Öll atvikin í röð

03.3.2018 ~ 2 mín

Já, það eru of margar fréttir. Of margt gerist í heim­inum. Ég las eina frétt um Trump og byssur, ál, stál, mark­að­ina, mark­að­irnir eru í uppnámi vegna áforma forset­ans um tolla, svo las ég aðra frétt, um May og Brexit og Blair og Major, þessa ræðu sem May var að halda og það sem aðrir hafa í kjöl­farið sagt um ræðuna — og þegar ég ætlaði að snúa mér að þriðju frétt­inni, þá sem hugs­an­lega væri mest relevant fyrir vefmið­il­inn þar sem ég starfa, skýrslu um fram­kvæmd kosn­inga á Íslandi, þá hafði ég ekki headspeisið til að lesa meira. Headspeis — höfuð­rými? Hauspláss? Hugrými? Hugrýmd mín er takmörkuð. Mín bíða mikil­væg skila­boð sem ég hef ekki svarað, og í ofanálag langar mig að heyra í foreldrum mínum, hitta vini mína og afa mína, lítil frænd­systkin, ég á nokkur, ef fram heldur sem horfir ljúka þau fyrstu háskóla­gráðum sínum áður en mér gefst hedspeisið til að senda þeim afmæl­is­gjafir á réttum tíma.

Of margar fréttir, of mörg atvik, of margir stórvið­burðir, litlar uppá­komur, krísur og klípur. Ef þið gætuð vinsam­leg­ast stillt ykkur upp í röð við dyrnar þá gæti ég afgreitt ykkur öll í réttri röð. Ég skal sjá til þess að það verði kaffi á könn­unni á meðan þið bíðið. Atvikin ykkar.

Ég er hættur að telja dagana niður að fertugu. Eins og við niðurtaln­ingu fyrir eldlflauga­skot, þar sem hefðin virð­ist, ef marka má sjón­varps­efni, vera sú að telj­ar­inn, maður­inn sem vinnur við þetta eitt, að telja niður að eldflauga­skotum, telur upphátt frá ten, nine, eight, niður að five, four, en þegir gegnum three, two, one, eins og til að halda niðri í sér andanum fyrir hönd áhorf­enda, þetta eru viðkvæm tæki, auðvitað og hver veit hvað gæti farið úrskeiðis ef maður öskrar á eldflaug í miðju flugtaki.

Hver veit hvað gæti.

Þetta var fínn dagur, fín vika, þetta er fínt líf. En væri betra ef þætt­irnir sem það er sett saman úr gætu raðað sér í einfalda röð fyrir utan dyrnar eða tekið númer, þess vegna, beðið róleg eftir að röðin komi að sér.