Miðflótta­afl

25.9.2017 ~ 10 mín

1

„Mér finnst grafal­var­legt hvernig ráða­menn hafa í svörum sínum og útskýr­ingum stöð­ugt afvega­leitt tungu­málið, ráðist inn í samband orðs og merk­ingar á skít­ugum skónum, reynt að rjúfa og brengla samband orðs og merk­ingar.“1

Þetta sagði Sigurður Páls­son á Aust­ur­velli fyrir þremur árum. Svik eru svik eru svik. Tilefnið var kosn­ingalof­orð um þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu, að almenn­ingur skyldi ráða hvort landið gangi í Evrópu­sam­bandið, og sú leið­rétt­ing Wild Boys-stjórn­ar­innar strax eftir kosn­ingar að þannig yrði það nú ekki.

Ég heyrði það líka haft eftir Sigurði að ein lygi geri manni ómögu­legt að yrkja ljóð. Ein lygi og allt strandi. Tungan og fingurnir.

2

Immanuel Kant setti fram þá hugmynd að manni beri í hverju fótmáli að breyta á þann veg sem meikar sens að allir myndu alltaf gera, og að þessi marg­földun allra athafna til eilífðar sé eini siðfræði­legi mæli­kvarð­inn á þær. Af þessu leiddi meðal annars, sagði hann, að undir engum kring­um­stæðum væri líðandi að ljúga: lygin sjálf er háð því að tungu­mál sé annars alla jafna notað til að segja satt. Ef allir ljúga alltaf tekur enginn nokk­urt orð lengur trúan­lega og þarmeð er heldur engu hægt að ljúga.2 Lygin gengur aðeins upp sem undan­tekn­ing en ekki sem lögmál allrar breytni og því er hún ekki heldur líðandi, sagði Kant, í eitt einasta sinn.

Þó vitum við að í heim­inum er logið. Við lifum ekki í ástandi hins óspjall­aða tungu­máls fyrir lygina, heldur eftir hana. Tungu­málið hefur þegar dottið í gólfið og virkar samt, í það minnsta í og með: eitt og annað tökum við trúanlega.

En við getum tekið skáldið á orðinu. Að það er alvar­legt að rjúfa og brengla samband orðs og merk­ingar. Og ekki gott að yrkja í lygi.

3

Lögin sem ennlaf­andi ríkis­stjórn skakklapp­að­ist í kringum þartil hún datt í sundur, lögin um uppreist æru, fela í sér lygaskyldu:

„Hafi maður er sætt hefur refsi­dómi fyrir einhvern verknað, síðar öðlast uppreist æru, er ekki heim­ilt að bera hann framar þeim sökum, og leysir sönnun því ekki undan refs­ingu, er svo stendur á.“

Þetta er önnur máls­grein 238. greinar hegn­ing­ar­laga. Leysir sönnun ekki undan refs­ingu: hér er ekki átt við þann dæmda og uppreista, sem hefur þá auðvitað þegar undir­geng­ist sína refs­ingu, heldur hvern sem hefur þareftir orð á því sem hann var dæmdur fyrir.

Uppreist æru dæmir þannig alla aðra en saka­mann­inn til að þegja um þetta eina.

4

Eitt sumar upp úr alda­mótum stal þing­maður spýtum í bygg­inga­vöru­verslun. Þegar frétt­ist af þessu spurðu vand­aðri fjöl­miðlar þing­mann­inn sjálfan hvort hann hefði stolið spýt­unum. Þing­mað­ur­inn sagði nei. Þar með var málið, samkvæmt starfs­venjum hinna vönd­uðu miðla, afgreitt. Subbu­leg götu­blöð létu sér þetta aftur á móti ekki nægja heldur töluðu við óbreytta starfs­menn búðar­innar, sem sögðu að þing­mað­ur­inn hefði víst stolið spýt­unum. Og héldu því til streitu þar til dómstólar komust að sömu niðurstöðu.

Þing­mað­ur­inn sat inni, en fátt er svo með öllu illt: Hann reynd­ist fyrir­mynd­arfangi og keyrði úr fang­els­inu í fylgd fimm vöru­bíla fullum af högg­myndum, tonni á tonn ofan af klettum og klöppum sem hann hafði borað göt í þar inni. Einhvers staðar standa þeir nú, þessir holóttu minn­is­varðar þing­manns­ins um refsi­vist­ina, sumir á almanna­færi. Og stein­halda auðvitað kjafti.

