Byssó

15.6.2017 ~ 12 mín

Hvað sem líður kostum og göllum samfé­lags­miðla og athygl­is­brestifar­aldr­inum sem nú geisar er Face­book engu að síður líka lýðræð­is­legur vett­vangur, stundum eitt­hvað í ætt við agor­una, torgið eða almanna­rýmið sem var nýtt til opinna funda­halda í Aþenu til forna — sem mætti hugs­an­lega allt eins kenna við Alþingi land­náms­aldar (og agorafóbía væri þá þingfælni .…).

Þessa dagana fer þar fram eina alvöru umræðan sem ég hef séð um byssu­leiki lögregl­unnar. Upplýs­ingar birt­ast auðvitað víðar, en þær koma saman á Face­book, þar opnast mögu­leik­inn á rökræðu. Valur Antons­son skrif­aði góða grein sem hann birti beint á miðl­inum sjálfum, þar sem hann ber saman útbreidda virð­ingu fyrir lögspeki í Banda­ríkj­unum, annars vegar, og kröfu íslenskra yfir­valda um kóma meðal almenn­ings, hins vegar. Benja­mín Julian uppfærði og endur­birti yfir­lit sitt yfir sögu lögregl­unnar á Íslandi sem sögu átaka við almenn­ing, einkum mótmæla­hreyf­ingar. Í því samhengi er líka vert að benda á lykil­heim­ild og frum­rann­sókn á svið­inu, loka­rit­gerð Krist­ínar Svövu Tómas­dóttur í sagn­fræði um sama efni. Mikil­vægir punktar birt­ast líka í styttri athuga­semdum — Jórunn Edda átti fyrsta innleggið sem ég sá um hvernig búast megi við að lögreglan verði búin skot­vopnum á mótmæla­sam­komum héðan af, fyrst hún mætir þannig búin á fjöl­skyldu­skemmt­anir, og að hugs­an­lega sé það einmitt megin­markmið breytingarinnar.

Um leið, hins vegar, les ég frétt á Eyjunni sem hefst á orðunum: „Umræðan um vopna­burð lögreglu ætlar engan endi að taka …“ — og tíst frá Hall­grími Helga­syni: „Face­book orðin óopn­an­leg v. vopnaum­ræðu. Kannski óþarfa hystería yfir vopna­burði lögreglu. Ekki þarf nema 1 slæmt tilvik og þá mun hún þagna“. Að Eyjan sé hlynnt­ari kóma­væð­ingu en gagn­rýnni umræðu kemur ekki á óvart. Að höfundur Hnef­ans á húdd­inu taki nú í sama streng er óvænt­ara, ógnvæn­legra og styður heldur óþægi­lega þann skiln­ing Vals Brynj­ars í fyrr­nefndri grein að óbeit og/eða áhuga­leysi á gagn­rýn­inni umræðu um meðferð valds liggi ekki aðeins meðal þeirra sem hafa beinna hags­muna að gæta í doðanum heldur sé land­læg.1

Lúðvík

Og þá hvarfl­aði að mér tvennt um tungu­mál. Í fyrsta lagi Witt­genstein. Eiríkur Örn uppfærði í Órator­reki íslenska þýðingu hugtaks­ins Sprach­spiele, eða language games, sem mála­leiki. Hugtakið birt­ist fyrst á prenti í bókinni Heim­speki­legar rann­sóknir, sem enn er óþýdd. Grund­vall­ar­hug­myndin að baki hugtak­inu er að skoða tungu­mál ekki eingöngu sem orða­forða eða málfræði og ekki eingöngu sem vett­vang eða burð­ar­dýr full­yrð­inga, eins og Witt­genstein hafði sjálfur gert á fyrri hluta ferils síns, heldur vett­vang ótal ólíkra leikja, þar sem sömu orð geta gegnt mjög ólíkum hlut­verkum eftir því hvaða leik þátt­tak­endur eru að stunda. Í athugun nr. 23 tekur Witt­genstein nokkur dæmi um mögu­lega mála­leiki, hér gróf­lega þýdd:

