Vina­legi liðþjálf­inn í lýðveldi atvik­anna; dagur 389

02.6.2017 ~ 5 mín

Í gær hélt Dísa héðan úr borg­inni þar sem AirBnB er bannað, til að fólk geti áreið­an­lega búið einhvers staðar, yfir í landið sem segist vera komið út úr kreppu þó að heima­menn vinni við að þjóna erlendum gestum og rými heim­ili sín á sumrin til að gest­irnir með góða láns­hæf­is­matið geti hafst þar við. Ég fór í fimm sjoppur upp úr hádegi, í leit að fidget spinners fyrir þrjár litlar frænkur og einn frænda — ef þú veist ekki hvað fidget spinner er muntu víst vita það áður en sumarið er úti, þetta er svokallað æði.

Dísa, aftur á móti, fór í einhverjar allt aðrar búðir og kom heim með pakka til mín, forvirka afmæl­is­gjöf: 50 ára afmæl­isút­gáfu plöt­unnar Sgt. Pepp­ers Lonely Hearts Club Band. Þú veist hvaða plata þetta er, vegna þess að þú ert í heim­inum og tilheyrir sögu­skeiði. Hún kom út á þessum degi fyrir 50 árum síðan, á vínyl, auðvitað — í mónó. Samtímis kom út steríó-útgáfa en sú var víst hljóð­blönduð á þremur dögum, án þátt­töku hljóm­sveit­ar­með­limanna: öll alúðin fór í mónó-útgáf­una. Það er hins vegar steríó-útgáfan sem var endurút­gefin á geisladiski árið 1987 og hefur verið í umferð síðan, þar til nú, að Giles Martin, sonur upptöku­stjór­ans George Martin, hljóð­bland­aði nýja steríó-útgáfu úr uppruna­legu tökunum, og vand­aði sig við hana. Munur­inn er svolítið mikill, þú heyrir hann þó að þú sért annars hvorki hljóð- né græjunörd: allar raddir eru í meiri grennd við þig í nýju útgáf­unni, og hljóðrás­irnar sund­ur­grein­an­legri: þú hefur ekki heyrt hörpu­leik­inn í She’s Leaving Home fyrr en þú heyrir nýju útgáf­una, ekki klar­in­ettið í When I’m Sixty Four, eða hvað Paul er viðkunn­an­legur ungur maður og hvað hann kann vel við þig. Þetta er með öðrum orðum svolítið eins og að heyra nýja plötu.

Þetta hefurðu kannski þegar lesið annars staðar, aðdá­endur og tónlist­ar­unn­endur virð­ast sammála: nýja útgáfan er ekki gimmikk, heldur luku þeir loks­ins almenni­lega við steríó-útgáfu plötunnar.

Ég fædd­ist rúmum áratug eftir að platan kom fyrst út, heyrði hana tæpum áratug eftir það, og ferð­að­ist eftir það út úr bernsk­unni inn í unglings­árin með hana í eyrunum, sann­færður um að hún væri mitt einka­mál, allir aðrir héldu að Metallica væri tónlist, ég einn vissi betur. Þessi ár sem ég hlustaði á plöt­una aftur og aftur og aftur stóð ég fyrir utan ensku, tungu­mál sem ég var að læra, og utan við tilveru full­orð­inna. Tónlistin var galdur, svo viðfangs­efnin hlutu að vera það líka: fyrst hin indæla Rita var meter maid hlaut meter maid að vera eitt­hvað stór­kost­legt. Og þetta gat sem maður­inn er að gera við, hvílíkt gat, það hlýtur að vera gatið á heim­inum, í fólk­inu, það hlýtur að vera frum­speki­legt gat. Ég er viss um að orðið frum­speki var mér ekki tamt, en óháð orða­forða eru börn ekki alveg laus við frum­speki­legar grunsemdir.

