Andlits­vinna, samheng­is­fall og orðstol; dagar 265–164

13.1.2018 ~ 7 mín

Frá því að ég blogg­aði síðast hefur liðið rúmur ársfjórð­ungur, og þann ársfjórð­ung hef ég unnið laun­aða vinnu upp á hér um bil hvern dag. Ég skila hálfu dags­verki gegn greiðslu, reyni að vinna hálft dags­verk fyrir eins manns munka­regl­una sem ég tilheyri einhvern veginn, og á svo einka­líf í ofanálag. Munka­reglan er ekki ströng, svo því sé til haga haldið, hún er voða frjáls­lynd fyrir utan hvað hún er trúlaus og ístöðu­laus í ofanálag, reikul í trúleys­inu, en hún snýst samt um iðju og uppskeru sem er ekki alveg ljóst hverju skilar í þessum heimi, svo stundum veit ég ekki hvað ég ætti að kalla hana annað. Ómunka­regla er kannski nær lagi. Eða munka­ó­regla. Til að valda ekki misskiln­ingi. Stundum hef ég verið ómunkur í fullu starfi, sem getur verið heldur kvíða­vald­andi, nú er ég ómunkur í hluta­starfi á móti öðrum verkum. Á meðan ég kynn­ist þessum nýja takti hefur hitt og þetta fallið milli skips og bryggju, ýmis­legt sem er aldrei aðkallandi en kannski mikil­vægt fyrir því.

En í gær gerði ég mér grein fyrir öðrum hugs­an­legum orsaka­þætti í þessu blogg­falli. Skiln­ing­ur­inn barst úr átt sem mér þótti óvænt en er það kannski ekki: Mark Zucker­berg tilkynnti að á næst­unni verði gerðar veru­legar breyt­ingar á Face­book flæðilín­unni: þú munt á næst­unni sjá umtals­vert minna efni frá frétta­vefum og fyrir­tækjum á Face­book og meira af persónu­legum færslum vina og kunn­ingja. Zucker­berg sjálfur segir að þetta sé liður í að “laga Face­book”, því allt frá síðustu forseta­kosn­ingum í Banda­ríkj­unum sé ljóst að eitt­hvað sé að. Aðrir hafa hins vegar sett breyt­ing­arnar í samhengi við það sem nefnt hefur verið “context collapse”, samheng­is­hrun eða samheng­is­fall. Hugtakið er sagt upprunnið hjá Dr. Michael Welsch, mann­fræð­ingi við Kansas State háskól­ann, sem skil­greindi það í grein árið 2008.

Í samskiptum augliti til auglitis vinnur mann­fólk látlausa ómeð­vit­aða eða lausmeð­vit­aða grein­ing­ar­vinnu á félags­legu samhengi, og á meðal annars í stöð­ugum samn­inga­við­ræðum við viðmæl­anda með andliti sínu, um andlit sitt, þar sem svipir og látbragð gefa til kynna forsendur og mögu­lega viðtöku þess sem sagt er. Eins og mann­fræð­ing­ur­inn blogg­aði:

Þó svo að einstak­ling­ur­inn eigi virkan þátt í fram­setn­ingu, varð­veislu og stundum aðlögun andlits síns, þá er það ekki höfund­ar­verk eins höfundar. Andlit skil­grein­ist ekki eingöngu af athöfnum persón­unnar heldur hvaða augum aðrir aðilar samskipt­anna líta þær og dæma eftir því sem samskipt­unum vindur fram. Andlits­vinna er flók­inn dans þar sem allir þátt­tak­endur, hvert orð þeirra, svip­brigði, látbragð, stell­ing, afstaða, augna­til­lit og búkhljóð á sinn hlut. Í stuttu máli er hvernig við berum sjálf okkur fram (og, í fram­haldi af því, hver við “erum”) að miklu leyti háð samhengi; hvar við erum, með hverjum við erum, hvað við erum að bardúsa, ásamt öðrum þáttum.

Welsch hefur kanadíska félags­fræð­ing­inn Erving Goff­mann fyrir þessu, sem virð­ist heill­andi höfundur. En ég ætla að halda mig við efnið: vand­inn við staf­ræn rými blasir þegar við. Þegar þú lætur eitt­hvað frá þér á netið er það ekki bundið tilteknum aðstæðum í þessum skiln­ingi, heldur getur dúkkað upp koll­inum við hvaða aðstæður sem er, í hvaða samhengi sem er. Með orðum Welsch:

Hvað segir maður við heim­inn og fram­tíð­ina? Frammi fyrir svo yfir­þyrm­andi spurn­ingu kemur ekki á óvart að margir þeir sem hafa í hyggju að v‑logga í fyrsta sinn standa gátt­aðir frammi fyrir vefmynda­vél­inni, og greina iðulega frá því að þeir hafi varið nokkrum klukku­stundum stein­runnir fyrir framan vélina, reyn­andi að átta sig á því hvað þeir vilja segja.

Vand­inn er ekki að samhengi skorti. Það er samheng­is­fall: óend­an­legur fjöldi samhengis sem fellur saman, hvert ofan í annað, á þessu eina augna­bliki sem tekið er upp. Mynd­irnar, athafn­irnar og orðin sem linsan nær hverja stund geta flust hvert sem er á jörðu og varð­veist (að gera má ráð fyrir) um ómuna­tíð. Litla glerl­insan verður gátt að svart­holi sem dregur til sín allan tíma og allt rúm — svo gott sem allt hugs­an­legt samhengi.