Að gefa skip­anir og gegna þeim –
að lýsa hlut út frá útliti hans eða mælingum –
að ímynda sér hlut út frá lýsingu (teikn­ingu) –
að flytja frétt af atburði –
að velta vöngum yfir atburðinum –
að mynda og sann­reyna tilgátu –
að birta niður­stöður tilraunar í töflu og skýringarmyndum –
að semja sögu og að lesa sögu –
að leika í leikriti –
að syngja hópsöng –
að ráða gátu –
að segja brandara –
að ráða dæmi í reiknilist –
að þýða úr einu tungu­máli í annað –
að fara einhvers á leit –
þakka, bölva, heilsa, biðja bæn.

Í þess­ari upptaln­ingu er í það minnsta eitt dæmi um leik sem er nýr á íslensku: að leika leik­rit. Íslensk leik­hús­hefð er ung, þar til á nítj­ándu öld var enginn slíkur leikur stund­aður á land­inu. Líklega á það sama við um að mynda og sann­reyna tilgátur, að birta niður­stöður tilraunar, jafn­vel að segja brand­ara — gaman­saga er annað fyrir­bæri, annar leikur. Aðrir leikir eiga sér lengri hefð í tung­unni en hafa mætt útrým­ing­ar­her­ferðum. Þannig var með húsaga­til­skipun 18. aldar ekki aðeins reynt að útrýma dans og söng í land­inu, sem tókst að veru­legu leyti, heldur líka frétta­flutn­ingi, sem yfir­völd litu horn­auga, ásamt amor­svísum, skemmti­sögum og svo framvegis.

Með öðrum orðum er það sögu­legt og breyti­legt hvaða mála­leikir eru til innan tiltek­ins tungu­máls á tilteknum tíma. Það er háð mörgum þáttum en einn af þeim er póli­tískar ákvarð­anir. Hugs­an­lega væri gagn­legt að eiga orð yfir þessa stöðu — með þeim fyrir­vara þó að allt tal um, segjum, vist­kerfi mála­leikja, myndi óhjá­kvæmi­lega vera byggt á ófull­nægj­andi gögnum: skráin er hvergi til, upptaln­ing mun aldrei duga, sama hvað þú telur marga leiki eru þeir áreið­an­lega alltaf einum fleiri og munu hafa tekið breyt­ingum óðar en þú lítur við, ef ekki á morgun þá á næsta ári.

Mála­leikir er bráðnauð­syn­legt hugtak, meðal annars til að skilja hvers vegna slettur — sem við eigum annars bara þetta ljóta orð yfir — eru svona mikil­vægar: það skiptir engu máli hvers oft þú heldur því fram að orðið flat­baka hafi sömu merk­ingu og orðið pítsa, það hefur ekki orðið hluti af sama leik, eða sömu leikjum — það er sitt hvor leik­ur­inn að baka pítsu og að panta hana (eða tala um pítsuna sem maður bakaði / sem maður pant­aði). Þetta er líklega enn skýr­ara þegar kemur að orðum sem hafa virkni frekar en merk­ingu, á við ókei.

Heim­speki er einn málleikur, og þó líklega frekar mengi fjölda málleikja, sem var, líkt og það að leika leik­rit, ekki til á íslensku þar til tiltölu­lega nýverið. Suma þess­ara leikja er að einhverju marki hægt að flytja inn með þýðingum en fjölda þeirra er ekki hægt að stunda af neinu viti nema með beinu smiti — til að leika leik­rit er ekki nóg að þýða Shakespeare, og þó að heim­speki liggi miklu nær hinu ritaða orði sprettur leik­ur­inn ekki heldur af því einu að þýða Kant. Það var engin leið að flytja þessa leiki inn nema gegnum fólk sem sótti nám og reynslu erlendis og lagði sig síðan fram um að miðla þeim, í persónu, á annarri tungu. Það er ekki víst að miðlun sé besta orðið í þessu samhengi, því leik­inn þarf að skapa innan tungu­máls­ins, og það gerist með herkjum.

