Tilkalls­sýki

28.11.2016 ~ 5 mín

„Let them deny it“ – ég var barn þegar ég heyrði fyrst þennan frasa, sem er eign­aður Lyndon B. John­son, Banda­ríkja­for­seta. Hann hefði stungið upp á því að klaga einhver ósköp upp á póli­tískan andstæð­ing, sagði sagan. Þegar ráðgjafi svar­aði því til að það væri augljós lygi á Lyndon að hafa svarað með þessu viðkvæði. „Let them deny it“ er raunar stytt, almenn útgáfa. „Let the bast­ard deny it“ virð­ist helst í umferð þessa dagana, en „Let’s make the bast­ard deny it“ er hugs­an­lega uppruna­leg­ust, hvað sem það þýðir í þessu samhengi.

Á Íslandi er viðkvæðið vel þekkt. Elsta tilfelli þess í íslenskum prent­miðli virð­ist vera í grein sem Árni Berg­mann skrif­aði í Þjóð­vilj­ann 1979, eftir að blaða­maður Vísis hafði kallað hann „fyrr­ver­andi KGB-agent í Moskvu“. „Let the bloody devil deny it,“ er útgáfa Árna. Þá hafði John­son legið dauður í sex ár. Hafi Árni samið línuna, eða flutt hana inn, þá er ekki nóg að fyrir­gefa honum heldur á hann lof skilið, samkvæmt því viðmiði Salvadors Dali, að fyrsti maður­inn til að líkja ungri konu við rós var augljós­lega skáld, þó að sá næsti hafi vel mögu­lega verið idíót.


Línan birt­ist aftur 1980 og 1981. Í heilan áratug liggur hún síðan í þagn­ar­gildi, eða utan­prents að minnsta kosti, þar til 1990 að hún skýtur upp koll­inum í blaða­grein. Og hverfur ekki síðan.

1998 birt­ust í það minnsta fimm blaða­greinar með þessu viðkvæði. Metár þess hins vegar, er 2007. Um þann rógburð að mótmæl­endur við Kára­hnjúka fengju borgað fyrir að láta hand­taka sig var skrifað: „Þetta voru bara dylgjur samkvæmt formúl­unni: „Let the bast­ards deny it!“. Á sama tíma brást „sögu­rit­ari Ísal“ við athug­unum Land­verndar á loft­mengun sem sagt var að bærist yfir Hafn­ar­fjörð, frá Hvera­virkj­unum með grein­inni „Er Nixon orðinn frétta­stjóri á Íslandi?“ Þar má lesa að athæfi Land­verndar sé: „allt í anda forset­ans Nixons; let the bast­ards deny it – látum helv… neita því“. Sú grein hét „Er Nixon orðinn frétta­stjóri á Íslandi?“, og var svarað í grein­inni „Nixon og hver­a­lyktin“. Henni svar­aði sögu­rit­ari ÍSAL með pistl­inum „Nixon og skratt­inn á veggnum“, 159 orða ritgerð þar sem máltækið kemur fyrir þrisvar sinnum.

Rúmri viku eftir þetta orða­skak birt­ist loks grein­ar­stúf­ur­inn „Til varnar Nixon“, til að benda á að Nixon hafi ekki sagt „Let the bast­ard deny it!!!“, heldur Johnson.

Árið 2008 dettur svo allt í dúna­logn. Árið sem Ísland afhjúp­að­ist lætur enginn hafa það eftir sér að Nixon eða John­son liggi í loft­inu. Viðkvæðið hefur raunar ekki borið sitt barr síðan.

Fyrr en semsagt að það krælir á því núna. Máltækið sem á níunda áratugnum var sagt upprunnið í því að Lyndon B. John­son hefði logið fjár­glæfrum upp á mótfram­bjóð­andi sinn, er nú sagt tilkomið kringum lygi sama forseta um að andstæð­ingur hans „hefði kenndir til svína“. Þannig virka tilvitn­anir án heim­ilda, þær laga sig betur að tíðarandanum.


Lyndon B. Johnson í Reykjavík

Það sem ég vildi hins vegar fara með þessu er að þó að þessi ummæli séu einatt viðhöfð innan gæsalappa, á ensku, og beri með sér að þau séu víðförul eins og mæland­inn – en um leið kannski ný speki fyrir þekk­ing­ar­þyrstum lesanda – þá lítur ekki út fyrir að þau séu mikið þekkt eða notað utan Íslands.

