Sex tré fyrir húsaga­ráð­herra; dagar 289–286

14.9.2017 ~ 10 mín

– Hver var þessi kona sem heils­aði okkur og faðm­aði inni á flugstöðinni?

– X?

– Ha? Var þetta X? X Y‑dóttir?

– Já.

– Nei.

– Jú, Haukur, þegar við sáum hana sagði ég meira að segja X, hæ!

– Ég heyrði það ekki.

– Haukur …

– Hræði­legur með andlit. Ég hef sagt þér það.

– Ég vissi ekki að þetta væri á þessu stigi …

– Það vantar allt samhengi hérna. Ég þekki mann­eskjur ágæt­lega út frá samheng­inu. Ef ég hefði séð hana í tilteknum félags­skap á tilteknum stað hefði ég getað ályktað hver þetta væri, en flug­völlur segir manni ekki neitt …

– Ég sá alveg að þú varst eitt­hvað skrít­inn við hana en hélt það væri kannski bara út af einhverju sem …

– Er hún búin að fara í klippingu?

– Já, hún er kannski með aðeins styttra hár …

– Gráhærð­ari en síðast?

– Nei nei, hún var alltaf …

– Ég þarf að leið­rétta þetta við hana. Er það ekki? Ég stóð bara þarna og beið eftir að þið klár­uðuð samtalið, eins og … en ég get ekki sagt henni, hvað á ég að?

– Þú finnur út úr því þegar við lendum.


Nokkrum klukku­tímum fyrir flug fletti ég upp áhrif­unum sem ég hef á andrúms­loftið með svona flandri. Sjálfsagt eru nokkur skekkju­mörk á því öllu en reikni­vélin sem ég opnaði sagði að flug­vélin myndi losa rúmt tonn af kolt­ví­sýr­ingi á hvern farþega fram og til baka. 1,2 tonn eða svipað og að aka nettri bifreið til og frá vinnu innan borgar í eitt ár.1 Þá hvarfl­aði að mér að sigl­ingar væru ef til vill umhverf­i­s­vænni, kannski væri ferjan Norræna ábyrg­asta leiðin til að yfir­stíga hafið, en það er hún víst ekki, vélknúin skip menga jafn­vel meira á hverja farþega­mílu en farþega­þotur. Segja þeir. Sólknúin skip eru enn sem komið er varla til. Segja þeir líka.

Um daginn barst kolat­ann­krem inn á heim­ilið, fyrst í setn­ingum sem var beint að mér en ég meðtók ekki nema rétt svo veru­fræði­lega, að kolat­ann­krem væri til,2 svo birt­ist túban skyndi­lega á skrif­borð­inu mínu, svört túba í svörtum kassa með svörtu tann­kremi sem á að gera tenn­urnar hvítar. Nótt­ina fyrir flug bar ég loks túbuna inn á bað, kremið á burst­ann og burst­ann upp í munn. Á meðan tann­hold mitt sortn­aði af kolakrem­inu, þvert á spár og þó fyrir­sjá­an­lega, komst ég að þeirri niður­stöðu að segl­skip væru líklega eina leiðin til að ferð­ast yfir haf án þess að kynda undir komandi hamfarir.

Þegar ég stíg inn í svefn­her­bergi liggur Dísa hlæj­andi í rúminu. Ég spurði hvort það væri tann­kremið, sebrarönd­ótt bros mitt, en hún var að hlæja upp úr draumi: hana dreymdi að ég hefði fundið leið til að knýja skip með dýrum: ég raðaði fjölda ólíkra dýra upp á þilfar og segði þeim að dilla sér í lend­unum, þá þyti skipið áfram eins og Star Trek-geim­far í vörpudrifi.

Jafn­vel fram­sækn­asta verk­fræði á enn ekki roð í draumvísindin.


Eftir að fresta umræðum um afkára­lega vangetu mína í að greina andlit heims­ins hvert frá öðru lokuðum við augunum og hlust­uðum á podköst, ég í hægra eyra, Dísa í vinstra. Miranda July las eina smásögu eftir sig og aðra eftir höfund sem ég náði ekki nafn­inu á, ég flaut milli svefns og sögu en man að annarri sögunni lýkur á eigin­manni sem stingur bjór­flösku upp í enda­þarm­inn á sér í leit, ef ég skildi rétt, að meiri nánd við konuna sína. Svo lentum við. Ég ákvað að á flug­stöð­inni skyldi ég finna mann­eskj­una sem ég þekkti en kann­að­ist ekki við og útskýra hvernig væri í pott­inn búið, afsak­aðu mig inni­lega, ég er alltaf að lenda í þessu, veit ekki hvað er að mér, og ef vel færi myndum við hlæja saman.3 4


– Flug­freyj­urnar, þær gleymdu að fara með örygg­is­dans­inn, er það ekki?

