Liljur vall­ar­ins laga sig að breyttum aðstæðum; dagar 291–290

11.9.2017 ~ 5 mín

Þetta varð óreiðu­kenndur dagur sem einkennd­ist af óþörfum músars­mellum og einhvern veginn atvik­að­ist það, eitt­hvað olli því, að ég opnaði hlekk á vef Forbes.com.1 Til að lesa grein á Forbes.com þurfa gestir fyrst að mæna á tilvitnun í fimm sekúndur. Þeir taka tímann, hún birt­ist við hlið­ina á telj­ara sem telur niður á meðan þú lest: 5, 4, 3 … í þetta sinn var það Díana prins­essa. Díana prins­essa sagð­ist ekki fylgja reglum, samkvæmt Forbes, ekki leiða með höfð­inu heldur hjart­anu. Ég hark­aði þessa tilvitnun af mér til að komast í grein­ina sjálfa, eða hvað maður kallar svona texta: ráð frá manni sem sagð­ist eitt sinn hafa starfað með Elon Musk, og dregið af því lærdóm um hvað þurfi til að ná árangri. Þetta las ég og get nú deilt með ykkur án þess að þið þurfið fyrst að komast fram hjá Díönu Prins­essu: Til að ná árangri þarf þrennt, sagði maður­inn sem eitt sinn starf­aði með Musk: ástríðu, færni og eftir­spurn. Ef maður sinnir af ástríðu því sem maður er fær í og til er mark­aður fyrir það sem úr verður, þá þarf maður ekki einu sinni að hugsa um pening, hann kemur af sjálfum sér — sem birt­ing­ar­mynd þess gildis sem maður skapar öðrum.

Birt­ing­ar­mynd þess gildis sem maður skapar öðrum.

Nýald­ar­spekin sem sveim­aði í kringum mig sem barn sner­ist í reynd öll um þetta: pening og hvernig hann kemur bara ef maður hefur ekki of miklar áhyggjur af honum, hvernig hann syndir upp í hend­urnar á þeim sem verð­skulda hann, laun heims­ins til þeirra sem kunna að njóta og gleðj­ast. Jesús á auðvitað þessa línu þarna um liljur vall­ar­ins, þið eruð nú meiri flónin, sagði hann, að hafa áhyggjur af þarnæstu máltíð, vitið þið ekki að heim­ur­inn var skap­aður af örlæti, að auðvitað er séð fyrir ykkur? 2

Þessi tilgáta, að það sé í besta falli gagns­laust og senni­lega skað­legt að hafa áhyggjur af morg­un­deg­inum hefur aldrei, mér vitandi, verið sann­reynd í stýrðri rann­sókn. Nýrra tilbrigðið, að þeim farn­ist best fjár­hags­lega sem ekki leggja sig eftir því að efnast, veit ég ekki til að hafi sloppið gegnum ritrýni í einu einasta fræði­riti. Að það sé ábata­sam­ara að líta á sjálfan sig sem dans­andi stjörnuryk en, segjum, óstöð­ugt hlé á milli rotn­un­ar­ferla, er óstað­fest með öllu.

Örlæti — hvað er aftur nýja orðið yfir maníukast? Örlyndi, já. Suma daga virð­ist senni­legra að heim­ur­inn sé upprunn­inn í örlyndisk­asti en örlæti, að hvaða aðili sem stóð að uppá­tæk­inu hafi lent í mass­ífri dýfu í kjöl­farið. Bless­aður geðhvarfa­sjúk­ling­ur­inn sem skap­aði heim á sex dögum þurfti svo að hvíla sig aðeins. 3 Sunnu­dag­ur­inn langi, það er dagur múrmeldýrs­ins.4

Í öðrum fréttum þessa helgi var að salt jarðar hefur glatað nokkru af seltu sinni.

References
1 Laug­ar­dag­ur­inn (dagur 391) var síðri en föstu­dag­ur­inn (392). Ég ætti að vita betur en monta mig af góðri lukku, svona á almanna­færi — til er tvenns konar fólk í heim­inum: fólk sem nýtur góðs af því að gleði þess sé sýni­leg og fólk í vanskilum.
2 Háva­mál gysast að vitleys­ingnum sem sefur ekki fyrir áhyggjum, vaknar daginn eftir og kemst að því að allt er víl sem var. Búdd­ismi eins og hann leggur sig snýst um að ekkert sé þess virði að hafa áhyggjur af því. Stóu­spek­ingar, epikúr­ingar — hvað eiga upphafs­menn allra þess­ara siða­kerfa sameig­in­legt? Þeir voru allir uppi löngu fyrir tíma húsnæð­is­lána, náms­lána og skyldusparnaðar.
3 Lítur við löngu seinna og segir öllum að tjillaxa aðeins, maður, kall­inn er mættur, í alvör­unni, hey, slakið aðeins á, slakið á! Þið eruð svo tens, ég sagði kall­inn er mættur!
4 Sunnu­deg­inum (degi 390) lauk svona: ég stóð og horfði á Dísu, sem sneri í mig baki, krjúp­andi á rúminu í rönd­óttum boxer-buxum og svörtum stutterma­bol, með bókina Violence eftir Slavoj Žižek í hönd­unum, reiðu­búin að slá bókinni í vegg­inn næst höfðalag­inu ef hún yrði vör við flug­una sem hélt fyrir henni vöku. Þetta var spenn­andi sena sem varði nokkra stund og leit út fyrir að þetta gæti lánast þegar hver hald­iði að hafi komið spíg­spor­andi eftir rúmstokknum nema herbergiskóngu­lóin, sem við höfðum annars ákveðið að láta í friði því maður drepur ekki kóngu­lær og það er kalt úti en rúmstokk­ur­inn, það er heldur langt gengið –! Ef við kynnum einhverja skil­virka og áreið­an­lega aðferð til að láta kóngu­lóna koma flug­unni fyrir katt­ar­nef hefðu þetta mögu­lega verið gleði­tíð­indi, en þær gera þetta allt á sínum hraða, kóngu­lærnar, spinna sína vefi (ólíkt til dæmis liljum vall­ar­ins …) og bíða svo átekta, aðferð sem myndi ekki leysa vand­ann eins og hann blasti við okkur fyrir nótt­ina — svo að ég tók við bókinni, tældi lang­leggj­aðra dýrið upp á bókar­kjöl­inn og henti því fram af svöl­unum. Sjálfsagt hefur það kastað út þræði og gripið í brík­ina á svölum nágrann­ans, skríður þar inn og birt­ist á öðrum rúmstokki þegar líður á haustið. Flugan, við vitum ekki hvað varð um flug­una, mögu­lega sætti hún færis þegar dyrnar stóðu opnar og stakk af, í það minnsta er nú næði. Svona fer þegar maður tekur til, þá sjást frávikin svo skýrt og manni birt­ast allar pödd­urnar sem annars hefðu ekki sést og engan truflað. Sagði ég, við dræmar undirtektir.