Hinn nýi hrotta­skapur; dagur 292

09.9.2017 ~ 6 mín

Er Sigríður Á. Ander­sen dóms­mála­ráð­herra nasisti? Eða með öðrum orðum: hver er munur­inn á henni og nasista, hvað kæmi í veg fyrir að hún stæði sig með sóma og prýði í ríkis­stjórn nasista? Eftir að lesa nýja reglu­gerð úr ráðu­neyti hennar1 sé ég það ekki glögg­lega. Ævin­týra­leg­asti hluti reglu­gerð­ar­innar kveður á um að ef umsókn mann­eskju um vernd á land­inu grund­vall­ast á „fjar­stæðu­kenndri frásögn“, skuli umsóknin telj­ast „bersýni­lega tilhæfu­laus“, og leiða til brott­vís­unar jafn sjálf­krafa og ef umsækj­and­inn kæmi frá einhverju hinna svonefndu „öruggu landa“ sem ráðu­neytið hefur á skrá. Nú veit ég ekki hversu margt flótta­fólk ráðherr­ann hefur hitt á sinni vegferð um veröld­ina og embættið, og hvort hún hefur þá meira talað eða hlustað, en sjálfur hef ég aldrei hitt flótta­mann sem ekki á að baki fjar­stæðu­kennda frásögn. Raunar veit ég ekki, þegar ég hugsa út í það, hvort nokkuð er jafn áreið­an­lega til marks um að mann­eskja þurfi á vernd að halda, og einmitt fjar­stæðu­kennd frásögn. Eða reyndu að ímynda þér ófjar­stæðu­kennda borg­ara­styrj­öld. Ófjar­stæðu­kennt sprengjuregn. Ófjar­stæðu­kenndar lífláts­hót­anir, ófjar­stæðu­kenndar limlest­ingar og ófjar­stæðu­kennd fjölda­morð. Ófjar­stæðu­kennda ferð á banvænni gúmmítuðru yfir Miðjarð­ar­haf, og ófjar­stæðu­kenndar leiðir til að prútta um verð á sæti um borð í tuðr­unni, fyrir þína hönd, fyrir hönd barns­ins þíns.

Ef ráðu­neytið hefur aðeins enn fjar­stæðu­kennd­ari frásagnir í huga, segjum innrásir frá Mars eða morð­óða risatóm­ata, þá láðist að taka það fram í reglu­gerð­inni.2 En það væri auðvitað einmitt fjar­stæðu­kennt: reglu­gerð­inni er ekki beint gegn bullu­kollum heldur flótta­fólki almennt og yfir­leitt. Hún er samin til að svæla umsækj­endur um vernd frá land­inu. Þess vegna er í sömu reglu­gerð kveðið á um að eftir synjun umsóknar megi þegar í stað loka á alla þjón­ustu við umsækj­and­ann, að meðtal­inni fram­færslu. Með öðrum orðum, fólk sem þegar er án atvinnu­leyfis, á ekki aðstand­endur í land­inu og er meinað að kynn­ast fólki eins og kostur er (sjá stað­setn­ingu íslenskra flótta­manna­búða og heim­sókna­bann í þær), skal nú vera án matar­pen­inga frá synjun fram að brott­vísun. Mann­rétt­inda­brotin í fyrir­komu­lag­inu eru áreið­an­lega fleiri en eitt, þetta eru kerf­is­bundnar pynt­ingar – en þjóna mark­miði sínu sjálfsagt ágæt­lega: að koma því til skila að við kærum okkur aðeins um þær millj­ónir gesta sem ekki þurfa á gest­risni okkar að halda.

Ráðherra velur að láta þessa reglu­gerð frá sér einmitt núna, einmitt á meðan athygli almenn­ings bein­ist að brott­vís­unum sem eru augljós­lega óverj­andi. Þegar ekki bara hand­fylli þekktra vinstrimanna heldur meira eða minna allt sem heitir siðað samfé­lag í land­inu rís upp til samstöðu með tveimur stúlku­börnum og aðstand­endum þeirra, sem yfir­völd hafa valið að kasta í ruslið. Tíma­setn­ingin er líklega ekki tilviljun. Senni­legra virð­ist að ráðherr­ann vilji vera með í nýja hrotta­skapnum,3 yfir­stand­andi stiga­keppni þeirra sem hæfæva hver annan glott­andi yfir eigin orðum og athöfnum, í hvert sinn sem þeir valda einni sprungu enn í ramma þess sem hefur talist siðferði­lega og póli­tískt boðlegt frá miðri síðustu öld. Ekki lítilsvirða sárs­auka annarra, er eitt slíkt viðmið. Ekki útskúfa fólki vegna uppruna þess, er annað. Ég sé ekki betur en að ráðherr­ann vilji ofbjóða okkur með því að misþyrma minni máttar og vekja á því athygli. Ekki bara valda sárs­auka heldur láta það sjást. Sem er svolítið eins og að skreyta höfuð­fatið sitt með hauskúpu.45