Gúgli maður þá útgáfu sem er algeng­ust meðal Íslend­inga, „let the bast­ard deny it“, birt­ist listi yfir 45 tilfelli, alls. Af þeim eru 32 frá Íslandi. „Let the bloody devil deny it“, útgáfa Árna Berg­manns, er bara til á Íslandi. Sama á við ef ég geri leit í bókum, þar koma aðeins upp íslenskir textar – ekki einn einasti á ensku. “Let’s make the bast­ard deny it” er eina útgáfan sem birt­ist oftar í enskum texta en íslenskum, hvort sem er á vef eða prenti. Hún hefur ratað í sex bækur, þar á meðal bókina Better Than Sex eftir Hunter S. Thomp­son. Utan bóka fyrir­finnst þessi lína alls 2.470 sinnum á netinu. „Í draumi sérhvers manns“, til saman­burðar, finnst 9.450 sinnum. „I have a dream“: 40 milljón. (Í íslenskum prent­miðlum hafa orðin „I have a dream“ birst um það bil jafn oft og slótt­ug­heitin hans John­son – en reyn­ist oftar en ekki vísa til samnefndrar plötu hljóm­sveit­ar­innar ABBA, frekar en til ræðu Mart­ins Luther King).

Með öðrum orðum eru til heim­ildir utan Íslands um að eitt­hvað í þessa veru hafi verið haft eftir Lyndon B. John­son (þó að fáir virð­ist í dag full­yrða að orðin séu bein­línis frá honum komin). En hvergi virð­ast þau hafa komist á sama flug og á Íslandi. Hvers vegna? Verða Íslend­ingar oftar fyrir því en aðrir að logið sé upp á þá? Eða eru þeir kjark­meiri en aðrir við að rísa upp gegn slíku? Eru þeir væni­sjúk­ari en aðrir, hætt­ara en íbúum annarra mála­svæða við að telja sig borna röngum sökum?Eða birt­ast hér slótt­ug­heit Íslend­inga, gripu þeir á lofti þetta orðfæri sem aðrir fóru á mis við, til að smokra sér út úr vand­ræðum þegar rök þrýtur – til að gera, eigin­lega, það sem þeir þar með væna andstæð­ing­inn um?


Ég veit það ekki. Mér datt í hug, þegar ég sá þetta birt­ast á ný, enska orða­lagið „sense of entit­lement“. Að finn­ast maður eiga tilkall til forrétt­inda. Tilkalls­sýki datt mér í hug að mætti kalla það. Efri stéttir þjást nú af tilkalls­sýki svo ræða má um faraldur. Á frum­stigi birt­ist hún sem einföld, hvers­dags­leg frekja. Á seinni stigum getur tilfinn­ing fyrir tilkalli til alls konar gæða, umfram annað fólk, þróast í óyggj­andi, efalausa sann­fær­ingu. Á loka­stigi lýsir tilkalls­sýki sér í hugmyndum um óskeik­ul­leika: stétt sem er svo langt leidd af pest­inni tekur botn­lausa hugaróra sína fram yfir hvaða stað­reynd sem er borin á borð fyrir hana. Stað­reyndir máls­ins, hvað sem um ræðir, víkja þá fyrir eðli máls­ins. Meðlimir stétt­ar­innar verða í einlægni sann­færðir um að hvaða sökum sem þeir eru bornir séu þær, eðli máls­ins samkvæmt, rangar. Inni­legur þótti og vand­læt­ing þeirra sjálfra birt­ist þeim sjálfum sem óhrekj­an­leg stað­fest­ing þeirra eigin sann­fær­inga, og hrakn­ing á hverju öðru sem kann að hafa verið haldið fram en verður gleymt fyrir bröns.

Hvort það er þá tilkalls­sýkin sem ræður því að Ísland á, svo gott sem, sína eigin tilvitnun í Lyndon B. John­son? Eins og ég sagði, ég veit það ekki. Samt varla. Ástandið er, eins og stéttin sem það plagar, alþjóð­legt. Eftir stendur ráðgáta.