– Ha?

– Ritúal­inn, vestin og grím­urnar, þær fóru ekkert í gegnum hann, er það?

– Það er allt hérna í þessum bæklingi, það er örugg­lega bara komið í hann í staðinn.

– Nei, það hefur alltaf verið bæklingur líka. Þær verða að, það er alveg skýrt, einhverjar reglur, hlýtur að vera, þær mega ekki sleppa sýningunni.

– Hvað ætlarðu að gera? Biðja um prívatsjó?


Ef ég nefni flug­fé­lagið fer það sjálfsagt í mál við mig — enda get ég ekki fært neinar sönnur á þetta, kannski sýndu þær okkur hvernig súrefn­is­grím­urnar falla úr hand­far­ang­urs­geymsl­unni og brýndu fyrir foreldrum að bjarga sjálfum sér fyrst, börn­unum svo, án þess hrein­lega að ég tæki eftir því, með hugann við allt hitt, og nú vorum við lent, alltof seint að byrgja brunn­inn fyrst flug­vélin hrap­aði ekki í hann hvort eð er.

Á meðan ég reyndi að vekja áhuga Dísu á þess­ari vöntun án þess að hljóma eins og eldri borg­ari í leit að söku­dólgi, orsaka­valdi bein­verkja og alls sem er að, stakk ég íslensku simkorti í símann minn, kveikti á honum og leit yfir skila­boð. Maður úti í bæ blogg­aði um þig, sagði vinur minn. Ég opnaði hlekk og las færslu um ungan mann sem vildi breyta heim­inum en áskotn­að­ist þá húfa, honum til mikillar gleði. Blogg­ar­inn sagði að setn­ingin um húfuna væri besta setn­ing sem hann hefði lesið frá unga mann­inum. Fögn­uður yfir húfum væri áreið­an­lega meiri gjöf til heims­ins en efasemdir um húsag­ann og allt það. Síðar í haust mun ég fagna aldar­fjórð­ungsaf­mæli gráu háranna minna en er þó ekki fyrr lentur á Reykja­nesi, varla búinn að teygja mig í hand­far­ang­urs­hólfið, rétt búinn að fatta að það vant­aði þennan leik­þátt þarna í flugið, þegar ég er uppnefndur og vændur um að vera ungur maður.

Að öllu saman­lögðu blasti við að eitt­hvað hefði dottið úr lið á leið­inni yfir hafið.


Um síðustu alda­mót var útbreidd þessi hugmynd, sem ég var annars búinn að gleyma, að það sé misbeit­ing á ritmáli að beina því að öðru fólki og yfir­valdi enda eigi maður alltaf sitt­hvað ósagt um sig og sína húfu. Hvernig afmarkar maður svona tíma­bil? Milli múrfalls og banka­hruns? Milli Bush og Bush? Ár eftir ár skrif­uðu allir um húfurnar sínar, og höfðu orð á því í viðtölum, mikil­vægi þess að aðrir héldu sig við það líka, hver við sína húfu. Þeir töluðu um þetta á börum, kaffi­húsum5 og fundum, stundum á fundum um húfur og erindi hverrar húfu, en ekki síður á fundum sem áttu að snúast um annað, en lauk þó iðulega á nokkrum orðum um húfur. Eða orðum um orð um húfur — hversu brýnt það væri að orðin fengju að snúast um húfur og að annar­leg sjón­ar­mið yrðu ekki til þess að orðunum yrði aftrað frá því að snúast um húfur, nú þegar þau væru loks­ins frjáls. Hvað húfur varðar.

Emma Goldman sagði — hérumbil: Ef ég má ekki dansa vil ég ekki þessa bylt­ingu.6 Ef ég mætti ekki skrifa um húfur myndi ég heldur ekki setja niður orð um húsag­ann. En ef þú vilt ekki lesa um húsag­ann áttu ekki heldur orð í húfunni minni. Það sagði ég.7


Þú stígur um borð í þennan hólk, spennir belti, dokar við. Ef allt er með felldu setja flug­freyj­urnar upp gular grímur og fremja nokkrar æfðar bend­ingar þar til vélin tekst á loft, þú líður út af og vaknar í allt öðru landi. Hver sem tekur þátt í skamm­hlaupi af þeirri stærð­ar­gráðu hættir um leið á að verða fyrir neista­flugi, lenda í svolít­illi skamm­hlaupa­hríð. Það er vel þekkt.

