Umbóta­hundar; dagar 382, 381, 380

11.6.2017 ~ 2 mín

Í gær gerði ég mér ferð í bóka­búð og í bíó. Það var betra en ekkert – og bíóið var raunar miklu betra en ekkert. Þar sá ég mynd­ina Selbst­k­ritik eines bürgerlichen Hundes – Sjálfs­gagn­rýni borg­ara­legs hunds – hún er frábær. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé nýja þýska kvik­mynd, úr mínum samtíma, sem ég er feginn að hafi verið gerð. Eftir að lesa grein Hrafn­kels Úlfs Ragn­ars­sonar í nýjasta árgangi Byltíngs, „Fegurð sem andstæðan við bið“, er jafn­vel freist­andi að segja að sitj­andi þarna inni í bíósalnum hafi ég hreint ekkert beðið.

Í grein­inni leggur Hrafn­kell út frá orðum Khalil Gibran: „Við lifum aðeins til þess að uppgötva fegurð. Allt annað er bið í mismun­andi myndum.“ Greinin er stutt en skörp og svolítið hugrökk eins og margt sem birt­ist nú frá tilkom­andi heim­spek­ingum. Khalil Gibran þekki ég aðeins af áletr­aðri töflu sem hékk á vegg foreldra minna þegar ég var barn, með visku­molum um hjóna­bandið: Fyllið skál hvort annars en drekkið ekki úr sömu skál, og svo fram­vegis. Vinsæl spak­mæli sem hefði ekki hvarflað að mér sjálfum að gefa frek­ari gaum á árunum þegar ég reyndi að vaxa upp úr öllu.

Síðustu daga hef ég að mestu leyti verið að bíða – nema þarna í kvik­mynda­salnum. Sjálfs­gagn­rýni borg­ara­legs hunds hitti mig. Ég mæli með henni við alla þá sem sakna súrreal-komm­ún­ískra gaman­mynda og hafa beðið þess að einhver tæki upp þráð­inn frá Buñuel, Rohmer og Godard án þess að endur­taka eða afrita þá.1 Þetta er samtímamynd.

Þetta er færsla um þrjá daga, 382, 381, 380, skrifuð um miðbik þess fjórða, dags 379. Ég man ekki til þess að fyrstu tvo dagana í þess­ari runu hafi neitt markvert gerst. Tíminn líður af víta­verðu gáleysi. 21 dagur liðinn alls, af 400 – frá því að ég hóf taln­ing­una hef ég þá lokið rúmum fimm prósentum göng­unnar til móts við fertugt. Ég er engu vísari.

References
1 Reyndar sló portú­galska trílógían Þúsund og ein nótt, eftir Miguel Gomes, á sama þorsta. Eða vakti hann.