Stuttu síðar hlaut maður­inn uppreist æru og gat þar með aftur tekið sæti á þingi. Um leið varð refsi­vert að nefna að hann hefði yfir­leitt nokk­urn tíma stolið spýtum, í það minnsta þeim tilteknu spýtum sem hann var dæmdur fyrir að stela. Rekist ferða­maður á íbor­aðan klett og spyrji um tilurð holanna í grjót­inu, má leið­sögu­mað­ur­inn sem svarar ekki hefja söguna á því að þing­maður hafi setið inni fyrir að stela spýtum. Starfs­mað­ur­inn sem stóð hann að verki má ekki heldur segja þessa gaman­sögu í fjöl­skyldu­boðum. Grand­varir fjöl­miðlar þekkja bæði lögin og kunna sig.3

5

Það að hugtakið „uppreist æru“ skilar sér ekki með nákvæmni í erlenda fjöl­miðla, sem tala ýmist um náðun eða sakar­upp­gift, er ekki þýðing­ar­vandi, eða ekki bara þýðing­ar­vandi. Og kannski er þýðing­ar­vandi aldrei bara þýðing­ar­vandi heldur uppljóstrun um eitt­hvað meira, að í orði leyn­ist hugsun sem samræm­ist annarri hugsun illa eða ekki, þó að vaninn kunni að dylja það heima fyrir.

6

Til ársins 1995 var lyga­skyldan víðtæk­ari en hún er í dag. Fram að því var bannað að lögum og refsi­vert að segja nokkuð ljótt um embætt­is­menn yfir­leitt. Í 108. grein hegn­ing­ar­laga, um ærumeið­ingar í garð opin­berra starfs­manna, var tekið fram að: „Aðdróttun, þó sönnuð sé, varðar sektum“. Með öðrum orðum gilti einu hvort þú sagðir satt: ef það var ljótt og sner­ist um embætt­is­mann skyld­irðu bíta í tung­una á þér eða hljóta verra af. Allt til ársins 1995 voru þannig íslenskir þing­menn, hrepp­stjórar og löggur flekk­laus­ari en páfinn. Að lögum.

Rithöf­und­ur­inn Þorgeir Þorgeir­son var dæmdur fyrir að brjóta þessi lög árið 1983, með blaða­greinum um lögreglu­of­beldi. Þorgeir hafði útlenskar hugmyndir um mann­rétt­indi og stefndi í kjöl­farið íslenska ríkinu fyrir Mann­rétt­inda­dóm­stóli Evrópu, þar sem hann flutti mál sitt sjálfur, fyrstur ólög­lærðra manna, og vann.4 Tíu ára langri vegferð Þorgeirs um rétt­ar­kerfið lykt­aði þannig með innrás mann­rétt­inda á eyríkið: tilknúið af Mann­rétt­inda­dóm­stólnum felldi Alþingi úr gildi ákvæðið um flekk­leysi íslenskra embætt­is­manna. Svolítið forviða þó á öllu þessu havaríi.5

Tján­ing­ar­frelsi er réttur vald­lausra til að segja ýmis­legt misjafnt um vald­hafa. Á Íslandi var sá réttur m.ö.o. lögfestur fyrir 22 árum.

7

Nú má semsagt hafa orð á því ef þing­maður stelur spýtum. En fáist það sannað fyrir dómi að þing­mað­ur­inn hafi stolið spýt­unum hlýtur hann að lokum uppreist æru og reyn­ist þá, eftir á að hyggja, alls engum spýtum hafa stolið, enda skuli þing­menn, hvað sem tautar og raular, hafa óflekkað mannorð.

Og ekki bara þing­menn. Fyrir þann sem sætt hefur refsi­dómi er uppreist æru lykill­inn að nokkrum fjölda lykil­hlut­verka í samfé­lag­inu: lögmanns­störfum, eins og fram hefur komið. Og mats­menn við skipti dánar­búa skulu hafa óflekkað mann­orð, ásamt skatt­stjórum, innheimtu­mönnum, stjórn­ar­mönnum Ríkis­út­varps­ins, trygg­inga­fé­laga, lífeyr­is­sjóða og fjölda annarra opin­berra apparata.6

8

Þessi lög voru öll sett í konungs­veld­inu Íslandi. Og þau meika sens í konungsveldi.

Konungs­veldi snúast ekki um konunga, enda er næstum enginn konungur. Eða drottn­ing. Í hásæt­inu gæti allt eins setið gína með kórónu. Konungs­veldið er rökvísin sem allir hinir hreyfa sig eftir. Hver á hvað. Hver á orðið. Hver má yrða á hvern og hvernig.

Í konungs­veld­inu tryggði 108. greinin að almúga­fólk segði ekkert misjafnt um þá sem störf­uðu á vegum hirð­ar­innar eða í mestri grennd við hana. 238. greinin virð­ist aðeins meika sens til að þétta í gluf­urnar á sama prinsippi: að flekk­leysi embætt­is­manna skuli hafið yfir allt, ekki bara óbreyttar stað­reyndir heldur og úrskurði dómstóla.7

Og þrátt fyrir innrás mann­rétt­inda í land húsag­ans lafir þessi rökvísi enn inni, hreytur konungs­veld­is­ins, enda er Íslandi óbylt enn.8

9

„Þorðu frétta­menn ekki í Bjarna? Þora stjórn­mála­menn ekki í hann heldur? Þorir enginn að nefna orðið barn­aníð við svo fínan mann?“ spurði Hall­grímur Helga­son um daginn.9 Og Gauti Eggerts­son svar­aði nokkrum dögum fyrr: „Fólki finnst miklu þægi­legra að tala um eitt­hvað sem er óumdeilt, eins og að það þurfi að hjálpa öldr­uðum og hlú að trjám, tungu og öryrkjum. Mér finnst eins og ég sé að horfa á dönsku kvik­mynd­ina Festen.“10

Tvær óháðar heim­ildir, það myndi nægja sagn­fræð­ingi til að kalla þetta stað­reynd: að miðflótta­afl orðanna er jafn rammt í dag og þegar sagt var, fyrir hálfri öld, að íbúar lands­ins „leysi vand­ræði sín með því að stunda orðheingils­hátt og deila um titlínga­skít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls“.11

10

Stjórn­ar­skrá er samkomu­lag um að verja almenn­ing gegn yfir­gangi valdhafa.