References
1 Jóhann Páll vakti fyrst athygli á reglu­gerð­inni, hér.
2 Ráðu­neytið ætlar sér áreið­an­lega ekki heldur að leggja áherslu á móttöku þeirra sem flýja hvers­dags­legar, fyrir­sjá­an­legar ógnir á við lífs­leiða, samskipta­bresti, ónot á vinnu­stað, pirr­ing milli nákom­inna. Að taka aðeins á móti flótta­fólki með ófjar­stæðu­kenndar, tilkomu­litlar hvunndags­sögur að baki er raun­veru­lega fjar­stæðu­kennd tilhugsun, Monty Python-skets.
3 Hinn nýi hrotta­skapur, eða the new brutality – orða­lagið hefur birst áður, en mér sýnist að list­mið­ill­inn e‑flux beri ábyrgð á að koma því í almenna umferð nú í sumar. Í kvöld las ég loks grein­ina sem Dísa benti mér á í gær, hún er góð: The Language of the New Brutality eftir Ninu Power. Í titl­inum, og gegnum alla grein­ina, vísar Power til bókar­innar LTI eftir málvís­inda­mann­inn Victor Klem­p­erer, sem á ensku heitir The Language of The Third Reich, en kom út í þýðingu Maríu Kristjáns­dóttur undir upphaf­lega titl­inum. Við þurfum hana, því við þurfum, eins og Power segir, að leggja okkur fram um að taka eftir því hvernig tungu­tak okkar breyt­ist – ekki bara orða­forð­inn, heldur leik­irnir sem við leikum, hvað við gerum við orðin og hvað orðin gera við okkur. Að fjar­stæðu­kenndum og tilhæfu­lausum reglu­gerðum meðtöldum.
4 Talandi um höfuð­föt – dagur 392 var góður dagur. Ég á við hér, í minni tilveru. Hefði ég ekki heyrt frá manni sem ég hafði löngu gleymt að skuld­aði mér pening og hefði hann ekki haft samband einmitt til að minna mig á það og biðja mig um reikn­ings­númer til að greiða skuld­ina, þá hefði dagur­inn líklega verið tölu­vert síðri. Ég hefði ekki keypt mér nýja húfu til vetr­ar­ins, ég hefði ekki boðið Dísu út að borða, senni­lega ekki sest og sötrað öl með henni og vini okkar, hér á milli haust­vinda. En maður­inn gerði einmitt þetta og svo fór sem fór. Haust­vind­arnir eru bæri­legri undir sæmi­legu höfuðfati.
5 Þegar ég birti þessa færslu hófst hún á þess­ari frásögn af mínum eigin högum, auk nokk­urra orða um síðasta sumar mitt fyrir fertugt, sem er augljós­lega lokið nú þegar hitinn fer niður í burr stig, og haust­vind­arnir og það allt. Og mér finnst ennþá eitt­hvað ágætt, eitt­hvað meika sens, við að blanda þessu saman, dagbókar­færslum og hinu, þó ekki sé nema til að hægja aðeins á, halda þeim jafn­vel frá lestri sem nenna ekki að tilveran og orðin eigi sér stað á nokkrum sviðum í einu – því við þurfum í raun og sanni að leita annarra leiða til að tala saman, vera saman í tungu­máli. En svo er líka eitt­hvað óþægi­legt, svo ekki sé sagt ósmekk­legt, við að setja sjálfan sig svona fram – hvað kemur fólki við hvort ég fékk mér nýja húfu, þó að það velti kannski fyrir sér, eins og ég, hver sé munur­inn á núver­andi dóms­mála­ráð­herra og nasista? Augljós­lega ekki hætis­hót – svo án þess að hafa gert þetta upp við mig, hvaða form mér finnst best að hafa á þessu, geri ég í bili þessa mála­miðlun við sjálfan mig, að klippa okkur haust­vind­inn úr inngangs­orðum færsl­unnar og færa í neðan­máls­grein, sem fólk les hvort eð er ekki nema það virki­lega langi að láta hlaupa með sig í gönur. Eða læðast í gönur, spíg­spora um þær. Nóg.