Nettengdir tómatar; dagar 378, 377, 376

15.6.2017 ~ 4 mín

Annáll­inn

Nú man ég ekkert hvað ég gerði í fyrra­dag, það var mánu­dagur, ég hlýt að hafa baðað mig í ljóma sunnu­dags­ins. Og unnið, hvað sem það þýddi. Stundum þýðir það að vaða milli vefsíða og lesa fréttir og álit, þess vegna klukku­stundum saman, á meðan ég bíð eftir að angist­inni linni, yfir að vita ekki hvar ég á að byrja. Jú og ég las nokkuð, lauk við forvitni­lega bók eftir Emily Witt.

Í gær hóf ég daginn á kaffi­húsi þar sem ég drakk svart kaffi út á klaka, það sama og ég ven mig á heima við þegar hitinn fer yfir n gráður. Þar tókst ég á við tölvu­póst­fjallið sem heima virt­ist óyfir­stíg­an­legt, og það sem eftir var dags varð mér þá meira úr verki en á mánu­deg­inum. Ég las eitt­hvað eftir Comte de Lautréamont. Subbu­frakki. Ef ekki væri fyrir Sade mætti kalla hann hinn upphaf­lega Subbu­frakka, held ég. Einhvern tíma hreifst ég af texta­brotum frá honum, og maður á að hafa lesið hann, en heil bók er of mikið fyrir mig núna, ég er ekki í skapi fyrir þetta.

Dagur­inn í dag hófst á útfyll­ingu eyðu­blaðs sem ég hafði tafið við í tvær vikur, ég þurfti að fylla það út í annað sinn vegna form­galla í fyrstu tilraun. Tilfinn­inga­næm­ari hagfræð­ingar samtím­ans vita hvað það getur kraf­ist mikils sálræns átaks að gera leið­in­lega hluti í annað sinn. Ég tók hléið mitt í garði, með flösku af ístei meðferðis, lagði subbu­greif­ann til hliðar og hóf lestur á höfund­inum sem allir eru víst að lesa einmitt núna: Yuval Noah Harari. Sapiens heitir bókin og lofar óneit­an­lega góðu. Hvenær urðu mann­skepnur að mann­eskjum? Jú, fyrir um 70 þúsund árum, þegar þær öðluð­ust tungu­mál sem dugði ekki bara til að deila upplýs­ingum um það sem er þarna úti, heldur líka til að semja mýtur um alls konar hluti sem eru einmitt ekki þarna úti, og skipu­leggja starf okkar í stærri einingum fyrir vikið. Harari notar hugtakið mýtólógíur um allt frá skóg­arg­uðum til þjóða, stór­fyr­ir­tækja, peninga, skulda og mann­rétt­inda: fyrir­bæri sem eru aðeins til að því leyti sem mann­eskjur tala um þau og hegða sér í samræmi við það.

Til að halda athygli minni á eigin skrifum — sem mér tókst þó að sinna í dag — opnaði ég lítið, snjallt app á tölv­unni minni sem heitir Tomato One. Það á að hegða sér nákvæm­lega eins og eldhús­klukka, sem maður trekkir upp til að hún hringi eftir valinn tíma og láti mann vita að senni­lega séu eggin til. Að brúka svona tæki við störf á sér nafn — Pomodoro — ítalska fyrir tómat, þar sem eldhús­klukka manns­ins sem er sagður eiga heið­ur­inn af verklag­inu, Francesco Cirillo, var í laginu eins og tómatur. Þetta er auðvitað of einfalt til að heita nokkuð, en samt er óvíst að mér hefði nokk­urn tíma dottið í hug að trekkja upp klukku og láta hana telja ofan í mig eina vinnu­lotu í einu hefði ég ekki rekist á eitt af þúsund öppum sem bjóð­ast nú til að gera einmitt það, og kall­ast öll tómat-eitt­hvað. Ég ætlaði semsagt að vinna einn tómat í einu, en í þetta sinn birt­ist örlítil auglýs­ing neðst í glugga klukk­unnar: ertu of mikið á Face­book? Við getum reddað því. Ég smellti á hlekk­inn og opnaði þannig auglýs­ingu fyrir nýtt app frá sama fyrir­tæki, sem telur hversu mörgum mínútum þú verð á samfé­lag­s­mín­útum og varar þig við að hangsa ekki of lengi — bráð­snið­ugt, best að sækja þetta, hugs­aði ég, en appið reynd­ist kosta tíu doll­ara og þá gerði ég mér grein fyrir að tóma­ta­klukkan sem hafði átt að halda mér við efnið hafði nú þegar afvega­leitt mig í eina inter­net­hol­una enn — ég lokaði henni og vann þar eftir tómatslaust.

Tilfellið var auðvitað að ég varði tölu­verðum tíma á Face­book í dag og daginn þar áður og daginn þar áður, sem ég hefði líklega betur varið í annað. Ég ætlaði tómatnum einmitt að skammta mér 25 mínútna face­book-lausar vinnu­lotur … Líklega er einföld, mekan­ísk, ónettengd og auglýs­inga­laus elda­vél­ar­klukka áreið­an­legri, ef maður kærir sig yfir­leitt um svona hjálpartæki.


„Allt þetta til að koma mér að efninu:“ – skrif­aði ég svo og kom mér að efninu, í helst til mörgum orðum. Til að þvæl­ast ekki óþarf­lega fyrir þeim sem kæra sig kannski um efnið en aðdrag­and­ann ekki varð seinni hlut­inn að sér færslu: Byssó.