Lexíur Viggós

12.6.2017 ~ 5 mín

Gaston Lagaffe heitir hann á frum­mál­inu, æsku­vinur minn, Viggó viðutan. Höfundur: Belg­inn André Franquin, sem skap­aði víst ekki Sval og Val eins og ég hélt, en teikn­aði sumar allra bestu bækurnar um þá. Á lista Le Monde yfir 100 minn­is­stæð­ustu bækur 20. aldar, í kjöl­farið á Camus og Proust, Kafka, Beckett, Orwell og Freud, Faul­kner, Joyce og Fitz­ger­ald, Foucault og Woolf og Arendt, Bulga­kov og Chandler, stendur hann knar­reistur í 98. sæti: Viggó viðutan.

Viggó er andhetja. Í samtíma okkar, sem þvert á allar spár um fjöl­hyggju inter­nets­ins virð­ist banda­rísk­ari og eins­leit­ari með hverjum deginum, liggur beint við að kalla hann lúser. Trump ætti varla annað orð yfir hann. Ritstjórn­ar­skrif­stofan þar sem hann starfar er þunga­miðja allra frásagna af Viggó, flestar ræmurnar gerast þar inni. Hann hlýtur að vera í láglauna­starfi, því að þrátt fyrir að engum sé ljóst hvert hlut­verk hans er, hvaða gagn hann gerir, virð­ist ekki heldur knýj­andi að reka hann. Hann er kómísk fígúra vegna þess að sjálfur lítur hann sig allt öðrum augum en umhverfi hans gerir: orðspor hans truflar hann ekki, tjónið og raskið sem hann veldur allt í kring virð­ist ekki valda Viggó áhyggjum svo lengi sem honum tekst þrátt fyrir allt að steikja pönnu­kök­urnar sínar. Hann er hedón­isti, bóhem án list­rænna tilburða eða metn­aðar til annars en gleði­ríkra daga, og ef hann er siðblindur er það fyrir vikið sakleys­is­leg siðblinda, siðblinda heim­iliskattar frekar en skæð­ara rándýrs.

En siðblinda er áreið­an­lega ekki rétta orðið, vegna þess að Viggó er gæða­blóð og vill öllum í kringum sig vel, þó að hann eigi það til að stríða vakt­haf­andi lögreglu­manni og skemma fyrir fundum með fjár­festum – óvart, alltaf af gáleysi frekar en ásetn­ingi. Ásetn­ingur hans snýst bara allur um aðra hluti.

Líklega hefur hvorki fyrr né síðar birst starfs­maður á bók sem er jafn full­kom­lega sama um til hvers er ætlast af honum, hvað fyrir­tækið sem réði hann gerir, hvað fyrir­tæki yfir­leitt er, hvernig skrif­stofu­störf eiga að ganga fyrir sig. Hann kann ekki mannasiði – og víturnar sem hann fær þegar aðrir reka sig á það hrófla ekki við honum. Hann er dýrlingur að því leyti sem hann færir gleði þangað sem hún annars þrif­ist ekki, og gengur full­kom­lega ósnort­inn gegnum allar tilraunir annarra til að siða hann til, kenna honum. Lesendur fá fyrir vikið ekki hrist af sér þann (ó)þægilega grun, hvenær sem Viggó stendur einn gegn veröld­inni, að það sé hann sem hafi rétt fyrir sér, en heim­ur­inn, tíminn, sé úr lið.

Hinn óvænti sendi­herra Para­dísar á ritstjórn­ar­skrif­stof­unni. Þú getur ekki rekið hann frekar en kettina.

Á síðustu árum hefur línan „I would prefer not to“ orðið eins konar slag­orð, eða catch-phrase, í grínaktugri deildum akademíska vinst­ris­ins. Línan er fengin úr smásög­unni Bart­leby, the Scri­vener: A Story of Wall-Street eftir Melville, þar sem hún er viðkvæði nýráð­ins skrif­stofu­starfs­manns hvenær sem yfir­maður hans biður hann um eitt­hvað. – Mynd­irðu líta yfir þessi skjöl með mér? – Ég myndi heldur kjósa að gera það ekki. – Nenn­irðu að líta út á póst­hús fyrir mig. – Ég myndi heldur kjósa að gera það ekki. – Segðu mér hvar þú ert fæddur. – Ég myndi heldur kjósa að gera það ekki. – Jæja, ég er hræddur um að þú verðir að fara. – Ég myndi heldur kjósa að gera það ekki. Ef mér skjátl­ast ekki var það Slavoj Žižek sem kom þessu viðkvæði í umferð með því að stinga upp á afstöðu Bart­le­bys sem viðmiði fyrir andófs­hreyf­ingar í samtímanum.

Hugmyndin er að minnsta kosti fyndin – og náði semsagt einhverri útbreiðslu. En er ekki Viggó viðutan einmitt mýkra, geðs­legra og gleði­rík­ara tilbrigði við sama stef? Út frá öllum rekstr­ar­for­sendum kemur hann að nákvæm­lega jafn litlu gagni og Bart­leby, um leið og það virð­ist jafn full­kom­lega ómögu­legt að losna við hann. Sjálfur er hann aftur á móti, ólíkt Bart­leby, ekki með hugann við það sem hann vill helst ekki gera, heldur hitt sem hann kýs heldur að fást við – pönnu­kökur, hengi­rúm, kött, máv, heima­smíð­aðan kola­bíl, skutlu­gerð­ar­vél, efna­fræðitilraunir, kaffi­drykkju, viggó­fón­inn og vini sína. Life-affir­mative, gætu skap­mildir Nietzsche-lesendur sagt á góðum degi. Á meðan Bart­leby virð­ist svo gott sem dauður í lifanda lífi, og veitir mótspyrnu í sama anda og hurða­stopp­ari, er Viggó lífið sjálft, og kemur í hverju spori upp um dauð­ans ofboðið allt í kringum sig.

Ólíkt Bart­leby á Viggó það til að gera eins og honum er sagt – en úr verður aldrei það sem átt var við. Fylgi hann fyrir­mælum bókstaf­lega er ekki séns að hann lesi allt hið ósagða eins og til er ætlast, saman­ber meðfylgj­andi ræmu, þar sem Valur biður Viggó að hætta að draga lapp­irnar svona …

Viggó

Þetta hvarfl­aði að mér þegar ég sá enn einu sinni mynd af Jeremy Corbyn að hagræða slaufu um háls­inn á sér – hún minnti mig á eitthvað.

Svo sló það mig: fyrsta myndin sem birt­ist af Viggó, þegar hann stígur inn á ritstjórn­ar­skrif­stofu útgef­anda Svals og Vals í Frakklandi.

Viggó

Í næsta hefti yfir­heyrir Svalur hann:

Svalur og Viggó

– Hver ertu?
– Viggó.
– Hvað ertu að gera hérna?
– Bíða.
– Eftir hverju?
– Veit ekki, ég er að bíða …
– Hver sendi þig?
– Mér var sagt að koma.
– Hver gerði það?
– Veit það ekki.
– Að koma og gera hvað?
– Vinna.
– Vinna hvernig?
– Veit ekki … ég var ráðinn.
– Og þú ert viss um að þú eigir að vera hér?
– Beh …

Hið sjálf­bæra andóf. Það veit ekki til hvers er ætlast af sér, kann ekki mannasiði og getur ekki svarað spurn­ingum af neinu viti – en því finnst hreint ekki slæmt að vera til. Ólíkt Bart­leby kann það ótal setn­ingar og aðferðir til að yppta öxlum frammi fyrir dauð­ans angist annarra yfir deadlænum heims­ins. Og það neitar að fara.