Hundrað þúsund árum eldri; dagur 383

07.6.2017 ~ 2 mín

Stærsta frétt dags­ins er ekki sú að James Comey segir opin­ber­lega og eiðsvar­inn frá hinum mafíska stjórn­un­ar­stíl Trump, heldur að við erum 100 þúsund árum eldri en við héldum að við værum þar til í gær. Uppgröftur í Marokkó. Manna­bein. Fólk af okkar tegund, Homo Sapiens, með andlit eins og við — þó ílengra heilabú, segja þeir — en þetta erum samt við, 100 þúsund árum áður en við vissum síðast af okkur. Sem var fyrir tæpum 200 þúsund árum, allt annars staðar og sunnar í Afríku. Marokkó, það er bara steinsnar frá Spáni. Það liggur beint við að líta svo á að synda­fallið, skrefið úr aldingarð­inum, hafi legið yfir Gíbralt­ar­sund, frá Afríku til Evrópu.

Hundrað þúsund árum eldri en við héldum — það eru um 3.000 kynslóðir. Alls erum við þá, að því er við best vitum, um 10.000 kynslóða gömul. Frá gamla testa­ment­inu til okkar eru rétt um 100 kynslóðir. 170 kynslóðir frá því að ritmál var fundið upp í Mesópóta­míu. Sem er ekki neitt. Með falskri nákvæmni getum við sagt að mann­eskjur hafi eigrað um, getið börn og kennt þeim að eigra um, þannig koll af kolli, um alls 9.830 kynslóða skeið, áður en nokkrum datt í hug að skrifa hjá sér neitt af því sem gerðist.

Engin minn­is­blöð, bara orðrómur og aðdrótt­anir. Mafískir stjórnunarhættir.

Auðvitað er senni­legra að synda­fallið sé saga af tilurð ritmáls­ins en ferða­saga: við lærðum ekki að skamm­ast okkar fyrr en við fórum að skrifa þessi ósköp niður.

Kannski er ritmálið fyrst og fremst til marks um vaxandi nars­iss­isma mann­kyns — nei, það er ekki nóg að við segjum börn­unum okkar frá þessu, þú veist að þau fara alltaf vitlaust með, börnin þeirra verða að heyra þetta líka, og börnin þeirra og langn­iðjar okkar allir — nú er talað um faraldur vegna samfé­lags­miðla, en teygir vand­inn sig ekki tölu­vert lengra aftur?

Kannski datt þrátt fyrir allt fjölda fólks þetta í hug gegnum tíðina en hafði vit á að þegja yfir því — eða aðrir höfðu vit á að þagga niður í viðkom­andi. Ganga í málið. Þegar skellur loks­ins á með ritmáli er ekki auðveld­lega aftur snúið.

Hundrað þúsund árum eldri. Hér sit ég og tel niður í fertugt. Átta kynslóðum eftir sjálf­stæð­is­yf­ir­lýs­ingu Bandaríkjanna.


Mér lánað­ist að starfa í dag. Af þeim 120 bréfa­klemmum sem pakkn­ingin frá því í gær er sögð hafa inni­haldið liggja tvær eftir ónýttar. Fleira er ekki um daginn að segja.