í umhverf­inu komist inn í bygg­ing­una, æski­legt er að þau verði á þaki. Tengigangur þarf að uppfylla miklar öryggis­kröfur. Einnig þurfa að vera örygg­is­skil (örygg­is­hurðir) að báðum bygg­ingum sem hann tengist.“

Boðað var til keppn­innar í apríl 2018, og samkeppn­is­lýs­ingu dreift til arki­tekta. Alls kemur öryggi fyrir 59 sinnum í samkeppn­is­lýs­ing­unni, eitt og sér eða í orða­sam­setn­ingum. Dómnefnd lauk störfum og birti niður­stöður sínar í nóvem­ber sama ár. Í texta dómnefndar um sigur­til­lög­una má finna orð á við „bjart, létt og áreynslu­laust“, „skýr“, „hógværð og yfir­læt­is­leysi“. Þar er aftur á móti ekki orð um öryggi eða fund­ar­rými Þjóðarör­ygg­is­ráðs og engin lýsing á þeim hluta bygg­ing­ar­innar sem liggja mun neðanjarðar. Fullveldisbyrginu.


Myndin sem fylgir þess­ari færslu sýnir tillögu stof­unnar Thor Architects að útfærslu nýbygg­ing­ar­innar. Tillagan bar ekki sigur úr býtum.