Í athugun nr. 19, stuttu áður, segir Witt­genstein, aftur grófþýtt:

Það er auðvelt að ímynda sér tungu­mál sem saman­stendur eingöngu af fyrir­mælum og skýrslu­gjöf í orrustu. … — Og að ímynda sér tungu­mál er að ímynda sér lífform.

Ein spurn­ing sem vaknar frammi fyrir útbreiddu áhuga­leysi um að rökræða valda­fyr­ir­komu­lagið, heim­ild­irnar, umboðið, lýðræð­is­legu forsend­urnar, á bakvið jafn veiga­mikið viðfangs­efni og vopna­burð lögregl­unnar, er spurn­ing um stöðu mála­leikja í tungu­mál­inu: er hér mikil­vægur leikur, jafn­vel heilt mengi eða tegund leikja, sem á eftir að stofna til, flytja inn eða skapa? Hver er munur­inn á að lifa í tungu­máli sem inni­heldur þessa leiki og tungu­máli sem inni­heldur þá ekki? Er hægt að tala um að tungu­mál vanti tiltekna leiki, og þá út frá hvaða forsendum?

Rudda­legri fram­setn­ing á sömu spurn­ingu er hvort íslenskan sem við tölum og lifum innan í dag liggi nær tungu­mál­inu sem Witt­genstein lýsir í athugun 23, með fjöl­skrúð­ugu mengi ólíkra leikja, eða tungu­mál­inu sem hann lýsir í athugun 19, sem felur aðeins í sér getuna til að gefa fyrir­mæli og segja hvernig gengur að fylgja þeim. Hvers konar lífform erum við? Hvers konar lífform viljum við verða?

Getur jafn­vel hugs­ast að þrátt fyrir útbreidda ástundun háskóla­mennt­unar og fræða í land­inu eigi eftir að flytja inn eða stofna til þess leiks að takast á um viðfangs­efni — ég vil ekki segja í rökræðu, því það orð virð­ist ná yfir frekar takmark­aðan leik sem þrífst þegar innan tungu­máls­ins — segjum í debatt? Íslenska á í það minnsta ekkert orð yfir debatt — getur verið að það sé vegna þess að fyrir­bærið sjálft vanti?

Ég held að ekkert afl í íslenskum stjórn­málum vilji að íslenska, sem slík, verði aðeins þursa­legur vett­vangur einfeldn­ings­legra boðskipta á við fyrir­mæli og skýrslu­gjöf. En ég held að full­trúum ráðandi stétta þætti mörgum þægi­leg tilhugsun að efla stétt­skipt­ingu mála­leikja: þau stéttsystkinin og banda­menn þeirra fái að njóta allra þeirra leikja sem listir og fræði hafa upp á að bjóða, en öðrum megi gjarnan halda innan girð­ingar fyrir­mæla- og búðar­leikj­anna. Minni debatt, meiri humar.

Tómas

Hin pælingin sem vaknar um tungu­mál er eldri, frá miðri 17. öld:

Coven­ants, without the sword, are but words, and of no strength to secure a man at all.

– skrif­aði Thomas Hobbes í Levi­at­han. Í grófri þýðingu, þar sem ég veit ekki til að bókin hafi komið út á íslensku:

Án sverðs eru sátt­málar aðeins orð, mátt­laus til að tryggja nokk­urn mann.

Hann notar raunar orðið terror (terrour með staf­setn­ingu 17. aldar), terror sé nauð­syn­legur til að tryggja frið í samfé­lagi, og á þar við lögregl­una: ef ekki ríki yfir­vald sem hótar og beitir terror gegn þeim sem brjóta lögin, standi hver sjálfum sér næstur í þrot­lausu stríði allra við alla, því sem hann kall­aði ríki nátt­úr­unnar. Sátt­mál­inn sem hann á við, og skal varinn með terror, er samfé­lags­sátt­mál­inn.