Maður­inn sem setti okkur núgild­andi stjórn­ar­skrá fædd­ist til aðal­stignar í Danmörku árið 1818.12

Að kalla sig lýðveldi en starfa sem erfða­veldi er að setja samfé­lag­inu lygi fyrir horn­stein. Enginn smiður mælir með því.13

Ekki áfanga­staður heldur upphafs­reitur (og lágmarks­krafa áður en við dettum í sundur): að standa við löngu gefið loforð, steypa kórónu hans hátignar af þing­hús­inu og setja okkur grunn­lög sjálf.

References
1 http://blog.pressan.is/illugi/2014/03/02/sigurdur-palsson-svik-eru-svik-eru-svik/
2 En ef morð­óður maður eltir vin minn og spyr mig hvert hann fór, þá hlýtur þó að vera rétt að ljúga? spurði einhver og Kant svar­aði bara nei. Það er kannski ekki tekið út með sæld­inni að vera Kant en það einfaldar margt.
3 Á Wikipediu er raunar einhver svo boru­brattur að rekja söguna, og það ítar­lega. Og sagan hefur áreið­an­lega verið margtuggin hér og þar löngu eftir að hún var bönnuð. En yfir vofir þetta vald, mögu­leik­inn, og flestir tala þá í trausti þess að það fari ekki lengra, berist alltént ekki þing­mann­inum til eyrna. Í reynd kveða lögin þannig á um að um sann­leik­ann skuli pískrað, hann verði helst ekki sagður hreint út, alls ekki borinn á torg. Þannig sprettur af þagn­ar­skyld­unni og lyga­skyld­unni óform­leg en allt eins raun­veru­leg slúðurskylda.
4 Um þá reisu má lesa hér: https://is.wikipedia.org/wiki/Þorgeir_Þorgeirson_gegn_íslenska_ríkinu
5 http://www.bjorn.is/greinar/nr/2553
6 Óflekk­aðs mann­orðs var þar til um 1960 kraf­ist í enn víðara samhengi, meðal annars til þátt­töku í kosn­ingum, til sjóstarfa, stofn­unar hluta­fé­laga, þátt­töku í sókn­ar­nefndum, til náms við bænda­skóla, jafn­vel til að njóta fullra lífeyrisréttinda.
7 Þessi lógík teygir sig auðvitað lengra aftur. Húsaga­til­skipun, sem gilti frá miðri 18. öld í hundrað ár, bann­aði íslensku alþýðu­fólki ekki bara að dansa, halda veislur, syngja söngva og flytja amorskvæði, heldur líka að segja tíðindi. Það að flytja fréttir af einum bæ á annan bauð, að mati löggjaf­ans, hætt­unni heim á „slaðri“.
8 Í vikunni frétt­ist af 200 ára gömlum lögum um fund­ar­laun og bumbuslátt sem eru enn í gildi.
9 https://stundin.is/grein/5493/hneykslid-i-hneykslinu/
10 http://blog.pressan.is/gauti/2017/09/19/hvenaer-er-komid-nog/
11 „Því hefur verið haldið fram að íslendíngar beygi sig lítt fyrir skyn­sam­legum rökum, fjár­munar­ökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúar­innar, en leysi vand­ræði sín með því að stunda orðheingils­hátt og deila um titlínga­skít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls. Afturá­móti klífa þeir þrítugan hamar­inn til að verða við bænar­stað vina og frænda, enda mundi lands­bygð á Íslandi hafa lagst niður fyrir mörgum öldum ef eigi væri svo. Þó er enn ein röksemd sem íslendíngar eru fúsir að hlíta þegar alt um þrýtur, en það er fyndni; má vera aula­fyndni. Við hlægi­lega lygi­sögu mýkist þjóð­fé­lagið og fer að ljóma upp; jarð­vegur sálar­innar verður jákvæður.“ – Hall­dór Laxness, Innansveit­ar­krónika, 1970.
12 Já, stjórn­ar­skráin hefur tekið breyt­ingum en að öllu saman­lögðu hefur hún þróast minna frá því 1874 en jafn­aldri hennar, reið­hjólið: http://leisuregearshop.com/2016/06/06/who-invented-the-bicycle/
13 Þegar þið getið ekki lengur sagt satt getið þið ekki logið heldur og þá verður ekkert eftir af ykkur nema bumbuslátt­ur­inn, segja smiðirnir.