Auðvitað er þetta ekki alveg nýtil­komið: meira eða minna allt höfund­ar­starf einkenn­ist af hlið­stæðu, hugs­an­legu, samheng­is­falli. En iðulega er höfund­ar­starf samt ekki samheng­is­laust með öllu: sumar bækur skrifa menn með einn lesanda í huga, aðrar með einn samfé­lags­hóp, enn aðrar með engan tiltek­inn í huga en þó fyrir­fram bundnir tilteknu tungu­máli á tilteknum tíma sem afmarkar viðtak­endur. Sumir höfundar hreiðra um sig í senum, sellum, klúbbum eða félögum þar sem tengsl við annað fólk með andlit, lesendur og höfunda með andlit, geta veitt fótfestu í tilteknu samhengi (upplestr­ar­við­burði og hlut­verk þeirra er kannski forvitni­legt að skoða í þessu samhengi). Bókmennta­hefðin, bókmennta­hefðir, ólíkar bókmennta­greinar og merkimiðar í hillu skapa tilteknar forsendur viðtöku. Mögu­legir lesendur bóka eru aldrei í reynd allir, mögu­lega allir eða hver sem er hvenær sem er. Við lesum enn Íslend­inga­sög­urnar en ef höfundar þeirra hefðu gert sér grein fyrir því á meðan þeir rituðu þær hefðu þeir áreið­an­lega varið lengri tíma í að stara á kálf­skinnið fyrir framan sig strax frá byrjun og velt fyrir sér hvort þessar ættar­tölur þeirra meika eitt­hvert sens, hvort lesendur muni hafa af þeim nokk­urt gagn eða gaman eftir 800 ár.

Og Face­book? Nú segja semsagt sumir að framan af notkun miðils­ins hafi hann einkum þrif­ist á því að lesenda­hópur hvers og eins notanda afmark­ast af vina­hópi hans eða hennar, þeim 50 eða 100 eða 5.000 manns sem viðkom­andi á oftar en ekki einhver tengsl við utann­ets: þannig hafi hver notandi, við hverja færslu, getað gert ráð fyrir einu og öðru andliti, meira eða minna ómeð­vitað, gert ráð fyrir ákveðnu neti mögu­legra viðbragða, ákveðnu samskipta­mynstri sem hann eða hún hefur lag á og fyllir upp í þær gloppur í merk­ingu og skiln­ingi sem text­inn einn og sér skilur eftir. Með sívax­andi samskiptum við ókunn­uga, utan slíks samhengis, gegnum komm­enta­þræði fjöl­miðla til dæmis, hafi hins vegar átt sér stað svona samheng­is­fall á miðl­inum, notendur segi fyrir vikið minna frá eigin högum en áður, deili þar heldur því sem á heima á torgum úti en því sem þeir tala um undir fjögur augu í eldhús­inu heima hjá sér eða með vinum á barnum.

Og það er vanda­mál fyrir Face­book, því persónu­lega efnið séu gögnin sem nýtist fyrir­tæk­inu til að selja auglýs­ingar og beina þeim að réttum viðtak­endum. Hvort þú kýst Trump eða Hillary segi þegar upp er staðið miklu minna um þig sem neyt­anda en hvort þér, segjum, þykir svolítið vænt um kaffi­bolla með áprent­aðri mynd af kett­lingi sem þið hjónin keyptuð undir jólin 2017.

Þess vegna hafi Face­book upp á síðkastið lagt sig svona mikið fram um það að minna þig á persónu­legar hliðar tilver­unnar, með því að draga upp minn­ingar úr gömlum færslum, spyrja hvort þú viljir ekki deila þessu aftur, minna þig á hversu lengi þú hafir verið Face­book-vinur pabba þíns og mömmu, sýna þér mynda­al­búm með öllu sem þið vinirnir gerðuð saman á þarsíð­asta ári. Fyrir­tækið leiti logandi ljósi að leiðum til að aftur­kalla samheng­is­fallið og fá þig þar með til að tjá þig minna um, til dæmis, póli­tík, þar inni og meira um ferða­lög. Og kett­linga og kaffi­bolla og það allt.

Allt um það: mér sýnist þetta orð, samheng­is­fall, til margra hluta nýti­legt. Ég sé hvernig það á við um hitt og þetta sem ég hef upplifað. Ég held ekki að það sé nýtt af nálinni og ég held ekki að það sé, út af fyrir sig, einfald­lega slæmt, en ég held að það geti hæglega falið í sér áskor­anir, jafn­vel krísur, sem þarf þá að mæta með einum eða öðrum hætti. Ég held að það sé ágætt orð yfir muninn á upplifun fjölda fólks af því að blogga, segjum, fyrir árið 2005, þegar lesendur blogga voru fáir og gátu meira eða minna vitað hver af öðrum, og í dag, þegar blogg er líkara hverri annari útgáfu­starf­semi að því leyti að höfundur hefur ekki hugmynd um hver les eða í hvaða samhengi. Ég held að sjálfur beiti ég helst því bragði að láta mig gleyma þessu, og skrifa þá eitt­hvað sem raun­veru­legur eða ímynd­aður vina­hópur minn hefði áhuga á, og mér bregði síðan ótæpi­lega þegar ég rek mig á það sem ég veit þó vel, og vil jafn­vel, að meðal lesenda getur fund­ist eitt­hvert allt annað fólk, með allt önnur andlit, sem tæki mig óratíma að semja við um forsendur samskipta ef við skyldum einhvern tíma sjást. Þá verður mér stundum orða vant.