Vondur endir; dagar 388 og 387

03.6.2017 ~ 3 mín

Gærdag­ur­inn, fyrsti dagur grasekk­ils­ins: latur. Ég meina svo gott sem katatón­ískur. Ég horfði á Rick og Morty, nánast frá upphafi, alveg til enda. Teikni­myndasería, fín, eins og margir hafa uppgötvað á undan mér. Ég heyrði líka viðtal Harma­geddons við blaða­mann­inn Atla Má um asbest og aðra mengun sem banda­ríski herinn skildi eftir á Reykja­nesi og yfir­hylm­ingar íslenskra aðila. Atli virð­ist vera að vinna mikil­vægt starf.

Dagur­inn í dag, laug­ar­dagur og annar dagur grasekkils: ólatur með öllu. Fegr­aði íbúð og þreif. Bætti vinnu­að­stöð­una í stof­unni. Fór gegnum snúrur, henti drasli, henti þó engum snúrum, man of vel hvað þær kost­uðu, en hvað gerir maður á endanum við Firewire 400–800 kapal sem engum nýtist, eða millistykki úr einu skjá­tengi sem enginn man hvað heitir í annað enn fornfálegra?

Einn daginn samein­ast heim­ur­inn um eina snúru, eina snúru til að sameina þær allar.

Ég var ekki latur, en það þýðir ekki að ég hafi mér neitt til afsök­unar: Ræki­leg tiltekt, hvað þá umröðun húsgagna, getur verið sama frest­un­ar­áráttan og hver önnur sófa­lega. Nú er snot­urt um að lítast í íbúð­inni, en þessa tvo daga hef ég ekki sett staf á blað í því sem ég ætlaði mér að vinna að. Annað hvort hefst ég handa í nótt eða í bítið.

Milli þess að færa til hluti (og skola í vaskinn hlut­verks­lausu efnis­örð­unum sem safn­ast á hluti þegar þeir standa kyrrir) leit ég á netið. Ég las fína grein eftir Sigur­jón Kjart­ans­son, um land­lægu plág­una sem hann kallar þar snill­ings­hyggju, og horfði síðan á þátt­inn sem Hrafn Gunn­laugs­son gerði um Leon­ard Cohen, þegar hann heim­sótti Ísland, árið 1988. Um Leon­ard Cohen er samt ekki alveg heið­ar­legt orða­lag. Athyglin var að sönnu að mestu leyti á Cohen, en inn á milli bar snill­ings­hyggjan viðfangs­efnið ofurliði: fyrst þegar Hrafn gat ekki stillt sig um að sýna áhorf­endum hvernig hann sann­færir söngvaskáldið um að upphaf­legur texti lags­ins Hallelujah hafi verið betri en sá breytti sem Cohen flutti á tónleik­unum, síðan, í lok þáttar, þegar undir einu falleg­asta lagi Cohens, Take This Waltz, birt­ist röð ljós­mynda sem flestar eru teknar í samkvæmi á vegum Sjálf­stæð­is­flokks­ins, í Höfða að mér sýnd­ist: I want you, I want you, I want you, syngur Cohen þá yfir myndum af sér við hlið Tinnu Gunn­laugs­dóttur, sem víkur svo fyrir Davíð Odds­syni, málverki af Bjarna Ben eldri, meiri Davíð Odds­syni, þá þeim Leon­ard og Hrafni saman í Bláa lóninu, aftur Davíð, svo Davíð og Hrafni, ef ég man rétt, alveg án Cohens, og svo framvegis.

Eina skelfi­legri meðferð á lagi frá Cohen í mynd­inni var fyrsta erindi lags­ins Hallelújah á íslensku, í þýðingu sem var fátæk af smáat­riðum og alveg laus við húmor­inn, írón­í­una og treg­ann, mold­ina, sem ekki bara einkennir þetta lag, eins og öll verk Cohens, heldur liggur því til grund­vallar. Því himnesk­ara, því mold­ugra. Ekki orð um flutn­ing­inn, þetta var þýðing­unni að kenna.

Þrátt fyrir ofan­talið: ekki afleitur þáttur, gaman að sjá viðtalið. Og þrátt fyrir snill­ings­hyggj­una átti Hrafn til nóg lítti­læti, jafn­vel sjálfs­háð, til að hafa það með þegar Cohen afþakkar limósín­una sem var send eftir honum á flug­völl­inn (ég tók því þannig að Hrafn hefði sent bílinn, sem kom svosem ekki fram) og tók heldur rútuna í bæinn. Takk fyrir endursýninguna.

Svöl nótt í Berlín. Hryðju­verk í London.