Terror er hér auðvitað bara enska orðið yfir eitt­hvað í ætt við ógn. Yfir­vald verður, samkvæmt Hobbes, að vera ógnvaldur, annars fari allt til fjandans.

Í þessum skiln­ingi eru flestir sammála um mikil­vægi terr­ors til að byggja upp og viðhalda samfé­lögum, allt frá kristi­legum íhalds­mönnum (samloku­þjófar skulu dúsa í fang­elsi) til lenín­ískra bylt­ing­arsinna (stéttsvik­urum skal stillt upp fyrir aftöku­sveit), að meðtöldum frjáls­lyndum (sammála um samloku­þjóf­ana), krötum (fleiri bankstera í fang­elsin, færri samloku­þjófa) og sumum, þó ekki öllum, anarkistum (sjá Franz Ferdinand).

Í dag tölum við auðvitað ekki um lögreglu­menn sem terr­orista, okkur er ekki einu sinni tamt að líta á ríkis­valdið sem ógnvald, þrátt fyrir refsi­lög­gjöf­ina. Á bakvið það býr að minnsta kosti tvennt. Í fyrsta lagi að ríkis­vald virð­ist miklu stöð­ugra í okkar heims­hluta í dag en það var þegar Hobbes skrif­aði, sjónsvið okkar nær sjaldnar út fyrir ramma þess, meðal annars vegna þess hve reglu­verk þess, orða­forði og kross-referens­aðar sjálfs­rétt­læt­ingar eru okkur töm, við erum öguð og siðuð, brúkum sjaldn­ast kjaft, langtum minni óláta­belgir en formæður okkar og forfeður voru; í öðru lagi að ríkin beita nú ríkis­borg­ara sína mild­ari terror en áður tíðk­að­ist, og að einhverju leyti af öðrum ástæðum: fang­els­is­dómur er ekki jafn grimmur og afhöfðun, refs­ing fyrir líkams­árás ekki jafn augljós­lega bundin hags­munum yfir­valds­ins sjálfs og, til dæmis, refs­ing fyrir lausa­mennsku. Það er ekki fráleitt að ætla að lýðræði hafi þessa tilhneig­ingu: ef Hobbes hefur rétt fyrir sér um að almenn­ingur eigi sameig­in­legra hags­muna að gæta í því að refsað sé fyrir skað­lega breytni, er líka ljóst að almenn­ingur á mikilla og skýrra hags­muna að gæta í því að refs­ingin sé ekki óhófleg.

Þess vegna er spurn­ingin um vopna­burð lögregl­unnar stór, veiga­mikil og varðar okkur öll: að því gefnu að almenn­ingur sé sammála Hobbes og telji sig njóta meiri verndar en kúgunar af því að ríkið grípi inn í sumar aðstæður og atburði með handafli (vald­beit­ing­ar­bún­aði eins og þeir kalla nú kylfur, piparúða, tára­gas og byssur), ásamt reglu­verki yfir refs­ingar, þá er það mikið hags­muna­mál fyrir almenn­ing að ákveða sjálfur viðmiðin sem gilda um slík inngrip.

Þegar Bubbi söng:

Við heyrðum hann kalla, biðja um vatn
kvart­aði líka um honum væri kalt.
Seinna um nótt­ina talaði út í bláinn.
það var ekki fyrr í morgun að við sáum að hann væri dáinn.

– vissu einhverjir mæta­vel hvað hann var að fara. Aðrir gátu leitt það hjá sér. Nú eigum við nettengdar mynda­vélar. Við höfum öll séð lögreglu­menn fara offari við að fólk hlýði ekki fyrir­mælum þeirra, fyrir­mælum sem okkur er samkvæmt lögum skylt að lúta, hver sem þau eru, að hlýða fyrst, kæra svo. Hvað ef lögreglu­maður sem annars hefði bara lamið höfði þínu í gang­stétt er vopn­aður byssu? Það er gott að vita að vopn­búnir menn séu þjálf­aðir í öndun og núvit­und. En það er ekki nóg.

