Atóm­klukk­urnar fagna þér einum rómi; dagur 350

11.7.2017 ~ 5 mín

Fimm­tíu dagar eru liðnir frá upphafi þessa tímanið­urtals, eða einn áttundi daganna 400 sem þá voru til stefnu. Það er gomma. Ríflega hálfur ársfjórð­ungur, sem samkvæmt ótal fréttamiðlum er veiga­mikil stærð í rekstri stór­fyr­ir­tækja. Það eru mörg ár síðan ég vissi síðast ekki hvernig Apple vegn­aði á síðasta ársfjórð­ungi. Hugs­an­lega erum við fleiri, millj­ón­irnar sem höfum vitað það hvern einasta ársfjórð­ung frá alda­mótum en til dæmis hvort Danmörk er í stríði í Afgan­istan, hvort þeim fjölgar eða fækkar í heim­inum sem hafa aðgang að hreinu vatni eða hvort þroski okkar sjálfra stefnir fram á við eða hrakar. Um stríðin og vatnið munum við lesa í sagn­fræði­ritum á elli­heim­il­unum, og hvernig okkur sjálfum miðar vita allir aðrir yfir­leitt betur en við, ef þeir nenna. En hvort afkoma Apple var tveimur prósentum undir eða yfir spám fréttum við takt­fast á þriggja mánaða fresti. Og hér, í þessu rúma ári, er hinn jafn rúmi ársfjórð­ungur hálfn­aður. Hafi einhver enn ekki spítt í lófana eru nú síðustu forvöð.

Þetta er formáli að formála — síðan kem ég mér að efninu. Ég vildi segja orð um tíma­tal. Alþjóða­ráð voga og mæliein­inga virð­ist mögu­lega þýðing á heiti stofn­un­ar­innar Internati­onal Bureau of Weig­hts and Measures sem er með aðsetur í París, þar sem hún heitir Bureau internati­onal des poids et mesures eða BIPM. Stofn­unin er ein þriggja alþjóða­stofn­ana undir hatti Metra­sátt­mál­ans, ef það er tæk þýðing á Metre Convention eða Convention du Mètre.

Metr­a­ráðið var stofnað á seinni hluta 19. aldar, þegar kom í ljós að arkífu­metr­inn, Mètre des Archi­ves, plat­ínu­stöng sem geymd var í París frá árinu 1799, og allar aðrar metr­astikur heims­ins tóku mið af í tæpa öld, var farinn að láta á sjá. Í stað arkífu­metr­ans ákvað alþjóða­ráð­stefna vísinda­manna sem Napó­leon III kall­aði saman í París árið 1867 að stofna til Alþjóð­lega frum­metr­ans, internati­onal prototype metre, sem skildi mark­aður á stöng með strikum, til að hann rýrn­aði ekki þó að endar stik­unnar máist eins gerst hafði með þann fyrri. Afrit af alþjóð­lega frum­metr­anum voru send til annarra landa, ásamt upplýs­ingum um skekkju­mörk: eintakið í Banda­ríkj­unum er 1,6 míkrómetra styttra en frum­metr­inn sjálfur, með nákvæmni upp á +/- 0,2 míkrómetra.

Í kringum síðari heims­styrj­öld er afráðið að meiri nákvæmni sé þörf í skil­grein­ingu mæliein­inga. Svonefndar ljósvíxl­un­ar­mæl­ingar höfðu í milli­tíð­inni gert mögu­legt að mæla bylgju­lengdir geisl­unar með mikill nákvæmni, tölu­vert meiri nákvæmni en sem nam skekkju­mörkum mæliein­ing­ar­innar metra­kerf­is­ins sjálfs eins og það var þá skil­greint. Árið 1960 komst Hið almenna voga- og mælinga­ráð, ef það er tæk þýðing á General Conf­erence on Weig­hts and Measures (skammstafað CGPM, því eins og allir fyrri metrar heims­ins er þessi í reynd skil­greindur á frönsku) að samkomu­lagi um að metr­inn skyldi skil­greindur sem 1.650.763,73 bylgju­lengdir geisl­unar frá krypton-86 ísótóp.

Sú skil­grein­ing varði aðeins í 23 ár eða til hins merka árs 1983. Í milli­tíð­inni hafði CGPM komist að samkomu­lagi um skil­grein­ingu ljós­hrað­ans sem 299.792.458 metra á sekúndu. Metr­inn varð þar með skil­greindur sem vega­lengdin sem ljós ferð­ast, í loft­tæmi, á einum tvö hundruð níutíu og níu millj­ón­asta, sjö hundruð níutíu og annars þúsund­asta, fjögur hundruð fimm­tíu og áttunda hluta úr sekúndu.

