Skjár; dagur 379

12.6.2017 ~ 5 mín

Ef heið­ar­leiki annála fælist í samsvörun milli þess tíma sem athafnir taka og fjölda orðanna sem varið er til að lýsa þeim, ef sannur annáll væri sá sem ver sem næst því jafn mörgum orðum á hvert korter sólar­hrings­ins, eða í það minnsta hvert vöku­korter, þá myndi ég hér fyrst og fremst segja frá samneyti mínu við skjái.

Þegar ég sagði ekkert markvert hafa gerst daga 382 og 381 þýðir það ekki bara að ég varði miklum tíma við skjái, því það geri ég hvort eð er, heldur varði honum í neyslu efnis sem mun ekki verða mér minn­is­stætt, sem ég hef jafn­vel þegar gleymt. Ég er búinn með Rick og Morty. Ég er búinn með Bojack Horseman. Ég er búinn með Better Call Saul, Mad Men, og Fargo. Ég er búinn með ógrynni brand­ara frá Steven Colbert, búinn með þætt­ina hans Louis CK og alla brand­ar­ana hans í öllum spjall­þátt­unum. Ég er búinn með milljón statusa og hundrað þúsund tíst. Ég á líklega nokkuð inni af kattavíd­eóum en ég er löngu búinn með kett­ling­inn í hákarla­bún­ingnum á ryksuguró­bót­inum og veit síðan þá ekki hvað önnur kattavídeó geta gefið mér. Ég er búinn með þrjú gmail póst­hólf — ég meina þau eru full, ég hef þurft að skipta, er á fjórða.

Gærdag­ur­inn var frábrugð­inn því ég fór í bíó, þar sem ég sá, á stórum skjá, kvik­mynd sem verður mér líklega minn­is­stæð um hríð. Og dagur­inn í dag varð líka frábrugð­inn, því ég hjól­aði um níu kíló­metra leið, segja mér skjá­irnir, og sömu vega­lengd til baka, til að hlusta á mann tala um kvik­myndir sem hann hefur gert, sem ég hef sumar séð, og sem hafa þá orðið mér minnisstæðar.

Minn­is­stætt er ekki nákvæmt orð hérna — ég á ekki við að ég geti endi­lega endursagt eitt einasta atriði úr verk­unum, heldur að þau skilja eftir skófar í mér, breyta einhverju í mér þannig að ég sé sumt á annan veg fyrir þær en eftir þær, eða skil öðrum skiln­ingi eða langar annað en mig lang­aði áður. Aldrei svo stór­kost­lega að ég verði annar maður og óþekkj­an­legur, alltaf lymsku­lega, en áþreif­an­lega og öðru­vísi en ég hefði kannski búist við á meðan ég horfði eða beint í kjölfarið.

Ég á samskipti gegnum skjá, ég skrifa á skjá, ég les greinar og bækur af skjá, ég horfi á kvik­myndir, mynd­bönd og sjón­varps­þætti á skjá, ég les fréttir á skjá, ég óska bróður mínum til hamingju með afmælið gegnum skjá, sinni banka­við­skiptum þegar þeim er fyrir að fara, ég tefli á skjá, ræði við embætt­is­menn og stofn­anir gegnum skjá, gái á skjá hversu margir hafa lesið, á sínum skjá, það sem ég skrifa á minn skjá. Ég hunsa og fresta og bíð við skjá. Ég borða fyrir framan skjá og tek skjá með mér bæði á klósettið og í bað, ef ég læt renna í það. Skjá­unum fer fram og fyrr en varir mun ég eiga skjá sem þolir sturtu.

Að þessu leyti geta sögurnar sem við meðtökum, hvort sem er í kvik­myndum eða bókum, ekki endur­speglað veru­leik­ann, í það minnsta ekki af eind­rægni annála: við myndum aldrei setj­ast niður til að horfa á fólk horfa á skjái í átta­tíu mínútur af hverjum níutíu (til að horfa á fólk horfa á skjái til að horfa á fólk til að horfa á skjái og svo koll af kolli allt til enda veraldar). — 1

Dísa er í öðru landi og á meðan heyr­umst við, auðvitað, gegnum skjá.

Tao Lin heitir banda­rískur höfundur sem fæst mikið við skjái. Hann er nokkrum árum yngri en ég, en nógu gamall til að muna þegar æsku­heim­ili hans nettengd­ist í fyrsta sinn. Í grein sem birt­ist árið 2013, þegar hann er þrítugur, segir hann frá því hvernig foreldrum hans hafi virst hann sitja við tölv­una og gera ekki neitt, á meðan hann var í raun í óða önn að flytja inn á netið:

Nú sé ég Inter­netið stundum fyrir mér sem fljúg­andi furðu­hlut sem birt­ist eitt eftir­mið­degi í garð­inum okkar — kannski til að ferja mann­kyn eitt­hvert annað. Foreldrar mínir sáu hann fyrst, en veittu honum enga sérstaka athygli. Þau tóku ekki umsvifa­laust að flytja líf sín, eins og af eðlisávísun, um borð í FFH-inn, eins og við félagar mínir virð­umst hafa gert.

Þetta er nokkrum árum eftir að mamma varaði mig við að ég yrði að verja minni tíma við sjón­varps­tengdu en enn netlausu Sinclair Spectrum tölv­una mína, því annars hætti ég á að fá ferköntuð augu.

Ég er ekki einn á ferð, Tao Lin var ekki einn á ferð, þetta er ástand, jafn­vel sögu­skeið, tíminn þegar augu okkar allra bein­ast umfram allt að skjáum. Bráðum munum við hefja þrot­lausar samræður við alvitra, talandi (en blóm­lausa) blóma­vasa, og þá kannski beina augunum annað, en það er ekki víst að þar verði neitt að sjá nema skjái heldur — hversu lengi sem þetta varir, er ekki sjálf­gefið að utan­skjás fer allt til fjand­ans á meðan? Er ekki orðið ljóst, í það minnsta, að mamma sagði dagsatt, og við sitjum að sinni öll uppi með ferköntuð augu?

References
1 Jú, við myndum kannski gera það einu sinni, ef til vill er ein kvik­mynd ógerð, um fólk við skjái. Og reyndar (lesist sem neðan­máls­grein við neðan­máls­grein:) hefur hún kannski þegar verið gerð: ein kvik­mynd fór um hátíðir fyrir nokkrum árum, sem gerist öll innan samskipta­for­rita, í gegnum Skype-samtöl og slíkt, en ég treysti ykkur til að gúgla hana jafn vel og mér.