Ótal; dagar 285–275

25.9.2017 ~ 2 mín

Ísland í viku. Heim­ferð með smásög­una Pnin í eyrunum, eftir Nabo­kov, upplestur á hlað­varpi The New Yorker. Gaman. Lagði mig allan fram um tvennt í flug­ferð­inni, þó að augljós­lega væri ekki hægt að gera hvort tveggja í einu: að hlusta á söguna og sofna. Hlustaði því aftur og aftur og aftur, heyrði bút hér og bút þar, held að ég þekki hana nú í réttri röð en er alls ekki viss.

Nokkrum dögum eftir lend­ingu: erindi við Hamborg. 20 tíma dagur, að meðtöldum akstri. Forvitni­legt að aka undir leið­sögn frá síma um hrað­brautir sem eru innramm­aðar af trjá­gróðri á báðar hendur, sérstak­lega forvitni­legt að nætur­lagi, meira eins og tölvu­leikur en raun­veru­leiki, eða eins og að vera fram­hand­leggur á tölvu.

Í gær, dag 275: kosn­ingar í Þýskalandi. Bein útsend­ing á vef Des Spiegel var ágæt því þar starfa blaða­menn sem kunna ekki bein­línis á sjón­varp. Sátu í óþægi­legum sófa, alltaf eitt­hvað að klóra sér og hvísla, hljóðið lélegt, engar mynda­vélar á ferð og flugi þó að blaðið virð­ist hafa splæst í þrífót. Úr varð eitt­hvað meira í ætt við hangs og spjall með fólki yfir kosn­inga­sjón­varpi en kosn­inga­sjón­varp. Enda kveiktu blaða­menn­irnir sjálfir á sjón­varp­inu og litu á útsend­ingar annarra stöðva til að fá nýjustu tölur. Í beinni. Til fyrirmyndar.

Skrítn­ast: að sjá kosn­inga­stjóra AfD mæta í sófann hjá þeim og hvað vel fór á með þeim öllum. Hversu vel fór líka á með honum — þannig lagað — og kosn­inga­stjóra Die Linke sem áður var kosn­inga­stjóri Græn­ingja, eða öfugt, nú man ég það ekki. Andstæð­ingar, já, en kammó, eins og póli­tík AfD væri löggild póli­tík. Eftir að vegg­fóðra borgir lands­ins með plakötum þar sem þeir segj­ast vilja bikini frekar en búrkur. Nú er það framundan, þeir eru komnir á þing, allir þurfa að láta einhvern veginn við þá.

Nei, skrítn­ast var kannski ekki að sjá kosn­inga­stjór­ann heldur einn fram­bjóð­enda eða í það minnsta framámann í hreyf­ing­unni: hann talaði eins og ég hef heyrt þúsund íslenska kalla tala til þessa, en Þjóð­verja aldrei, hversu miklu væri logið upp á þýska hermenn í seinna stríði, hvers vegna Frakkar geti reist styttur af Napó­leon en Hitler sé þetta tabú …? Ef ég skildi rétt. Nú þegar ég færi það í orð trúi ég því enn síður, en þetta sá ég samt og heyrði.

Kjör­staðir lokuðu víst klukkan 16, og útsend­ingu Spiegel lauk eitt­hvað upp úr kvöld­mat. Á sunnu­degi. Ég heyrði ekkert rætt um að nátt­hrafnar og morg­unsvæfir væru þannig útilok­aðir frá kosningunni.

Hverfa­skipt land. Í þeim hverfum sem ég hreyfi mig um hef ég aldrei hitt þennan mann. Og blaða­maður Spiegel sagð­ist hafa búið í Berlín í 25 ár og aldrei séð búrku.

Á meðan ég var á Íslandi féll ríkis­stjórn. Í enn einum skandalnum. Og enginn nennti að tala um það.