Um orð án hirðis

06.6.2017 ~ 5 mín

Fyrir rétt um viku síðan, 29. maí, birt­ist á vef RÚV frétt undir fyrirsögninni:

Fylgd­ar­laus börn hryðju­verka­menn framtíðar

„Fylgd­ar­laus börn hryðju­verka­menn fram­tíðar“ er ekki stað­hæf­ing um stað­reynd, heldur getgátur um óorðna tíð, alfarið á kostnað barna í viðkvæmri stöðu. Orðin eru sögð upprunnin í máli fram­kvæmda­stjóra Evrópu­ráðs­ins, sem þó birt­ast aðeins í endur­sögn frétta­manns í texta frétt­ar­innar, ekki sem bein tilvitnun. Frétta­stofa ber alla ábyrgð á fyrirsögninni.

Þetta er um sama leyti og tekist er á um brott­send­ingu 16 ára afgansks pilts frá land­inu. Fyrir­sögn­inni var breytt, eftir að RÚV bárust ábend­ingar um að hún væri hæpin. Nú stendur í hennar stað: „Erfið­ara en áður að sameina fjöl­skyldur“, sem virð­ist nær inntaki frétt­ar­innar. Það er gott og þar með væri málinu lokið, ef við Schengen-búar værum hætt að drekkja börnum í Miðjarðarhafi.

En við erum hvergi af baki dottin. Jórunn Edda vakti athygli á orða­lagi fréttar um nasist­ana sem hafa nú safnað pening, andvirði nokkk­urra millj­óna króna, til að hindra björg­un­ar­starf á Miðjarð­ar­hafi. Í fyrstu setn­ingu íslensku frétt­ar­innar segir:

Hreyf­ing róttækra hægri-aðgerðarsinna …

Eins og fram kemur í frétt­inni hefur þessi hreyf­ing safnað pening til að myrða stóra hópa fólks í þágu póli­tísks mark­miðs. Þeir eru ekki bara að áforma mann­skæð hryðju­verk fyrir opnum tjöldum heldur hrinda þeim í fram­kvæmd. Ætlar RÚV í raun og veru að eftir­láta slíkum hópi orðin til að lýsa honum og kalla meðlimi hans aðgerðasinna?

Hreyf­ingin sem hér um ræðir kallar sig Ídentitera – sjálfs­mynd­arsinna, gætu árvök­ul­ustu varð­hundar móður­máls­ins kannski þýtt það, en orða­valið er napurt háð frá upphafi, af þeim toga sem hryðju­verka­mað­ur­inn Brei­vik lagði til sem strategíu í leið­ar­vís­inum sem hann gaf út samhliða fjölda­morð­inu í júlí 2011: að nota málfar vinst­ris­ins gegn vinstr­inu, snúa orðfæri mann­rétt­inda­bar­áttu gegn mann­rétt­indum, tala um mikil­vægi þess að varð­veita tilvist „frum­byggja í Evrópu“ með sömu orðum og beitt hefur verið til að verja rétt minni­hluta­hópa síðustu áratugi, og svo framvegis.

Frammi fyrir hreyf­ingu sem lítur á tungu­málið sem vett­vang hern­aðar og leggur sig vísvit­andi fram um að rústa inntaki orða sem öðrum eru mikil­væg, meðal annars til að standa gegn einmitt þess háttar hreyf­ingu, er ekkert hlut­laust orða­val til. Nasistar köll­uðu sjálfa sig aldrei nasista, það orð er uppnefni sem andstæð­ingar þeirra gáfu þeim. Nasjónal-sósí­al­ismi hljómar jafn virðu­lega á erlendum málum og þjóð­ern­is­fé­lags­hyggja gerir á íslensku. Á Íslandi köll­uðu brúnstakk­arnir sig fána­liða. Hver sem notar um þetta lið orðin sem það velur sér sjálft gefur þeim þar með eitt­hvað, veitir þeim ákveðið lögmæti. Að nánast altæk samstaða hafi ríkt frá lokum seinni heims­styrj­aldar um að kalla nasista nasista er viðstöðu­laus, sameig­in­leg yfir­lýs­ing allra annarra um hvað er og verður boðlegt í stjórn­málum: hægri­menn geta kallað sig frjáls­hyggju­menn, vinstri­menn sagst aðhyll­ast samræð­u­stjórn­mál og Fram­sókn­ar­menn skyn­sem­is­hyggju, þess vegna, en nasistar fá ekki að ráða hvað þeir eru kall­aðir. Hversu oft sem þeir skipta um blað og skaft á öxinni skal hún liggja grafin.

Hreyf­ing um rasísk fjölda­morð á ekkert sameig­in­legt með nátt­úru­vernd­ar­sinnum sem klifra upp í möstur og hengja þar upp borða. Að kalla nasist­ana aðgerða­sinna er að gefast upp fyrir þeim, þá verða kosn­ingar bara forms­at­riði, þeir eiga þegar sæti í næstu ríkisstjórn.

