Ég skrifa þetta á lykla­borð sem ég stal frá móður minni

02.1.2018 ~ 2 mín

Fyrir­gefðu, mamma.

Pabbi lánaði mér það, einhvers staðar á mörkum réttar og óréttar
þegar ég var í heimsókn
og mig vant­aði lyklaborð
en svo líkaði mér það svo vel að ég tók það með mér,
pabbi sagði að þú notaðir það sjaldan eftir að þú fékkst fartölv­una þína,
líklega hefurðu áður notað það við iPadinn
en það þýðir auðvitað ekki að ég sé í rétti.

Einhvern veginn verður maður víst að vera í órétti,
því miður, langar mig að segja, en það væri næstum óheiðarlegt,
svona er þetta bara, ef það er þá svona og ég held að þannig sé það,
að einhvern veginn verði maður að vera í órétti,
annars ætti maður ekki hlut­deild í heiminum,
væri bara ímyndað laufblað
í óljósri þoku
(til aðgrein­ingar frá skýrri þoku).

Minnir mig á heim­speki­þýð­ingar og tilraunir til að greina skýrt á milli orðanna skýrt og greini­legt eins og annað þýði eitt og hitt eitt­hvað annað, eins og þau séu sjálf skýr og greini­leg en ekki hvers­dagsklunna­legur áhersluauki.

Ég vil taka það fram skýrt og greini­lega, og gera öllum ljóst, að álögur verða ekki hækk­aðar í þessu ljóði.

Allra síst álögur á þig, elsku mamma.

En ég stal samt lykla­borð­inu þínu.

Og þetta ljóð er ekki tilraun til að bæta það, þú færð það ekki í stað­inn, ég hef ekki sjálf­dæmi í svona málum og ætla raunar enn (í raun og veru) að skila þér lykla­borð­inu, helst áður en líður á löngu, helst óháð því hvort og hvenær ég lít sjálfur svo á að ég telji mig hafa efni á öðru eins lykla­borði í staðinn,

einhvern veginn þarf maður að vera í órétti en maður þarf líka að djöggla órétt­inum, ef maður situr of lengi fastur í sama órétti hlýtur ekki bara heldur hefur þá þegar eitt­hvað staðnað, þó ekki sé nema órétt­ar­staðan, við djögglum, við höfum (í raun og sanni) í hyggju að djöggla, skýrt og greini­lega, og skila þessu lyklaborði,

múður­laust.

Ekki þarf frek­ari vitn­ana við.

Orðlengjum þetta ekki frekar.

Nú er mál að linni.

Þetta lykla­borð er svo gott að þú ættir að geyma það í ísskápnum og næst þegar ég kem skil ég eftir miða,

ég segi fyrir­gefðu mamma,

ég ætlaði ekki að –

og byrja aftur að plata

skýrt og greinilega.