Svona heimsveldi falla ekki, þau slæda niður gang­inn; dagur 390

31.5.2017 ~ 1 mín

Þessi dagur hófst upp úr miðnætti og stefnir í að vara til miðnættis eða þar um bil, þegar ég mun logn­ast út af, nánast hundrað prósent áreið­an­lega. Dísa er á leið til lands­ins bláa. Við ræddum ýmsa hluti, svo gerðum við leið­angur: hún pakk­aði stúd­íó­inu sínu í ferða­tösku sem ég bar heim á stofugólf, þar sem hún stendur nú, nötrandi af list. Bar er samt orðum aukið: ég fletti því upp og sé að nú eru 45 ár frá því að Bern­ard nokkur Sadow fékk einka­leyfi fyrir hjólum undir ferða­töskur. 1972. Fimmtán árum síðar, 1987, fékk flug­mað­ur­inn Robart Plath þá hugmynd að setja hjólin undir mjórri endann á tösk­unum, svo renna mætti þeim hér um bil uppréttum — þar með varð flug­freyjutaskan til og allt sem af henni leiddi, áratugir linnu­lausra fram­fara og vaxandi viðstöðu­leysis, þar til nú í dag að ég renndi ferða­tösku fullri af mynd­list ljúf­lega yfir meira eða minna renni­sléttar gang­stéttir og brautar­palla, frá einu farar­tæki í annað, sem ferj­uðu okkur öll, á hjólum, Dísu, stúd­íóið og mig, lang­leið­ina frá A til B. Hefðu Madow og Plath ekki fundið upp hjólið væri hér engin blogg­færsla, ég lægi þegar örendur af þreytu eftir þetta ferða­lag, ef við værum á annað borð komin heim.

Ef eitt­hvað fleira gerð­ist í dag man ég það ekki. Jú, já, alveg rétt. Árið 2011 skrif­aði Bret Easton Ellis grein­ina Notes on Charlie Sheen and the End of Empire, sem virð­ist, sex árum síðar, nokkuð skil­merki­leg grein­ar­gerð fyrir því hvað er svona heill­andi við furð­u­gang­virkið forseta Banda­ríkj­anna, eða hverju við göpum yfir þegar við göpum yfir Trump. Hugsa sér að landið sem varð fyrst til að senda menn til tungls­ins og síðast til að finna upp hjólið skuli nú covfefe.