Í sumum húsum; dagar 365–301

29.8.2017 ~ 6 mín

Nú sit ég og drekk kaffið mitt og það hlýtur að vera tíma­bært að hafa orð á því, ég meina við almenn­ing, hér á almanna­færi, því ég hef ekki minnst á það mjög lengi. Ég hef ekki minnst á neitt við almenn­ing svo mánuðum skiptir, hvorki kaffi né annað, vitið nú að hér sit ég og drekk það.

Hér: ég sit á svölum og drekk kaffið mitt. Fyrir framan mig er svona saman­brjót­an­leg upphengigræja sem mér þætti undar­legt að kalla þvotta­snúru, því hún er öll úr málmi, þetta eru þvotta­teinar, þó að orðið lýsi annars tilgangi hennar vel. Hún stendur á svöl­unum, hvít og rauð, milli mín og bleiks hrís­grjóna­púða, græns og grás hengi­rúms í hvíld­ar­stöðu og portretts af konu sem vinur minn benti mér á að er á svip­inn eins og hún sé vís með að ganga aftur. Í kringum mig eru líka nokkur dauð blóm, meira eða minna, dauð og skrælnuð, þau voru lífleg í sumar, en nú, eftir að allir fóru í ferða­lög, eru þau búin að vera. Við hefðum auðvitað getað – en gert er gert og ógert ógert.

Það er fleira hérna á svöl­unum en óþarft að telja það allt, enda sit ég bara og drekk kaffið mitt, nývakn­aður þó að klukkan sé orðin margt, og það hefur ýmis­legt skeð. Gerst, vissu­lega, en líka skeð. Til dæmis dreymdi mig margt í nótt, ég man bara slitrur, ég man að mér þótti ég þurfa að sýna hugrekki til að færa það í orð að ég kunni ekki við að heyrn­ar­tólin mín væru geymd á gólf­inu. Því súrrealísk­ari sem veru­leik­inn verður, því realísk­ari draum­arnir? Ég á við eitt­hvað í ætt við grámyglu­legri eða tilkomum­inni. Hver lagði heyrn­ar­tólin mín frá sér á gólfið?

Í kringum sval­irnar standa tré sem teygja sig alla leið niður á götu og upp fyrir mæni húsa, jafn­hatta risa, og ég heyri í bílaum­ferð og hér hefur ýmis­legt skeð.

Fyrst komu vinir í heim­sókn, síðan fór ég í ferða­lag, meira að segja tvö, þetta varð sumar, full­burða og knar­reist, og sólskinið náði alla leið til Norð­ur­slóða. Vakt­inni er að ljúka, sólin bókuð í öðrum heims­álfum, við trén tökum nett í hatt­inn, þökkum henni fyrir tryggð­ina, þjón­ust­una, sjáumst að vetri liðnum, hér eru allir of kúl og verald­ar­vanir til að taka þó fylli­lega ofan fyrir henni.

Það liðu dagar. Svo margir dagar að ég þori varla að fletta því upp hvað líður ferð minni að fertugu. Hún stytt­ist, veit ég.

Svalur andblær, það er orð yfir eitt­hvað hérna. Stöku gustur. Á Íslandi dró ég Sjálf­stætt fólk úr hillu, ég held sama eintak og ég las í mennta­skóla, gerði mér grein fyrir að þrátt fyrir að hafa þá tækni­lega lesið bókina myndi ég nær ekkert úr henni, og byrj­aði aftur, meðal annars vegna ákveð­inna hugleið­inga sem ég hef verið að lesa tengdar vist­fræði, um meinta skað­semi hugmynda sem við erfum frá land­bún­að­ar­bylt­ing­unni um mann­inn andspænis nátt­úr­unni, þá helst karl­mann­inn, einan, sem ber sigur úr býtum í viður­eign sinni við hina grimmu nátt­úru. Mér þótti sem mig rámaði í að bókin fæli meðal annars í sér svolítið háð í garð þeirrar hugmyndar. Ég á við: ekki bara háð í garð þráhyggju­kenndrar hugmyndar um sjálf­stæði gagn­vart öðru fólki, heldur líka um sjálf­stæði fólks gagn­vart umhverfi sínu. Og viti menn, jú. Í bókinni er það auðvitað ekki bara aðal­per­sónan sem er spaugi­leg, heldur allir sem fara með eitt­hvert vald yfir öðrum: Rauðs­mýr­armaddamman og hrepp­stjór­inn eru nógu fjar­lægar persónur til að vera einfald­lega hlægi­legar, en við lifum með Bjarti í þeirri nálægð að hann verður átak­an­legur um leið. Ef linsan væri færð inn á heim­ili heldri borg­ar­anna sner­ist það sjálfsagt við. Það hlægi­lega er meðal annars þetta: að sjá ekki umhverfi sitt nema sem skepnu­fóður, og annað fólk ekki nema sem fóður­vélar. Þegar Bjartur herðir sig upp, þó tiltölu­lega áreynslu­laust, í forn­sagna­stíl, og verður að Don Kíkóta frammi fyrir stormi og hrein­dýr­starfi sem hann sér báða gegnum linsu hetju­kvæða sem óvættir, ramma andstæð­inga til að sigr­ast á, gengur oflátung­ur­inn að eigin­konu sinni dauðri.