Í gær hlustaði ég á plöt­una frá upphafi til enda í fyrsta sinn í mörg, mörg ár. Og áttaði mig í fyrsta sinn á því að viðfangs­efni hvers einasta texta á plöt­unni er ofur-hvers­dags­legt. Það er gott að eiga vini. Stundum þarf maður að gera við þakið, en annars er indælt að sinna garð­inum, það er ýmis­legt í frétt­unum, sirkus í bænum, hva, er hún farin að heiman!? — hey, sætur stöðu­mæla­vörður! — og hljóm­sveit húss­ins spilar áfram þar sem henni er tamt. Sama á við um lögin tvö sem voru tekin upp í sömu sessjónum en rötuðu á aðra plötu: fólk væfl­ast um á Penny Lane á meðan börnin fást við frum­speki­legar grun­semdir úti á Straw­berry Fields. Undan­tekn­ingin sem sannar regl­una er Within You Without You, George Harri­son-lag plöt­unnar, verald­leg dulspeki sem dregur saman mynd­irnar úr hinum lögunum í lykil­hug­mynd: þetta líf sem er inni í þér er líka óháð þér og heldur velli án þín. Öll ég heims­ins, öll aðal­at­riði heims­ins, eru aukaatriði.

Ef marka má frásagnir af sýrutrippum, góðum sýrutrippum, það er, frekar en þessum skelfi­legu, blasir við hvernig þessi plata er innblásin af töfra­lyf­inu: hér er það hinn hvers­dags­leg­asti hvers­dagur, tíman­legir tebollar og áform um að spara fyrir sumar­frí­inu, sem eru slegin töfrum, hvert og eitt þeirra ekki bara athygli­verð heldur sérdeilis áhuga­verð fagn­að­ar­efni. Það sem var miðlægt í rokko­gról­inu, strákar að hríf­ast af stelpum og öfugt, birt­ist sem díteill í degi: Watching the skirts you start to flirt // Now you’re in gear // Go to a show // You hope she goes // I’ve got nothing to say but It’s okay.

Í míní­a­túr einhvers staðar á milli James Joyce (Lennon-nafnið er upphaf­lega írskt) og William Carlos Williams (eða í grennd við Mary Popp­ins?), birt­ast textar plöt­unnar þannig í heild sem einhvers konar lýðræð­is­ríki atvik­anna: bílslys í fréttum og daður í tilefni pilsa hefur nákvæm­lega sama vægi og hest­ur­inn Henry sem dansar vals í sirkusnum.

Lýðræð­is­ríki atvik­anna er ein hugmynd um Para­dís. Það er ekki furða að Bítl­arnir hafi sund­urlið­ast eftir að setja þetta saman — Adam var ekki lengi þú veist hvar. Raun­veru­leikaprinsippið kikkar inn, nokkrum árum seinna syngur Lennon um Cold Turkey, the dream is over, og þó að glað­værðin lifi áfram í verkum McCart­neys er hún of trega­laus til að taka hana trúan­lega. Í lýðveldi atvik­anna er treg­inn til, þó að hann sé undir værukærð­ina settur.

Hitt sem kemur mér á óvart við fyrstu hlustun á nýju útgáf­una er hvað Sgt. Pepp­ers er, eftir á að hyggja, einföld plata. Hún er stutt, tólf lög, þó að eitt sé leikið tvisvar. Hljóma­gangur þeirra er einfaldur, meira eða minna, og helst að hann komi á óvart, eða bregði á leik, í brúm á milli kafla. Útsetn­ing­arnar eru einfaldar líka, hljóð­heim­ur­inn er samsettur úr fáum þáttum, umhverf­is­hljóðin sem einkenna plöt­una eru þegar allt kemur til alls fá: gestakliður, hanagal. Eitt­hvað fleira? Að hljóm­sveitin hafi tekið þessa plötu eins og hinar upp á fjög­urra rása upptöku­tæki, er alls ekki ótrú­legt. Eftir á að hyggja.

En hvílík vinsemd. Hvílíkur auður. Hvílíkur mögu­leiki, þetta lýðveldi þeirra. Til hamingju með afmælið, heiðr­aði liðþjálfi.