– Náðirðu að leið­rétta þetta við X?

– Ég fann hana ekki. Sendi henni kannski línu. Fann tösk­una þína.

Sumir segja að sálin ferð­ist ekki hraðar en hestur. Hver sem vill vera samferða sjálfum sér, skamm­hlaupa­laust, ætti því að takmarka ferða­hraða sinn við um 60 kíló­metra á dag, en geti annars dottið úr synci.

Útblást­urs­reikni­vélin segir að ég geti aftur­kallað flugt­ví­sýr­ing­inn og endur­heimt hita­stigið eins og það var fyrir flug með því að gróð­ur­setja sex tré.

References
1 Yaris árgerð 2015, ekinn 36 kíló­metra fimm daga vikunnar losar til dæmis 1,4 tonn yfir árið samkvæmt sömu reiknivél.
2 Eins og kola­ham­borg­ara­brauð og fleira, kol eru sögð ryðja sér til rúms í neyslu­varn­ingi um þessar mundir því litur­inn, kolsvartur, fari svo vel á instagram.
3 Ef illa færi myndi hún horfa á mig með þessu augna­ráði sem fólk mætir þegar það reyn­ist ekki með öllum mjalla, þegar það reyn­ist alls ekki rísa undir því trausti sem mann­leg samskipti byggja á, að það greini eitt frá öðru eftir hérumbil sama kerfi og fólk gerir flest.
4 Verst er að fá bæði, augna­ráðið fyrst, vina­lega hlát­ur­inn svo, sem þýðir að viðkom­andi lítur svo á að betur færi á að tjóðra þig við staur í fjós­inu en hleypa þér í baðstof­una, veit það með nægri vissu til að leita ekki álits þíns á þeim úrskurði framar.
5 Barir og kaffi­hús voru þá ný í land­inu, þetta var í raun fyrsta kynslóð bar- og kafi­húsa­gesta, frum­kvöðlar sem stóðu allt í senn hugdjarfir, tvístíg­andi, álútir og opin­mynntir frammi fyrir spurn­ing­unni hvað þeir ættu að tala um þar til þeir væru orðnir nógu fullir til að það skipti engu máli, fólk sem fram að því hafði, kynslóðum saman, aldrei komið saman edrú nema í vinn­unni, heima­húsum og á fundum með setta dagskrá. Sumir segja að það hafi verið til að allt hlypi ekki í bál og brand sem þessi kynslóð féllst á að halda sig við húfurnar sínar, og þetta samþykki hafi átt nokk­urn þátt í því að allt virt­ist leika í lyndi til ársins 2008.
6 Orðrétt skrif­aði Goldman: “At the dances I was one of the most untir­ing and gayest. One even­ing a cousin of Sasha, a young boy, took me aside. With a grave face, as if he were about to announce the death of a dear comrade, he whisp­ered to me that it did not behoove an agitator to dance. Certainly not with such reckless abandon, anyway. It was undignified for one who was on the way to become a force in the anarchist movement. My frivolity would only hurt the Cause. ¶ I grew furi­ous at the impu­dent inter­f­erence of the boy. I told him to mind his own business, I was tired of having the Cause const­antly thrown into my face. I did not believe that a Cause which stood for, a beautiful ideal, for anarchism, for release and freedom from conventi­ons and prejudice, should demand the denial of life and joy. I insisted that our Cause could not expect me to became a nun and that the movement should not be turned into a cloister. If it meant that, I did not want it. “I want freedom, the right to self-expression, every­bo­dy’s right to beautiful, radi­ant things.””
7 Á bloggi og í bókum eru boðflennur auðvitað velkomnar, að vera boðflenna er jafn­vel eina hlut­skipti lesanda gagn­vart texta. En, svo við látum eins og líkinga­málið haldi: ef þú tínir allar ansjó­s­urnar af pítsu sem var aldrei ætluð þér og kvartar svo yfir að þær nái ekki alla leið niður, að undir þeim sé botn, þá fórstu húsa­villt, varst ekki í leit að pítseríu heldur krukku. Lifðu í lukku.