Antifa á Austurvelli

Antifa í Reykjavík

Þó að þessi fyrstu orð frétt­ar­innar séu áþreif­an­leg­asta og alvar­leg­asta dæmið er allur text­inn sem á eftir fer til marks um lífs­hættu­legt meðvit­und­ar­leysi um hvað er í húfi. Orðfærið er allt eins og rætt sé um hvert annað forvitni­legt frum­kvöðl­astarf sprækra krakka á Karólína-fund. Svona er fyrsta para­grafið í heilu lagi:

Hreyf­ing róttækra hægri-aðgerð­arsinna hefur sett í gang herferð sem miðar að því að hindra ferðir flótta­manna frá Afríku yfir Miðjarð­ar­hafið í sumar. Til stendur að trufla skip björg­un­ar­sam­taka sem reyna að bjarga fólk­inu frá drukknun.

Prófið að gúgla orða­lagið sem miðar að því að eða til stendur að og sjáið í hvaða samhengi þessum orðaleppum er alla­jafna beitt. „Til stendur að leggja ferða­manna­veg meðfram strand­lengj­unni á Norð­ur­landi“, „Til stendur að halda í fyrsta skipti Reykja­vík Fringe Festi­val 21. til 24. sept­em­ber næst­kom­andi“, „Til stendur að opna þjón­ustumið­stöð fyrir þolendur ofbeldis“. Þess háttar stendur til. Ekki rasísk fjölda­morð. Ódæð­is­menn leggja á ráðin um þau. Hryðju­verka­hópar tilkynna áform um þau. Það stendur ekki til að fremja þau.

Samtökin hafa á undan­förnum þremur vikum safnað andvirði rúmlega sjö millj­óna íslenskra króna, sem er vel umfram þau markmið sem þau settu sér.

Sko, þetta fer bara allt fram úr björt­ustu vonum! Og kannski ekki furða, í ljósi þess að:

Í síðasta mánuði reyndi leigði hópur öfga­hægrimanna í Frakklandi bát og fór í það sem hreyf­ingin kall­aði tilrauna­sigl­ingu. Tals­maður þeirra segir að bátnum hafi gengið mjög vel að trufla björg­un­ar­að­gerðir, þar til ítalska strand­gæslan hafi skorist í leikinn.

– Á síðustu öld opnaði einmitt hópur öfga­hægrimanna í Þýskalandi það sem hreyf­ingin kall­aði tilrauna­út­rým­ing­ar­búðir. Tals­maður þeirra segir að búðunum hafi gengið mjög vel … Ef ég vissi ekki betur, ef frétta­mað­ur­inn að baki þessum texta virt­ist ekki að öðru leyti heið­virður og vand­virkur fagmaður, mætti ætla að fréttin væri skrifuð af liðs­manni samtak­anna, í málgagn þeirra. Loka­orð frétta­text­ans tækju loks af allan vafa:

Einn aðgerða­sinna segir í mynd­bandi tengdu herferð­inni að þessar aðgerðir séu nauð­syn­legar til að þess að elta uppi óvini Evrópu.

Ef við drögum saman upphaf og endi frétt­ar­innar hljómar hún á þessa leið: „Hreyf­ing róttækra hægri-aðgerða­sinna … elta uppi óvini Evrópu.“

Um er að ræða fyrir­ætlanir um skæru­hernað sem bein­ist að saklausum fórn­ar­lömbum, eingöngu, í þágu fasískra mark­miða, eingöngu. Hvorki stjórn­völd né almenn­ingur geta setið viðbragðs­laust hjá á meðan storm­sveitir safna liði fyrir opnum tjöldum til að ráðast gegn björg­un­ar­að­gerðum á hafi úti. Þannig er þetta frétt um skref í átt að borg­ara­styrj­öld. En hern­að­ur­inn hefst ekki úti á sjó. Hann hefst í tungu­mál­inu. Nasist­arnir vita alveg hvað þeir eru að gera. Blaða­menn verða að vita það líka.


Myndirnar sem fylgja færslunni eru frá mótmælasamkomum íslenskra andfasista á millistríðsárunum. Fáninn á myndunum, þessar þrjár örvar á svörtum grunni, er enn í dag alþjóðlegt merki Antifa-hreyfingarinnar.

Mynd­irnar sem fylgja færsl­unni eru frá mótmæla­sam­komum íslenskra andfas­ista á mill­i­stríðs­ár­unum. Fáninn á mynd­unum, þessar þrjár örvar á svörtum grunni, er enn í dag alþjóð­legt merki Antifa-hreyf­ing­ar­innar. Á þessum tíma marser­uðu nasistar – fána­liðar – um götur Reykja­víkur. Fáninn sem mætti þeim er okkur hinum áminn­ing og eggjun: Ekki flýja þegar þú sérð úlfinn koma.