„Ef ég dreg fram mínar kindur og stend í skilum frá ári til árs, – þá stend ég í skilum; og hef dregið mínar kindur fram,“ segir Bjartur snemma um markmið tilveru sinnar, ef ekki tilgang. Og fórnar lífi annarra fyrir leit að sauð­kind sem hann veit ekki að hefur þegar verið slátrað, meinta sauð­kind á fjalli. Því sauð­kind­ina sér hann vel, jafn­vel þar sem hún er ekki, eins og hund­tík­ina sína sem hann veit alltaf hvar er niður­komin, enda sauð­kindur og hundar ekki hluti ómann­legrar nátt­úru heldur afurð og undir­staða menn­ing­ar­innar, þess sem í heim­inum heitir akur­yrkju­sam­fé­lag en er á akurrýru Íslandi kallað bænda­sam­fé­lag. Og við lifum öll í því samfé­lagi, viðmið Bjarts er, að breyttu breyt­anda, viðmið okkar, eins og það var viðmið samsveit­unga hans: „ég býst nú við, ef ég á að segja þér alveg eins og er, séra Guðmundur, að undirniðri, svona þegar við tölum með hjart­anu í virki­legu bróð­erni hvor við annan, þá séu skoð­anir okkar á fénaði ekki útaf eins fjar­lægar eins og þér látið í veðri vaka þegar þér eruð að tala við ólærðan mann.“

Frammi fyrir lofts­lags­breyt­ingum og skyldum stór­tíð­indum er fræða­sam­fé­lagið nú tekið að efast um, ekki bara iðnbylt­ing­una og afleið­ingar hennar, heldur hvort land­bún­að­ar­bylt­ingin sem hófst í Mesópóta­míu hafi, með bókhaldi sínu og mannauðs­stjórnun, fastri búsetu, fjöl­skyldu­mynstri, mann­skiln­ingi og heims­sýn, verið gæfu­skref. Sjálf­stætt fólk er skáld­saga og hvaða kenn­ingu sem maður reynir að klæða hana í virð­ast skank­arnir standa fram úr ermum og skálmum eins og úr ferm­ing­ar­fötum, slatti gengur alltaf af – en það er samt svolítið forvitni­legt að lesa hana ekki aðeins sem sögu af Íslandi og stað­bundnu hugar­fari, eða sögu af manni sem gengur í hugmynda­fræði­legar gildrur hægr­is­ins, heldur sögu um afleið­ingar 5.000 ára gamallar ranghugmyndar.

Annars á ég að vera að gera eitt­hvað allt annað – og er að gera eitt­hvað allt annað. Ég er, eins og fyrr greinir, að drekka kaffið mitt og gægj­ast út undan mér á tré – tré með kenni­tölur, eins og þau eru öll hér í útlensku borg­inni. Í þessu stóra landi eru stórir skógar en ekki eitt einasta slysa­tré heldur, skilst mér, hvert einasta upprunnið í excel. Hvort kom á undan, eggið eða hænan? Bókhaldið. Ég er að spá í að breyta um skjá­borðs­mynd á tölv­unni minni. Ég er að lenda, ég er að vakna, ég er að velta fyrir mér hvert ég sæki þarnæstu máltíð, ég er að fresta einu, bíða eftir öðru, ég er að fara að opna síðu sem reiknar fyrir mig hversu langt er liðið á þessa niðurtaln­ingu, ég er að gleyma einhverju.

Jú, nú er dagur 301.

Ég er að fresta einu, bíða eftir öðru, hundrað dagar liðnir frá upphafi taln­ingar, fjórð­ungur af fjór­hundrað­inu, það er í góðu lagi, þó ekki verði greiddur út arður að svo stöddu, ekkert fé leitt til slátr­unar í haust, þetta var fínasta hundrað, kom í góðar þarfir.