Ókei; dagar 385, 384 og 383

07.6.2017 ~ 3 mín

Dagur 383 er í dag, 7. júní, hafi tíma­talið ekki riðl­ast. Tíma­töl riðl­ast, einhver skekkja mun koma á daginn, en við tökumst á við hana þegar þar að kemur, skjótum að einni átta daga viku eða 24 x 23ja klukku­stunda löngum sólar­hringum eftir því sem þörf krefur (48 x 23ja og hálfs klukku­stunda; eða 96 23ja klukku­stunda og þriggja kort­era eftir því hversu lymsku­lega við viljum gera þetta).

Nú þegar fleiri klukkur eru nettengdar en ekki hlýtur bráðum að koma að því að stjórn­völd beiti hóflegri leng­ingu og stytt­ingu daga sem hagstjórn­ar­tæki. Sekúnduflýt­ingu. Þau munu tala um sveigj­an­legri mínútur, sveigj­an­legri tíma þess vegna, hefurðu eitt­hvað á móti sveigjanleika?

Það eru þá liðnir 16 dagar frá því að ég hóf niðurtaln­ingu. Fjögur prósent daganna 400 eru liðnir. Hef ég nýtt þennan tíma vel? Í mesta lagi um tíu eða tutt­ugu prósent hans, held ég. Skjótum á fimmtán. Það gefur tölu­vert svig­rúm til framleiðniaukningar.

Dag 385 leit ég á uppistand – ekki þó í fyrsta sinn, eins og ég hélt. Nei, ég sá uppistand þegar ég var fimmtán ára gamall iðnskóla­nemi. Það er löng og óþörf saga – en í einu hádeg­is­hléi tróðu upp þeir Radíus­bræður, Davíð Þór Jóns­son, nú prestur, og Steinn Ármann Magnús­son, nú hjól­reiða­áhuga­maður. Á sumri var morg­un­þáttur þeirra helsti ávinn­ingur þess að vakna snemma og mæta í vinn­una. „Það var að birt­ast könnun,“ hóf annar þeirra mál sitt, þarna í hádeg­is­hlé­inu í Iðnskól­anum, og viðstaddir byrj­uðu að flissa, því við vorum öll búin að heyra frétt­ina um þessa könnun. „Þið eruð bæði ólæs og skrif­andi idíó­tín ykkar!“ – Salur­inn sprakk. Svo fóru Davíð Þór og Steinnn Ármann með klám­vísur – eina þeirra kann ég enn, það er eina klám­vísan sem ég hef nokk­urn tíma lært. Undir fertugt finnst mér hún ekki jafn fyndin og þegar ég var fimmtán ára, en þarna er hún, ég aflæri hana varla úr þessu.

Hvað um það – ég mundi samt ekki betur, á mánu­dags­kvöld, en að ég sæti þar á mínu fyrsta uppist­andi. Og hádeg­is­hlé í skóla telst ekki heldur alveg með, þetta var í það minnsta fyrsta uppist­andskvöldið sem ég hef sótt. Lítill söfn­uður ensku­mæl­andi grín­ista, open mic á litlum bar, kannski voru grín­ist­arnir tólf, kannski með um tíu mínútur á svið­inu hver. Innflytj­enda­mengi: Pakist­ani, Tyrki, Englend­ingur, Kani, Rússi Austur-Þjóð­verji labba inn á bar … og enginn þeirra var hræðilegur.

Þetta var bara fínt. Formið á samkom­unni er alveg eins og ljóða­kvöld: bar, svið, míkró­fónn, kynnir, næstur á svið er, ekki láta fólk­inu leið­ast. Tala tala tala. Klapp og næsti. Inni­haldið er annað. Lýðræð­is­legra, jafn­vel. Uppistand getur ekki nært sömu kima hugans og perfor­merað ljóð – en það getur komið upp um ókunn­ugt fólk hvert frammi fyrir öðru, sem breyt­ist þar með úr persónum í audience. Svona eins og obláta verður að líkama Krists. Í munni grínistans.

Rétt eins og uppstign­ing­ar­dagur þarna um daginn, var þetta annars óvæntur frídagur – annar í hvíta­sunnu. Kom alveg jafn flatt upp á mig, eins og á hverju ári til þessa. Daginn eftir, á degi 384, kom ég þá loks í verk því sem ég hugð­ist gera á mánu­deg­inum: ég keypti teikni­bólur og bréfa­klemmur. Teikni­ból­urnar eru fyrir veggi, bréfa­klemm­urnar til að festa athuga­semdir á síður hand­rits. Seinni hluta dags sat ég við og gerði það, fram á kvöld, með matar­hléum og öðru: dró athuga­semdir úr potti, fann þeim stað í hand­rit­inu, festi við síðu, eina í einu. Þetta eru margar athuga­semdir, hand­ritið bólgnar með hverri bréfa­klemmu, monströs hlass á eldhús­borð­inu. Nú mun ég setj­ast við og halda þessu áfram, þar til bréfa­klemm­urnar þrýtur. Eða matinn í húsinu. Og furða mig á eigin vinnulagi.

Á.m.é.m.

Innland mælir með lesefni á ströndina:

Byltíngur. Tíma­rit heim­spek­inema við Háskóla Íslands, þriðji árgangur. Apríl 2017.