Hnefa­rétt­ar­ríki

Ég sagði að tvennt hefði hvarflað að mér um tungu­mál í samhengi við vopna­burð – en á meðan ég þræddi saman ofan­ritað stakk þriðja atriðið upp koll­inum, augljós­ast þeirra allra og áreið­an­lega það sem okkur er tamast: vald­beit­ing og samtal útiloka hvort annað. Að lemja einhvern er að þagga niður í honum. Og sjá til þess að hann veigri sér við að opna munn­inn aftur. Að slíkt tíðk­ist í samfé­lagi, að menn komist upp með það, heitir að hnefa­rétt­ur­inn ríki.

Þetta er ekki í mótsögn við þá full­yrð­ingu Hobbes að gott samfé­lag hvíli á terror, heldur einmitt ástæða þess að hann lítur svo á: ríkis­valdið sé það vald sem, með fyrir­sjá­an­legu og reglu­bundnu ofbeldi, leysi okkur undan ófyr­ir­sjá­an­legu og duttl­unga­fullu ofbeldi hvert annars, leysi tjáskipti okkar undan lögmáli hnefa­rétt­ar­ins. Eða, svo ég mann­rétt­inda­væði Hobbes og Witt­genstein í einu höggi: að það sé terror ríkis­valds­ins sem tryggi okkur frelsið til að stunda og finna upp mála­leiki okkar að vild –– líka þann leik að efast um yfir­valdið, leik­inn að hæðast að því, leik­inn að storka því, leik­inn að krefjast breyt­inga, leik­inn að mynda samstöðu, leik­ina sem þarf til að breyt­ing­arnar verði. (Er hægt að kalla bylt­ingar leiki? Nefndi Witt­genstein það einhvers staðar? Er það hér sem líking­una þrýtur?)

Þeir dómar sem hafa nú áratugum saman ítrekað fallið gegn íslenska ríkinu fyrir Mann­rétt­inda­dóm­stóli Evrópu fyrir átroðn­ing á tján­ing­ar­frelsi blaða­manna og fleiri, eru hins vegar á meðal þess sem gefur ekki til kynna að lýðveldið Ísland sé þessi hlut­lausi vernd­ari sem haldi almanna­rým­inu, leik­velli okkar, opnu.

Þvert á móti hafa vald­beit­ing­ar­tæki ríkis­ins iðulega reynst fram­leng­ing á hnefa­rétti hags­muna­að­ila, meðal annars til að stöðva þá mála­leiki sem þeim þókn­ast ekki. Þagga niður í okkur.

Hvaða ástæður höfum við til að telja að þyngri vopn verði ekki notuð í sama augnamiði?

Sönn­un­ar­byrðin liggur að öllu leyti hjá valdhöfum.

Ef þetta ríki er okkar, og ef vald­hafar þess eru full­trúar okkar, ættu þau að vera á tánum einmitt núna, flett­andi upp í gömlum bókum og nýjum skýrslum langt fram á nætur, trufl­andi bæði afbrota­fræð­inga og félags­fræð­inga á óguð­legum tímum með áköfum fyrir­spurnum um nýjustu rann­sóknir, gleyp­andi víta­mín og lýsi með kaff­inu til að móta stefnu sína í málinu, og vera tilbúin í debatt­inn, í leik­inn, hinn óumflýj­an­lega leik, hraða­spurn­ingar, bjöllu­spurn­ingar, krossa­prófið, ritgerð­ar­hlut­ann, viljug til að játa sig sigruð og hætta kurt­eis­lega við ef við sann­fær­umst ekki.

En þvert á móti –

References
1 Þetta hér er nætur­færsla, glósur. Eigin­lega langar mig ekki að skrifa um þetta svona mónólóg, mig langar í seminar. Webinar. Er ekki til einhver enn heppi­legri vett­vangur fyrir slíkt opið samtal en Face­book? Rafrænn?