Sól skein á mig; dagur 393

28.5.2017 ~ 1 mín

Hvað getur maður sagt, það er sumar. 30 stig plús. Óbæri­legt. Sumarið er eins og komm­ún­ism­inn, ómót­stæði­leg kenn­ing en oft aðþrengj­andi í praxis, eins gott að finna undan­þágu í góðum skugga.

Þar sem heyrst hefur að embætt­is­menn velferð­ar­rík­is­ins skoði færslur á samfé­lags­miðlum, blogg og annað til að rann­saka skjól­stæð­inga sína, er rétt að taka fram að eigin­kona mín var að ljúka námi nú í vor. Erinda­gjörðir okkar til útlanda eru lögmætar, þó að hér sé sumar. Sem maður hikar stundum við að nefna á íslensku, eins og snöru í hengds manns húsi. Því er rétt að undir­strika að sólskinið er snara líka, fyrir sitt leyti.

Síðustu daga hélt ég mig innan­dyra að mestu — en í dag fór ég úr húsi. Ég ásetti mér að hjóla þriggja og hálfs kíló­metra leið í næstu verslun — það er næstu verslun með leyfi til opnunar á sunnu­degi — en það reynd­ist óger­legt. Eða óráð­legt. Ég ákvað að gera það ekki. Fór tæplega hundrað metra leið út á bens­ín­stöð í stað­inn, þær hafa sunnu­dags­leyfi líka, sótti brýn­ustu nauð­synjar, hjól­aði hundrað metra í viðbót, lagði hjól­inu við garð, lagð­ist sjálfur í grasið, las þar, og lauk við þessa bók sem netið heldur mér frá þegar ég er heima­við. Gæfunni sé lof fyrir netlausa garða.

Information super­highway — það var orða­lagið sem Al Gore kynnti til sögunnar þegar hann ákvað að háhraðanet­væða Banda­ríkin. Og enginn velti því fyrir sér hvort það væri virki­lega ráðlegt að leggja hrað­braut gegnum heim­ili sitt, yfir stof­una, eldhúsið, svefn­her­bergið, jafn­vel baðið.