Með geim­skip í vasanum; dagur 386

05.6.2017 ~ 1 mín

Ef ég sit kyrr og geri ekki neitt, gerist þó, flesta daga, fyrr eða síðar eitt­hvað. Ég meina heima hjá mér. Ef ég sit kyrr og geri ekki neitt birt­ist önnur mann­eskja, og deilir einhverju með mér, oftast innan kort­ers. En þessa dagana er því farið hinsegin: ef ég sit kyrr og geri ekki neitt gerist ekki neitt. Dísa er með öðrum orðum á ferða­lagi. Að vera heima verður á meðan svolítið eins og að vera á tungl­inu, að því er myndupp­tökur þaðan gefa til kynna: tiltölu­lega þyngd­ar­laust, frið­sam­legt, þögult og drep­leið­in­legt ef ekki væri fyrir fjar­skipta­sam­band við aðra hnetti.

Inter­netið og það allt er aðferð til að líða eins og við búum á ótal fjar­lægum hnöttum, eins og það sé svo langt á milli okkar að við þurfum að brúa bilið gegnum skjái og radar­merki, þó að við séum hér öll meira og minna í einni kös. Þannig rætt­ist fram­tíðin að hálfu leyti: okkur tókst enn ekki að byggja aðra hnetti, en samskipti okkar eru þó orðin full­kom­lega háð rafrænum merkjasendingum.