Þessi skil­grein­ing varir enn í dag: metr­inn er skil­greindur á grund­velli sekúnd­unnar. Sem gerir 1983 að tíma­móta­ári í sögu stærða. Frá því ári eru lengdir mældar í tíma­ein­ingu. Aðeins rúmri öld frá því að klukkur breska heimsveld­is­ins voru samstilltar, eftir því sem unnt var, til að liðka fyrir gerð lestaráætl­ana, var með öðrum orðum hægt að mæla tíma nógu nákvæm­lega til að grund­valla allar mælingar heims­ins á sekúndum og sekúndubrotum.

Í dag er það fyrr­nefnd Alþjóða­ráð voga og mæliein­inga, eða BIPM, sem samstillir klukkur heims­ins, með því að gefa út svonefndan Alþjóð­legan atóm­tíma, Internati­onal Atomic Time eða TAI (því franska). Alþjóð­legur atóm­tími er reikn­aður sem meðal­tími samkvæmt mælingu 400 atóm­klukka í 50 löndum heims. Á grund­velli Alþjóð­lega atóm­tím­ans hefur dótt­ur­stofnun Samein­uðu þjóð­anna, Alþjóða­fjar­skipta­sam­bandið (ITU), gefið út Samþættan altíma, ef það er mögu­leg þýðing á Coord­ina­ted Universal Time (UTC), frá og með 1. janúar 1960.

Það er auðvitað forsaga þessa samþætta altíma sem varðar okkur hér og nú miklu frekar en saga metr­ans, sem er eigin­lega útúr­dúr frá þessum formála og ætti heldur heima í neðan­máls­grein eða innan sviga — en klukkan er orðin alltof, alltof margt fyrir nokkra ritstjórn­ar­vinnu af viti hér við eldhús­glugg­ann. UTC heldur öllum hvers­dags­legum tíma­mæl­ingum okkar til haga: árum, mánuðum, dögum, klukku­stundum, mínútum, sekúndum — og frávikum á við hlaupár og hlaup­sek­úndur sem hefur verið skotið inn í tíma­talið á 18 mánaða fresti, að meðal­tali, frá því 1972, þegar jörðin reyn­ist ekki snúast nákvæm­lega samkvæmt spám.

Á grund­velli UTC stendur loks stað­all­inn Network Time Protocol, nettímastað­all sem allur nettengdur tölvu­bún­aður heims­ins tekur mið af. Þar með talinn síminn þinn, spjald­tölvan, fartölvan, snjallúrið, ef svo ber við, bíll­inn, allt heila klabbið. Með milli­göngu staðla, ráða og tíma­þjóna samræmir þessi búnaður sig með reglu­bundnu milli­bili við atóm­klukk­urnar fjögur hundruð til að sammæl­ast um hvað klukkan slær. Eins og við gerðum sjálf, á nokk­urra vikna fresti, þegar ég var krakki, með því að hringja í fröken klukku.

Ég verð að fara að haska mér að efninu. Sjálfur veit ég ekki hversu oft tækin mín hafa ráðfært sig við atóm­klukk­urnar á meðan ég skrif­aði þetta, hvort þau láta sér nægja að heyra í þeim einu sinni á sólar­hring, árlega jafn­vel, eða tékka á tímanum með annarri hverri gagna­send­ingu yfir netið. Því má fletta upp — síðar. Mér þykir bara merki­legt, vildi ég segja, að standa frammi fyrir því, sem orðnum hlut, að nú er ekki lengur raun­hæfur mögu­leiki að vera með rangt stillta klukku, hvort sem er vitandi vits eða óvilj­andi. Klukk­urnar okkar tala nú, án okkar íhlut­unar, við móður­klukkur sínar og mæla allar tímann, allan tímann, jafnt upp á míkró­sek­úndur. Og mér varð hugsað til þess að fyrir daga fjar­skipta­sam­bands var það áreið­an­lega ekki bara klukkan sem gekk svolítið misjafn­lega milli bæja, var kannski hádegi í Reykja­vík kort­eri eftir að hún varð hádegi á Akur­eyri, heldur hljóta heilu bæirnir stundum að hafa farið daga­villt. Ef drykk­felldur en ráðríkur prestur eða sýslu­maður — eða bara húsbóndi á litlum bæ — hélt því fram fullum fetum að nú væri laug­ar­dagur hefur í það minnsta einhver þurft að hafa bein í nefinu til að andmæla honum, jafn­vel þó að allir aðrir íbúar vissu mæta­vel að laug­ar­dag­ur­inn væri þegar liðinn og runn­inn upp sunnu­dagur. Og vikurnar liðið á skjön upp frá því, milli bæja, þar til kom að réttum.

Nú, aftur á móti, er ekki um að vill­ast. Það er afmæl­is­dagur á heim­il­inu. Afmæl­is­barnið meldar sig af netinu til að eiga daginn í friði fyrir atóm­klukk­unum. Heims­ins kærustu hamingjuóskir fær það utann­ets og utan­k­lukku. Takk fyrir dagana og geislunina!