Íslands­saga í Karíbahafi 1

23.8.2019 ~ 3 mín

Til eru viðfangs­efni sem eru alltof stór til að fást við þau á bloggi. Blogg er kæru­laus miðill, eða kæru­leys­is­legur, lausa­mál í sama skil­ingi og lausa­möl, eitt­hvað sem má sparka í og þyrlast þá kannski aðeins um en það breytir ekki öllu, þetta liggur bara svona einhvern veginn.

Sum viðfangs­efni útheimta vand­aðri blaða­mennsku. Eða fræði­legar rann­sóknir. Mynd­list­ar­sýn­ingu eða epíska kvik­mynd, ef út í það er farið. En sum gætu jafn­vel viljað allt þetta, og þá er kannski í lagi að blogga um þau líka.

Dísa tók þátt í lista­há­tíð­inni Cycle í Gerð­arsafni í fyrra og sýndi þar verkið Af vopnum. Rann­sókn­ar­vinnan að baki verk­inu var þannig allt í kringum mig um nokkra hríð, fór fram í Danmörku, Þýskalandi og á Íslandi, og fól í sér uppgötvun sem ég er eigin­lega ekki að meðtaka fyrr en um þessar mundir, rúmu ári síðar: meðal tilfinn­an­legra áhrifa­þátta á sjálf­stæð­is­bar­áttu Íslend­inga var uppreisn svartra þræla á sykurplantekrum Dana í Karíbahafi árið 1848.

Þarna eru auðvitað nokkrar uppgötv­anir – og allar því marki brenndar að vera löngu þekktar. Svolítið eins á dögunum þegar Íslend­ingar lærðu af frétta­til­kynn­ingu Hvíta húss­ins að vara­for­seti Banda­ríkj­anna vildi einkum ræða hern­að­ar­mál í Íslands­ferð­inni framundan, sem íslenskir ráðherrar höfðu ekki haft hátt um fram að því: þegar ekki var hjá því vikist að nefna þetta, í ljósi tilkynn­ingar Hvíta húss­ins, svar­aði utan­rík­is­ráð­herra því til að það segi sig nú sjálft, hann þurfi ekki að stagl­ast á því, auðvitað ræði þeir hern­að­ar­mál, þeir ræði alltaf hernaðarmál.

Ekkert nýtt, segir sig sjálft, allir vita það, óþarft að ræða það. Þannig mætti bregð­ast við þeirri einföldu og þannig séð vel þekktu stað­reynd, til dæmis, að Danir hafi átt þræla­ný­lendu í Karíbahafi, þar hafi þrælar frá Afríku ræktað sykur­inn í sæta­brauðið þeirra – og okkar – um langa hríð. Dönsku Vestur-Indíur hét nýlendan, þrjár eyjar, alls um 350 ferkíló­metrar. Floti á vegum danska sprota­fyr­ir­tæk­is­ins Vest­indisk-guineisk Kompagni tók eyjarnar eigna­námi árið 1672. Þegar fyrir­tækið varð gjald­þrota árið 1755 tók konungur eyjarnar yfir. Árið 1778 var áætlað að Danir flyttu um 3.000 mann­eskjur frá Afríku í þræl­dóm á eyjunum árlega. Þræla­sala var bönnuð árið 1802 en þræla­haldið ekki afnumið fyrr en árið 1848. Það eru tæpar tvær aldir af þræla­haldi og sykri.

Þetta er ekkert nýtt, þetta mega allir vita, þetta liggur allt ljóst fyrir, þetta er á Wikipediu – en einhvern veginn er þetta ekki bein­línis hluti af sjálfs­mynd Norð­ur­landa. Konung­ur­inn yfir Danmörku var lung­ann af þessum tíma einnig konungur yfir Noregi, og vita­skuld Íslandi, Græn­landi og Færeyjum. Vist­ar­bandið, húsaga­til­skipun, allt það fól í sér svæsna kúgun, þorri íslensks alþýðu­fólks lifði sann­ar­lega ekki við mikla velsæld eða frelsi – en þó ekki bókstaf­lega við þræl­dóm. Ekki bókstaf­lega í hlekkjum. Og sumir lifðu hlekkjalausu lífi með öllu: Íslend­ingar voru aldrei allir í sömu sveit settir, þar var líka að finna stétt sem samsam­aði sig konungs­vald­inu og hirð­inni og hreykir sér enn í dag af því að hafa flutt inn saffran í miðjum móðu­harð­indum. Plantekru­þræl­arnir í Karíbahafi voru ekki bara þrælar Dana heldur þrælar Norð­ur­landa, þræl­arnir okkar, sköff­uðu sykur­inn okkar og bómull­ina okkar. Saga þeirra er, þó ekki kæmi annað til, líka saga okkar, líka Íslandssaga.

Það er ein uppgötvun, ef ekki nokkrar uppgötv­anir, á einhverju sem allir mega vita en við höfum ekki bein­línis mikið rætt um.

En fleira kemur semsagt til. Og ég er að spá í að kafla­skipta þessu efni, segi: fram­hald í næstu færslu.