Mildi skýja, frelsi Svía; dagur 391

31.5.2017 ~ 3 mín

Það er spáð þrumu­veðri á laug­ar­dag sem verður, ef spáin stenst, nokkur léttir því annars er sólskin fram að því og sólskinið, eins og það er ljúf tilhugsun á miðjum vetri, og flesta daga á Íslandi, er brjál­æði þegar það raun­veru­lega gefst. Ský eru mikil mildi og skrítið að við höfum ekki tamið okkur að lofa þau meira. Við, kollektíft, þetta mann­kyn eða pláss­frek­ustu hlutar þess: í nær öllu líkinga­máli sem skír­skotar til veðurs er sólskinið gott, skugg­inn eitt­hvað síðra, jafn­vel slæmt, boðberi válegra tíðinda. Stundum er eins og þessi tungu­mál viti ekkert um heiminn.

Vinir okkar fluttu í dag í fallega íbúð á þar þar næsta horni frá okkur. Við bárum kassa, poka, stól og ísskáp í og úr sendi­bíl. Þau flytja inn til að fara strax út, skilja eftir poka, kassa, ísskáp og stól, eru á leið til Íslands í vinnutörn en þegar þau koma aftur eigum við nú bestu nágranna sem ég get hugsað mér.

Ég opna Guar­dian og les um Trump en þegar ég opna Face­book les ég um Costco. Ég held að sjón­ar­miðin tvö til þess­arar versl­unar hafi birst í sinni hrein­ustu mynd, hingað til, í tveimur færslum: annars vegar frá konunni sem sagði búðina færa Íslend­ingum bylt­ing­una sem þeir hefðu vænst frá Alþingi en aldrei fengið; hins vegar frá karl­inum sem sagði Ísland eiga að vera dýrt land því þar væri svo gott að búa, það væri bein­línis rangt að láta ekki okra á sér fyrir forréttindin.

Það er freist­andi að segja að hvor­ugt þeirra hafi neitt til síns máls — en það er ekki satt. Okur er svívirða. Annar vinanna sem flutti í dag sagði mér frá vini sínum sem, nýkom­inn til borg­ar­innar, leit við í reifi sem haldið var í almenn­ings­garði einhvern síðustu daga: plötu­snúður og hátal­arar, diskókúla í tré, en enginn bar, engin sjoppa í augsýn og margir þyrstir. Þegar vinur vinar­ins sér mann á vappi með bjór til sölu hugsar hann með sér: jæja, þessi maður er augljós­lega í einok­un­ar­stöðu hér á svæð­inu, bjór­inn hans hlýtur að kosta alla­vega tíu evrur (tæpar 1200 krónur) en það er gaman hérna svo ég læt mig hafa það. Þegar götu­sal­inn með eina bjór­inn í garð­inum reyn­ist selja flösk­una á tvær evrur, tárað­ist vinur vinar­ins af gleði yfir þessum hugsjóna­manni sem slekkur þorsta djamm­fugl­anna fyrir í hæsta lagi 70 senta ágóða af hverjum drykk.

Ég held að við höfum öll upplifað þetta, í það minnsta allir land­flótta­menn­irnir í þess­ari borg: furð­una, létt­inn, mild­ina, yfir að okur sé ekki úniversalt. Ein megin­á­stæða þess að fólk ílend­ist í borg­inni er að hér er tiltölu­lega lítið okrað á húsnæði. Það þykir mikil­vægt og til að þannig verði það áfram hefur starf­semi AirBnB að mestu verið bönnuð hér.

Gull og grænir skógar, nei. En lítið okur. Það er ekki bara gott vegna þess sem spar­ast — peningar eru tími manns og tími er allt, svo það er veiga­mikið — en það er líka gott vegna þess að okur er svívirða. Í okur­landi er maður svívirtur fyrir að fara á barinn, svívirtur fyrir að drekka kaffi, svívirtur fyrir að borða mat, svívirtur fyrir að búa í húsi, fyrir að ganga í fötum, og svo fram­vegis. Tilfinn­ingin er lýjandi, og mest lýjandi þegar maður er hættur að gefa henni gaum.

Að því sögðu er Costco auðvitað ekki bylt­ing því bylt­ingar koma ekki utan að. Í bréfum sem banda­ríski höfund­ur­inn Susan Sontag skrif­aði þegar hún dvaldi í Svíþjóð, og hafa birst á prenti, sagði hún nokkuð hrifin frá ýmsum þáttum jafn­aðar í land­inu — en hafði engu að síður á honum veru­legan fyrir­vara, þar sem það blasti við, sagði hún, á götum úti, að land­inu væri enn óbylt: líkamar fólks væru ekki frjálsir.

Frjálsir líkamar koma ekki frá kóng­inum og ekki frá Costco. En mildir kóngar og keis­arar hafa víst heldur kallað yfir sig bylt­ingar til þessa en þeir ófyrirleitnustu.